Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Greiningar eru hluti af því að vera manneskja

By desember 10, 2016No Comments

Tilfinningar á borð við feimni eða depurð eru eðlilegur hluti lífsins og eitt af því sem gerir okkur mennsk. Pössum okkur að stimpla ekki mennskuna sem sjúkdóm og ýta henni þannig frá okkur og yfir til sérfræðinganna. Fagvæðing mennskunnar getur verið varhugaverð, segir geðhjúkrunarfræðingurinn Dr. Gísli Kort Kristófersson.

Gísli Kort Kristófersson var búinn að vinna í tvo daga á hjúkrunarheimili þegar hann vissi hvað að hann vildi gera við líf sitt. Síðan þá hefur hann unnið við að hjálpa fólki og sérhæft sig í geðhjúkrun.

„Ég var tuttugu og eins árs þegar ég fór eiginlega óvart að vinna á hjúkrunarheimili í Reykjavík. Ég man að ég byrjaði á sama tíma og tveggja barna húsmóðir úr Grafarvoginum sem var örugglega talinn miklu líklegri til að endast þarna en ég. Við fórum saman inn til veikrar konu og það voru þar einhverjir líkamsvessar og lykt en mér fannst þetta ekkert mál á meðan hún rauk út og kastaði upp. Ég fann að ég gat gert gagn og haldið ró minni í krefjandi aðstæðum og kannski hjálpað fólki að halda reisn sinni á sama tíma. Síðan þá hef ég viljað vinna við að hjálpa fólki.“

Heillaður af geðinu

Ári eftir að hafa fundið óvart sína hillu í lífinu ákvað Gísli að fara í hjúkrunarfræðinám. Fyrir útskriftina vorið 2004 vann hann á hjúkrunarheimili, á endurhæfingadeild og krabbameinsdeild en ákvað svo að prófa geðbransann haustið 2004 og hefur verið þar síðan.
Eftir átta ára dvöl í Bandaríkjunum þar sem Gísli sérhæfði sig í geðhjúkrun hefur fjölskyldan nú komið sér vel fyrir á Akureyri og í dag er Gísli lektor í geðhjúkrun við heilbrigðisvísindasvið HA, aðjúnkt við HÍ og starfar einnig sem sérfræðingur í geðhjúkrun í barna- og unglingageðteymi Sjúkrahúss Akureyrar.
„Ég hef alltaf haft áhuga á geðinu, það er svo heillandi. Það sem heillar mig sérstaklega er að raunveruleikinn virðist ekki skipta öllu máli þegar kemur að því hvernig okkur líður, heldur hvernig við skynjum raunveruleikann. Ég held að það séu til mjög margar og ólíkar leiðir til að hafa áhrif á skynjun okkar á raunveruleikann. Og ég held að við þurfum ekkert alltaf að breyta þeim raunveruleika sem við upplifum til að líða betur, þó vissulega sé það þannig í einhverjum tilfellum.

Kynáttunarvandi er enginn vandi

Gísli segir fólk oftast leita sér hjálpar þegar upplifun þeirra af raunveruleikanum er farin að hafa of mikil neikvæð áhrif á lífið, þegar upplifunin er farinn að skerða lífsgæðin.
„Það er alltaf spurning hvernig maður skilgreinir sjúkdóma og við notum greiningarhandbækur til þess. Greiningartækin þar eru búin til af okkur, sem þýðir að við höfum sammælst um það sem samfélag hvar línan liggur. Tungumálið í þessum handbókum er á þessa leið og mér finnst það mjög vitrænt. En við þurfum samt að muna að við fengum ekki þessar greiningar á sama máta og Móses fékk boðorðin. Það eru allskonar samfélagslegir þættir sem hafa áhrif á greiningarnar og samfélagið er alltaf að breytast. Við skulum ekki gleyma því að fram til 1973 þá var samkynhneigð skilgreind sem geðsjúkdómur í þessum sömu handbókum og fór ekki almennilega út úr þeim fyrr enn 1987. Við erum kannski að sjá svipaða þróun í dag með það sem er talað um sem kynáttunarvanda, sem mögulega væri ekki neinn vandi ef ekki væri fyrir skilningssljótt samfélag. Við getum átt það til að gleyma okkur í greiningunum, að halda að við höfum verið sköpuð eftir þeim, eins og einhver hafi sest niður og búið til manneskjur eftir fyrirskriftinni í handbókunum og þær séu óháðar samfélagsbreytingum. En það er semsagt ekki þannig.“

Greiningar eru ekki algildur sannleikur

Greiningar hafa alla tíð þjónað þeim tilgangi að skilgreina mannlega hegðun og segir Gísli þær í raun ekki vera annað en klaufalegar tilraunir til að lýsa fjölbreytileika mannlegra tilfinninga og hegðunar.
„Þessir stimplar ná að einhverju leyti utan um afbrigðilega mannlega hegðun og þjáningu og ég veit í raun ekki um neina betri leið. En við þurfum alltaf að vera meðvituð um hættuna sem þessu fylgir, þetta er tæki og við megum aldrei gleyma því að við bjuggum þetta tæki til.
Við getum verið rosalega öfgakennd í framsetningu og notkun á þessum greiningum, eins og þær séu algildur sannleikur og að manneskjan geti aldrei orðið neitt annað en þessi greining. Við megum ekki gleyma því að allt það sem fellur undir þessar greiningar er hluti af því að vera manneskja. Og allar manneskjur eiga að vera hluti af samfélaginu. Það má aldrei verða svo að aðeins fagmenn geti hjálpað náunganum, við megum ekki fagvæða mennskuna. Það er frábært að við séum hérna allt þetta flotta fagfólk með allar okkar fínu gráður, en við megum ekki gefa þau skilaboð að venjulegt fólk þori ekki að segja góðan daginn við þá sem glíma við geðraskanir. Því fleiri fagmenn sem við framleiðum á einhverju sviði því háværari verður krafan um að alls kyns „áhugamenn“ séu ekki að skipta sér af en þetta er djörf krafa þegar kemur að því að einoka það að aflétta mannlegri þjáningu.“

Samfélagið má ekki bregðast

„Tilfinningar á borð við feimni eða depurð eru eðlilegur hluti lífsins og eitt af því sem gerir okkur mennsk en það kemur fyrir að
foreldrar sem tókust nokkuð vel á við feimni eða dapurleika barnsins síns, eru allt í einu ekki lengur sérfræðingarnir í líðan barnsins síns og fá beint eða óbeint þau skilaboð að þau ættu að „hætta að vera fyrir“ þegar barnið fær greiningu. Hluti vandans er líklega árátta okkar til að sjúkdómsvæða mennsku okkar. Ég er ekki að gera lítið úr starfi okkar sérfræðinganna en það skiptir svo miklu máli að á sama tíma reynum við að hafa sem flesta með í að aðstoða þá sem líður illa. Samfélagið má ekki bregðast sinu hlutverki og við megum ekki nota tungumál sem útilokar alla aðra en sérfræðinga í því að hjálpa hvert öðru því þannig er hætta á því að við jaðarsetjum þá sem eru veikir og einangrum þá enn frekar.“

Nauðsynlegt að færa valdið til fólksins

Gísli segir þetta sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að rannsóknir sýni endurtekið að samband við manns nánustu og umheiminn sé afskaplega mikilvægur hluti af bataferli sjúklinga, ekki síst þeirra sem glíma við geðræna kvilla. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að við séum öll að hjálpast að í þessu. Við megum ekki vera hrædd við að hjálpa og aðstoða hvert annað. Það hvernig við tölum saman um geðsjúkdóma verður að vera valdeflandi bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið. Hluti af tabúinu sem umlykur geðsjúkdóma, og sem hefur valdið því að samfélagið hefur ýtt geðsjúkum í jaðar samfélagsins, er hversu forræðishyggjan hefur verið sterk í geðheilbrigðismálum hér á landi. Fólk hefur verið beitt valdi, eða öllu heldur hefur valdið verið tekið frá fólki af starfsfólki í hvítum sloppum, en það er nauðsynlegt að færa valdið til fólksins,“ segir Gísli og bendir á að einnig sé nauðsynlegt að útrýma þeirri langlífu hugmynd, sem byggi á gömlum karlmennskuhugmyndum, að best sé að fela alla vanlíðan.

Allir finna til

„Það hefur löngum verið bjargráð íslenskra karla að halda kjafti og halda áfram. Þess vegna er gott að við viðurkennum það sem REM söng um í gamla daga: Everybody hurts. Það er fínt að við vitum það og viðurkennum, að allir finna til. Þó að einhver sé með geðsjúkdóm þá breytir það því ekki að við eigum að reyna að hjálpast að og alls ekki stuðla að einangrun viðkomandi. Þú þarft ekki að vera með doktorsgráðu til að mæta á svæðið með mat til viðkomandi, kippa viðkomandi með á kaffihús eða í sund eða bara bjóða góðan daginn fallega. Það er ekki það sama að vera aðstandandi einhvers með geðsjúkdom eða með krabbamein þó hvorugt sé létt. Álagið á einstaklinga með geðsjúkdóm og aðstandendur þeirra er oft svo langvarandi, oft í áratugi, og þar hefur sýnt sig að skynjaður félagslegur stuðningur er mjög mikilvægur. Þeir sem upplifa að þeir fái stuðning vegnar hvað best. En það er því miður oft þannig að þessi heimili einangrast, út af skömm og fordómum, þau heimili sem þurfa hvað mest á félagslegum stuðningi að halda. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að hafa fagmenn en ef við ákveðum að stofnanir séu það eina sem geti hjálpað þá erum við komin í vandræði. Það er talað um að guð hjálpi þeim sem hjálpast að og það finnst mér afar falleg hugsjón, og það sem betra er, hugsjón sem studd er af rannsóknum í þessu tilfelli.“

Gein birtist upphaflega í fréttatímanum