Skip to main content
Greinar

Geðlyf

By febrúar 21, 2014No Comments

Pétur Hauksson

Helstu flokkar geðlyfja eru geðrofslyf, þunglyndislyf og kviðastillandi lyf. Önnur lyf eru einnig notuð við geðröskunum, svo sem flogalyf.

Geðrofslyf komu á markaðinn snemma á 6. áratugnum og stuðluðu að því að margir vistmenn á stóru geðveikrahælunum gátu útskrifast. Geðrofslyf hafa mikil áhrif á alvarleg geðrofseinkenni svo sem ofskynjanir og ranghugmyndir. Nýrri geðrofslyf eru einnig talin draga úr óvirkni og tilfinningadoða sem fylgir gjarnan geðklofa, og hafa minni aukaverkanir frá miðtaugakerfi, en geta valdið öðrum aukaverkunum, svo sem þyngdaraukningu og blóðsykurhækkun. Margir taka lyfin óreglulega, þótt æskilegt sé að taka þau að staðaldri.

Um 1990 komu ný þunglyndislyf á markað sem hafa minni aukaverkanir en þau gömlu. Síðan þá hefur sala þunglyndislyfja meira en tífaldast. Þunglyndislyf lina þjáningar margra, en þrátt fyrir söluaukninguna hefur tíðni alvarlegra afleiðinga þunglyndis, þ.e. sjálfsvíga, innlagna og örorku, haldist óbreytt. Þunglyndislyf duga ekki alltaf til að lækna þunglyndi. Endurtekið eða langvinnt þunglyndi sem svarar ekki meðferð veldur þjáningum einstaklingsins og kostnaði fyrir þjóðfélagið. Svipaður árangur næst með hugrænni atferlismeðferð og lyfjameðferð, og er meiri ef báðar meðferðir eru veittar. Langtímaárangur getur verið meiri hjá þeim sem fá hugræna atferlismeðferð. Hins vegar fær stór hluti þeirra sem eiga við geðröskun að stríða enga meðferð.

Kvíðastillandi lyf hafa þann ókost að þau eru flest vanabindandi, þ.e. að þol myndast gegn þeim og fráhvarfseinkenni geta komið fram þegar töku er hætt. Samt sem áður getur þurft að grípa til þeirra, helst í stuttan tíma, ef kvíði er á háu stigi.

Geðfræðslan