Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

Frá Hugaraflsfélaga

By apríl 3, 2017No Comments

Þórey Guðmundsdóttir skrifar:

11403277_10207088164865705_6860031383499678451_nHugarafl hefur verið stór partur af lífi mínu frá 2006. Ég er ein af stórum hópi sem hefur sótt þangað þjónustu, stuðning og hef náð að stíga stór skref í bata vegna þeirrar umgjarðar sem þar er boðið upp á. Frá upphafsdögum Hugarafls hefur grunnurinn í starfi þess verið valdefling, trú á bata og jafningjanálgun. Starfið hefur þróast jafnt og þétt með gríðarlegri aukningu félagsmanna og hefur starfsemin oftar en einu sinni sprengt af sér húsnæði.

Þegar ég sótti fyrst Hugarafl var það vegna þunglyndis, kvíðaröskunar og félagsfælni sem ég hef glímt við frá 16 ára aldri. Ég hafði leitað víða eftir aðstoð en það hafði ekki skilað árangri. Með þátttöku minni í starfi Hugarafls öðlaðist ég smám saman styrk og bata. Með árunum breyttist þátttaka mín yfir í að styðja aðra félagsmenn og að taka þátt í eða stýra verkefnum innan húss. Barátta Hugarafls fyrir bættum hag fólks með geðraskanir og fyrir breyttri nálgun í geðheilbrigðismálum höfðaði sterkt til mín og ég upplifði að rödd mín og reynsla höfðu vægi í þeirri baráttu. Það er valdefling í sinni hreinustu mynd, að mínu mati.

Svo fór að ég náði það góðum bata að ég menntaði mig í félagsráðgjöf og kláraði mastersnám vorið 2016. Á þeim tíma var ég ekki virk í starfi Hugarafls en þegar ég upplifði erfiða tíma sem komu fram í tímabilum þunglyndis og kvíða þá hafði ég sterkt bakland í Hugarafli. Þú þarft nefnilega ekki að útskrifast frá Hugarafli nema að eigin vilja sem er ekki algengt í geðgeiranum og þér stendur til boða að leita þangað aftur þrátt fyrir fjarveru.

Þetta reyndist mér ómetanlegt árið 2013, þegar ég var að byrja á mastersverkefninu mínu að fyrri veikindi mín komu með þreföldum krafti og lögðu mig að velli. Þá gat ég leitað í baklandið mitt í Hugarafli. Aftur núna haustið 2016 þegar ég reyndi við fyrsta starfið mitt sem félagsráðgjafi. Þegar öll von um betri tíma var fokin og öll ljós slökkt þá var Hugarafl viti í myrkrinu.

Ástæðan fyrir því að ég finn mig knúna til að rita þessi orð er sú staða sem Hugarafl stendur frammi fyrir um þessar mundir. Félagsmálaráðuneytið hefur hafnað beiðni Hugarafls um fjárstyrk til félagasamtaka og Heilbrigðisráðherra býður einungis rúmlega eina og hálfa miljón fyrir árið. Síðustu árin hefur gengið illa að fá fjárveitingu frá stjórnvöldum en núna virðist dyrum vera lokað af þeirra hálfu. Þrátt fyrir öflugt sjálfboðaliðastarf innan samtakanna þá þarf nauðsynlega fjármagn til þess að halda úti starfseminni. Hversu lengi er hægt að ætlast til þess að samtök haldi úti starfi á lágmarksfjármagni. Starfi sem mætir þörfum fjölda fólks sem stendur frammi fyrir erfiðum veikindum, þörfum sem yfirvöld geta að mörgu leyti ekki mætt.

Sagan mín er ein af svo ótal mörgum sem hafa notið góðs af starfi Hugarafls og ég vona að með frásögn eins og þessari sé hægt að vekja aðra til vitundar um hve alvarleg staðan er.

Hér að neðan má sjá dæmi um starf Hugarafls:

• Í Hugarafli er rekin mjög öflug notendastýrð endurhæfing með 60 virknistundum á viku.
• Í hverjum mánuði koma 177 einstaklingar og njóta þjónustunnar.
• 900 manns fá aðstoð hjá Hugarafli árlega.
• Sjálfboðavinna er innt af hendi Hugaraflsfélaga og flestir viðburðir í stundaskrá starfsins eru í höndum þeirra.
• Aðstandendur hittast hálfsmánaðarlega til að styðja hvert annað.
• Öflugt ungmennastarf
• Reglulegar ráðstefnur og málþing um geðheilbrigðismál