Skip to main content
Fréttir

Enginn stuðningur frá félagsmálaráðherra

By mars 1, 2018No Comments

Frá mótmælum Hugarafls við Velferðarráðuneytið í fyrra. Styrkir til Hugarafls lækka um 2.5 milljónir 2018

Hugaraflsfólk fór vonsvikið af fundi með félagsmálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, þann 27. febrúrar.  Ljóst var strax í upphafi fundar að ráðherra hafði ekki gefið sér tíma í að kynna sér málefni GET og Hugarafls og mikill tími fór því í að kynna starfsemina sem fram fer í Borgartúni 22.  Eftir kynninguna tjáði ráðherra fulltrúum Hugarafls að félagsmálaráðuneytið teldi það ekki í sínum verkarhring að koma að málinu og vísaði til baka á heilbrigðisráðherra.

Nú er því ljóst að orð heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur sem hún lét falla í pontu Alþingis þann 30. janúar um að vel væri um framtíð Hugarafls búið að hálfu félagsmálaráðuneytinsins, voru orðin tóm.  Svör félagsmálaráðherra voru skýr um að ekkert fjármagn væri að koma frá ráðuneyti félagsmála til að tryggja starfsemi Hugarafls eftir 1.september.  Það er því allt útlit fyrir að styrkir frá félagsmálaráðuneyti skerðist um 2.5 milljónir til Hugarafls árið 2018, í stað þess að bætt sé í þegar mest á reynir.  Og tveggja ára samningur upp á 17 milljónir við Vinnumálastofnun dugir skammt til að sinna þeim mikla fjölda notenda sem leitar til okkar í Borgartúnið. Í lok fundar sagðist félagsmálaráðherra ætla að eiga samtal við heilbrigðisráðherra en gat engu svarað um hvenær það samtal yrði.  Því er ljóst að lítill skilningur er innan ráðuneyta velferðarmála á alvarlegri stöðu notenda GET og Hugarafls eða stöðu öflugra grasrótarsamtaka sem barist hafa til margra ára fyrir réttindum og bættri þjónustu fyrir fólk með geðræna erfiðleika.

Getum ekki beðið miklu lengur

Skilaboð fulltrúa Hugarafls til félagsmálaráðherra voru skýr um að samtökin gætu ekki beðið miklu lengur, meðan ráðherrar velferðarmála henda notendum geðheilbrigðiskerfisins og grasrótarsamtökum á milli sín.  Allra síst þegar þeir sömu ráðherrar, eiga að vera að tryggja að unnið sé eftir nýjum verkferlum geðheilbrigðisáætlunar, byggðum á samþættingu og samfellu milli þessara tveggja kerfa. Miklir annmarkar blasa nú þegar við á framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar sem augljóslega bitna á gæðum geðheilbrigðisþjónstu á Íslandi.  Við erum bókstaflega að tala um að fólk með geðræna erfiðleika er skilið eftir á götunni í skjóli nýrrar geðheilbrigðisáætlunnar og það er talið eðlilegt af hálfu stjórnsýslu og af ráðherrum velferðarmála.

Mikill stuðningur í samfélaginu

GET og Hugarafl finna fyrir miklum stuðningi í samfélaginu og til þess góða starfs sem unnið er í þágu geðheilbrigðismála í Borgartúni 22. Almenningur, notendur og aðstandendur, Velferðarnefnd Alþingis jafnt sem einstaka þingmenn hafa sýnt stuðning sinn í verki á síðustu vikum.  Sá stuðningur er okkur nú ómetanlegur og byggir upp von og trú um áframhaldið.  Verkefnin framundan eru stór og viðamikil.  Samheldinn hópur heldur nú ótrauður áfram sinni vinnu til að tryggja rekstur samtakanna svo hægt sé að standa við samninga og skuldbindingar.  Og ekki síður til að tryggja stuðning við þá notendur sem eru að missa sinn stuðning innan opinbers geðheilbrigðiskerfis.  Jafnframt mun Hugarafl berjast fyrir því að rödd notenda heyrist við stefnumótun og framkvæmd í geðheilbrigðismálum í framtíðinni.  Oft var þörf fyrir að sú rödd heyrðist.  En nú er hún nauðsyn þegar niðurstaðan er sú sem við blasir.