Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Ekki rétt að engum sé vísað frá á bráðadeild geðdeildar Landsspítalans

By janúar 25, 2017No Comments

Ályktun frá Aðstandendahópi Hugarafls:

Markþjálfun myndÍ fréttatíma Stöðvar tvö þann þriðja janúar var haft eftir Sigurði Hektorssyni yfirlækni á bráðageðdeild Landspítalans að engum væri vísað frá sem þangað sækir, þessi orð ítrekaði hann í útvarpsviðtali á hádegisfréttum RÚV þann 5. Janúar. Sem aðstandendur einstaklinga sem hafa þurft að sækja þjónustu til spítalans fullyrðum við að þessi staðhæfing yfirlæknisins er ekki rétt.  Á geðdeild Landsspítalans starfar margt frábært starfsfólk sem hefur veitt geðsjúkum og aðstandendum þeirra góða þjónustu og ómetanlega aðhlynningu. Fyrir það ber að þakka. En við þekkjum af eigin raun mörg dæmi um að einstaklingum hafi verið vísað frá á bráðadeild spítalans.

Við í aðstandendahópi Hugarafls sem telur um 50 manns, höfum upplifað fjölda tilvika þar sem þjónusta bráðadeildarinnar hefur verið óásættanleg með öllu. Mörg okkar leita ekki þangað fyrr en fokið er í flest skjól. Engu að síður er fólkinu okkar oft og iðulega vísað frá. Þekkjum við meðal annars fjölmörg dæmi um það að einstaklingum með sjálfsvígshugmyndir sé vísað frá og einstaklingar sem reynt hafa að taka eigið líf með sjálfskaðandi hegðun hafa þurft að gista fangageymslur því þeir fengu ekki inn á geðdeild.

Í lífi einstaklings sem er að kljást við geðræna erfiðleika er fjölskyldan oftast mikilvægasti hlekkurinn og það eykur batalíkur að tengslanetið sé virkjað. Aðstandendur vilja styðja við sitt fólk og þurfa eðlilega samtal og upplýsingar til að hægt sé að leita lausna. Lausna sem geta stutt við einstaklinginn og fjölskylduna. Við teljum að hægt væri að fyrirbyggja alvarlega erfiðleika með virku samtali og fræðslu. Að okkar mati vantar samvinnu við aðstandendur og okkur virðist að þagnarskyldan sé oft notuð til að halda okkur frá.

Þó gríðarlega margt hafi áunnist í málefnum geðsjúkra á síðustu árum, er það því miður staðreynd að samfélagið og heilbrigðiskerfið líta geðsjúkdóma enn ekki sömu augum og líkamlega sjúkdóma. Eða skyldi manni með hjartaáfall vera vísað burt af bráðadeild?

Þegar yfirmaður geðdeildarinnar neitar að viðurkenna það fyrir sjálfum sér og öðrum að þjónustustigið sé lakara en það er í raun og veru, flýtur hann sofandi að feigðarósi. Á meðan yfirmenn viðurkenna ekki vandann, eru litlar sem engar líkur á því að ástandið sé lagað og sett í viðunandi farveg. Í þessu tilviki getur líf og heilsa fólks verið í húfi.