Fjöldi fólks hefur boðað komu sína á þögul mótmæli við velferðarráðuneytið á morgun til að mótmæla því að dregið hefur verið úr stuðningi við Hugarafl. Ríkið hefur ákveðið að taka þá þjónustu inní heilsugæsluna og stjórnendur Hugarafls missa húsnæðið.
Auður Axelsdóttir er ein af þeim sem stofnaðu Hugarafl fyrir fimmtán árum með það að markmiði að fagfólk og notendur gætu unnið saman. Hugarafl sinnir nú um þúsund manns á ári sem fær tækifæri til að hitta fólk með reynslu, auk fagfólks. „Þetta eru þögul mótmæli því það hefur ekki verið hlustað á okkur,“ segir Auður
„Þetta byggir á reynslu fólks. Það er munurinn á okkur og stofnanaþjónustu. Þar er eitthvað gert fyrir fólk og úrræðin eru hjálpartæki. Hjá okkur ertu í samfélagi fólks sem er að vinna í bata sínum.“
Auður segist ekki hafa fengið neinn rökstuðning fyrir því að teymið sé lagt niður en reynt þó í heilt ár að fá svör. Er þetta persónulegt? „Að einhverju leiti held ég. Ég held að ég sé málsvari að notendur eigi að hafa vald og hef tjáð mig opinberlega um geðþjónustu og lyfjamál og það virðist ekki vera vinsælt,“ segir Auður.
Hægt er að sjá viðtalið við Auði hér og hlusta á allan þáttinn og sjá fleiri brot á K100.is
Frétt birtist upphaflega á mbl.is