Auður Axelsdóttir settist niður með Eymundi Eymundssyni, einum stofnenda og varamanni í stjórn Grófarinnar, í þætti Klikksins þessa vikuna. Eymundur er gamall Hugaraflsmaður og með lifaða reynslu af geðheilbrigðiskerfinu.
Segja má að Grófin sé ávöxtur grasrótarhóps notenda og fagfólks, sem hittist á vikulegum fundum um tveggja ára skeið. Niðurstaða þeirrar vinnu var að byggja á 10 ára farsælu starfi Hugarafls í Reykjavík og tók Geðverndarfélagið af skarið sumarið 2013 um að taka á leigu húsnæðið að Hafnarstræti 95 og hefja starfsemina alfarið með sjálfboðastarfi, í trausti þess að önnur meginstoð Hugaraflsmódelsins, launað starf fagaðila, yrði að veruleika í fyllingu tímans með stuðningi opinberra aðila.
Grófin – geðverndarmiðsöð starfar samkvæmt hugmyndafræði valdeflingar (Empowerment), þar sem áherslan er á að einstaklingurinn taki ábyrgð á eigin bata og að öll vinna fari fram á jafningjagrunni. Starfsemin hófst á alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn þann 10. október 2013 að frumkvæði og á ábyrgð Geðverndarfélags Akureyrar og nágrennis.
Innan Grófarinnar starfar einnig Unghugahópur, en það er hópur hugsaður meira fyrir yngra fólkið – 18 ára og eldri, en hægt er að kynna sér þann hóp, sem og fleira tengt Grófinni, með því að smella á viðkomandi filpa efst á síðunni.
Ef þú hefur áhuga á að kynnast starfinu er alltaf heitt á könnuni. Líka hægt að hringja senda okkur tölvupóst eða skilaboð á facebook.
Markmið Grófarinnar
- Að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir að vinna í sínum bata á eigin forsendum og eigin ábyrgð í samræmi við hugmyndafræði valdeflingar.
- Að skapa vettvang fyrir alla þá sem vilja vinna að geðverndarmálum á jafningjagrunni, hvort sem þeir kallast notendur geðheilbrigðisþjónustunnar, fagaðilar, aðstandendur þeirra sem glíma við geðraskanir, eða eru einfaldlega áhugamenn um framfarir í geðheilbrigðismálum.
- Að bæta lífsgæði þátttakenda.
- Að efla virkni fólks sem glímir við geðsjúkdóma í hinu daglega lífi.
- Að standa fyrir hópastarfi fyrir notendur og aðstandendur.
- Að standa fyrir fræðslu fyrir notendur og aðstandendur.
- Að stuðla að aukinni þekkingu á bataferlinu með áherslu á að hægt sé að ná bata og að hægt sé að fara fjölbreyttar leiðir í bataferlinu.
- Að miðla von og reynslu milli notenda. Vonin er lykilatriði í því að ná bata.
- Að vinna að fræðslu og forvörnum í samfélaginu til að auka skilning og draga úr fordómum gagnvart þeim sem eru að glíma við geðraskanir.
- Að stuðla að bættri nálgun í geðheilbrigðiskerfinu þar sem hugmyndir valdeflingar um notendasýn og bataferli á jafningjagrunni fái aukið vægi.
Grófin er staðsett í Hafnarstræti 95., 4. hæð, fyrir ofan Apótekarann í göngugötunni. Opnunartími er alla virka daga frá 10.00-16.00.
Sími: 462-3400
Netfang: grofin@outlook.com
Á facebook er það Grófin- geðverndarmiðstöð
Forstöðumaður Grófarinnar er Valdís Eyja Pálsdóttir, sálfræðingur.