Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Ég elskaði geðsjúkling -og geri reyndar enn….

By maí 8, 2015No Comments

Hún móðir mín var dásamleg kona. Hún fékk hvíldina fyrir um þremur árum síðan. Hún lést langt fyrir aldur fram, en hún fannst látin í íbúð sinni. Hún hafði legið látin á gólfinu við hliðina á eldhúsborðinu í 2-3 daga.

Hún var 63 ára þegar hún dó. Hún hefði orðið 66 ára í dag, 7. maí.

Hennar ævi var ekki rósum stráð, mig verkjar í raun í hjartað þegar ég hugsa til þess hvað hún þurfti að þola og ganga í gegnum, þessi elska. Mamma fékk greiningu um þrítugsaldurinn, um að hún væri geðveik.

Ég varð áþreifanlega vör við fordómana í hennar garð frá samfélaginu. Hún var yndisleg og hún var falleg. En stundum erfið sínum nánustu. Vægast sagt. Mig langar að segja ykkar eina litla sögu af henni og mér. Sanna sögu…

…njótið og verum góð við þá sem minnst mega sín:

Þegar ég opnaði hurðina hjá mömmu og steig inn fyrir þröskuldinn, fann ég fyrir yfirþyrmandi þunganum, svo dökkum að ég sá hann nánast með augunum. Andrúmsloftið var hlaðið svörtum skýjum. Loftleysið var algjört eða eins og örfínn veggur sem skall framan í mig með megnri ólykt sem gerði mér erfitt um andardrátt.

Ég losaði um trefilinn sem ég hafði vafið nokkrum sinnum utan um hálsinn, þennan svala vetrarmorgun.

-Rosalegur hiti er hérna, á ég ekki að opna glugga? Spurði ég um leið og ég beygði mig niður til að kyssa hana á vangann. Hún snéri sér snöggt frá mér og ég settist við hlið hennar. Það tók mig ekki langan tíma að reikna út að það lá illa á henni eins og svo oft áður. Við þögðum í fyrstu. Ég var ekki alveg búin að gera það upp við mig hvort ég ætti að nálgast hana í dag með húmorinn að vopni, ástúð eða fálæti.

-Jæja, hvað segirðu mamma mín?

Þögnin sem ríkti svo oft á milli okkar var sú eina sinnar tegundar og jafnframt sú eina sem öskraði framan í mig og skar inn að merg og beini. Hefði ég átt þess nokkurn kost, hefði ég stungið eyrunum í brjóstvasann og bara setið þarna og látið allt yfir mig ganga, brosandi eins og bjáni.

Ég hafði heitið mér því að ég skyldi aldrei yfirgefa hana. Það væri skylda mín að elska hana út í hið óendanlega. Vegna þessarar ákvörðunar minnar, hafði ég lofað sjálfri mér því með stjörnuljós í hægri hendi, að láta það sem hún sagði við mig og um mig, allan óþverrann; hafa engin eða sem minnst áhrif á mig.

Manneskjan væri jú fársjúk og í hjarta mínu fann ég oftast fyrir því hversu mikið ég elskaði þessa konu.

Þess vegna kom ég alltaf aftur.Yfirleitt sat ég og þagði. Stundum lét ég einsog fífl.

Alveg merkilegur þessi bandspotti sem hélt okkur saman og slitnaði ekki. Jafnvel þótt oft væri togað harkalega í hann í gegnum tíðina. Eftir dágóða stund sagði hún þurrlega með rámri röddu sem lituð var af áralöngum reykingum:

-Af hverju í andskotanum ert þú að troða þér inn í mína drauma? Hún horfði á mig stingandi augnaráði og bætti við með fyrirlitningu:

-Þú ert alltaf jafn ljót. Alveg eins og hann pabbi þinn.

-Hvað meinarðu með að ryðjast inn í þína drauma? Spurði ég, kannski af því að ég vildi ekki fyrir nokkurn mun að samræður okkar myndu snúast um látinn föður minn.

-Nákvæmlega það sem ég er að segja. Þú ert alltaf sama andskotans frekjan! Hún leit snöggt undan, baðaði út báðum höndum til að leggja áherslu á orð sín, áður en hún hélt áfram:

-Af hverju geturðu ekki komið þegar ég bið þig um að koma? Eins og um daginn þegar ég hringdi í þig þegar gallsteinarnir hrundu úr mér og brotnuðu á klósettgólfinu og ég skar mig í fæturna? Hvar varstu þá? Drullastu bara til mín þegar ég bið þig um það og láttu mig svo í friði þess á milli! Hún horfði á mig fjandsamlegum sljóum augum.

-Æi í guðs bænum, hættu þessu bulli. Þú ert búin að vera að tala um þessa gallsteina í mörg ár núna. Þeir hrynja ekkert bara si svona úr fólki mamma sko.

-Bulli!? Kallarðu þetta bull? Treður þér inn í mína draumaveröld án nokkurs fyrirvara? Þú ert alveg eins og hann pabbi þinn. Kemur og ferð þegar þér sjálfri hentar. Svo þegar ég þarf á þér að halda þá læturðu ekki sjá þig! Hún sneri sér frá mér og teygði sig í glas á borðinu og bætti við áður en hún fékk sér sopa:

-Veðrið var annars himneskt í nótt, það var glaða sólskin allan tímann. Hún leit aftur á mig og nú var augnaráði orðið ásakandi:

-En auðvitað veistu það, þú varst nú þarna með þitt slepjulega, lufsulega hár. Mamma fékk sér langan smók úr sígarettunni, ræskti sig og andvarpaði:

– Af hverju varstu svona blaut?

-Það veit ég ekki, hvaða vitleysa er þetta manneskja? Ég stundi eilítið og var alveg við það að missa þolinmæðina í loftleysinu.

-Má ég ekki opna einn glugga? Það er bölvuð hlandlykt hérna inni mamma.

Hún hélt áfram án þess að virða mig viðlits, eins og hún heyrði ekki í mér:

-Svo varstu í rennandi blautum og grútskítugum mórauðum kjól.

-Æi í guðanna bænum hættu þessu rugli, tekurðu ekki inn lyfin?

-Þegiðu, hvæsti hún. Grjóthaltu helvítis kjafti og skammastu þín. Það sem þú þarft að læra í þessu lífi er að hlusta einu sinni.

Ég þagði.

-Hefurðu heyrt í tussunni? Spurði hún allt í einu.

-Engri tussu heyrt í, nei… Svaraði ég og leit út um gluggann. Ég veit ekki hver var þess heiðurs aðnjótandi að fá tilnefninguna „tussa dagsins“ í hennar huga þennan eftirmiðdag, enda algjört aukaatriði.

Eins fáránlega og það hljómar, fann ég fyrir króníska gamalkunna samviskubitinu sem henni hafði tekist að troða inn í mig, af því er virtist um alla eilífð. Ólæknandi og rífandi samviskubit sem tók sig upp aftur og aftur einsog þrálátur og uppáþrengjandi vírus. Samviskubit og skömm yfir einhverju sem ég bar enga ábyrgð á.

Ég virti þrútið andlit hennar fyrir mér. Ég fann hvernig andúð hennar gagnvart mér kramdi í mér hjartað. Ásökunin og allt að því hatrið gerði mig svo ótrúlega vanmáttuga gagnvart henni.

Ég tók um hönd hennar og strauk henni létt með fingurgómunum og sagðist elska hana. Hún kippti að sér hendinni snöggt eins og ég væri baneitruð slanga.

-Farðu til helvítis og aðeins lengra. Annars er helvíti sjálfsagt of góður staður fyrir þig. Kannski er himnaríki aðeins lengra en helvíti. Hef ekki hugmynd um það. Farðu bara eitthvað út í buskann og láttu mig ekki þurfa að sjá framan í þig meir.

Þögn.

-Veistu hvað þetta þýðir annars ha? Hún leit á mig. Að dreyma þig grútskítuga í mórauðri blautri kjóladruslu?

Þögn.

Hún greip um handlegginn á mér og starði eitthvað svo einkennilega í gegnum mig með tárin í augunum, ég leit undan.

-Þú hefðir í það minnsta getað sýnt mér þá lágmarksvirðingu að vera skikkanlega til fara. Að dreyma mórautt er fyrir miklum veikindum. Svo ég tali nú ekki um mórauðan grútskítugan og blautan kjól. Þér á eftir að takast að drepa mig. Gerirðu þér grein fyrir því? Drepa mig! Þá verðurðu glöð, þegar þér hefur tekist að drepa mig! Öskraði hún móðursýkislega um leið og hún greip fastar um handlegginn á mér.

Ég sleit mig lausa og stóð upp um leið og ég spurði:

-Hvar eru fiskarnir sem ég gaf þér? Og benti á tóma glerskál ofan á sjónvarpinu, þar sem þeir höfðu áður synt hring eftir hring eftir hring í appelsínugulum klæðum.

-Dauðir. Steindauðir, svaraði hún kaldhæðnislega. -Ég gat ekki horft á þá lengur, þeir voru gjörsamlega að gera mig geðveika. Þeir kvöldust ekki neitt, ég skar þá í tvennt áður en ég sturtaði þeim niður í klósettið.

Ég stóð á miðju stofugólfinu og horfði hissa á hana þar sem hún sat undir reykskýi í stólnum sínum. Hún gat ennþá komið mér á óvart og gert mig kjaftstopp.

Þegar ég var að loka hurðinni á eftir mér, heyrði ég hana segja kuldalega:

-Þú kannski lætur mig vita ef þú hyggst troða þér inn í drauma mína í nótt. Ég get þá allavega tekið á móti þér í náttslopp. Og viltu svo gjöra svo vel að vera almennilega til fara, einu sinni!

Mamma var falleg kona – og góð…

-sagan er úr bók minni Allra síðasta eintakið – sem kom út árið 2011.

Það veit Guð að ég sakna hennar nánast daglega. Verum góð við fólkið okkar, alltaf… og sérstaklega þau sem minnst mega sín.

Ert þú ekki örugglega að fylgjast með okkur á Facebook?

heida@spegill.is
Heida  Fimmtudagur. 07 maí 2015