Skip to main content
Greinar

Dauðaósk

By maí 3, 2012No Comments

Mér er sagt að ég hafi verið hamingjusamt barn. Alltaf brosandi og hlægjandi. Persónulega hef ég enga minningu af þessu. Af einhverjum ástæðum þá virðist ég nær eingöngu muna það slæma sem komið hefur fyrir mig.

Mín fyrsta brenglun ef svo má að orði komast átti sér stað þegar ég var um það bil 7 ára gamall. Það var á þeim tíma sem ég fór að verða meðvitaður um líkama minn og hvernig hann virkaði. Það er ekkert í mínu uppeldi sem skýrir hvers vegna ég fór að hugsa eins og ég gerði á þessum tíma. En aftur að líkamanum. Ég komst að þeirri niðurstöðu að mér mislíkaði minn líkami og hvernig hann virkaði. Það má segja að ég hafi skammast mín fyrir hann og hans þarfir. Ég leyndi þessu nokkuð vel frá foreldrum mínum og vinum að því er ég held, þó veit ég ekki hversu mikið sást í gegnum mig. Með árunum jókst þessi hugsun eða ranghugmynd um líkamann. Ég upplifði mig sem, ég veit eiginlega ekki hvað ég á að kalla það en kannski að næst væri að segja sem andlega eða huglæga veru fasta í þessum viðbjóðslega líkama með öllum hans slímugu þörfum. Mér hefur alltaf fundist ég vera klofinn að þessu leyti, að vitundin eða persónuleikinn væri aðskilin líkamanum. Þannig að þarna er ég bara barn strax kominn með miklar ranghugmyndir um allt sem getur talist eðlilegt líf. Þessi hugsun gagnvart líkamanum hefur fylgt mér alla tíð síðan þó svo að seinni árin hafi ég náð vissri raunsýni á málefnið með heimspekilegri og trúarlegri hugsun.

Ég byrjaði að fá þunglyndiseinkenni þegar ég var 12 ára gamall. Þau lýstu sér þannig að ég fór að snúa sólarhringnum við, hætti að vilja vera með vinum mínum, flúði inn í óraunverulegan heim sjónvarpsins og bíómynda. Í fyrstu heillaðist ég mikið af sjónvarpsheiminum en það breytist síðan bara í flótta frá sjálfum mér. Ég í sjálfu sér naut þess ekki þess að horfa á sjónvarp en mér tókst að gleyma sjálfum mér um stund. Ég man að á þessum tíma í lífi mínu og á næstu árum hversu sjálfsmeðvitaður ég var. Mér leið mjög illa í hóp, þar á meðal í skóla og í allskyns samkomum eins og fjölskylduboðum o.s.frv. Ég forðaðist allar samkomur eins og partí með skólafélögum og skólaböll.
Sjálfsvíghugsanir fylgdu þunglyndinu. Strax á þessum unga aldri fóru hugleiðingar um dauðann að fylgja mér. Í fyrstu var það bara leið út úr mínum þjáningum, ein ofureinföld leið til að leysa öll mín vandamál á einu bretti. Ég sat einn í myrkri og lét mig dreyma um að drepa mig og hugleiddi hvaða aðferðir væru bestar. Ég man að ég hafði gaman af þessum hugsunum þó skrítið sé að segja. Þær voru mér einskonar huggun og með þessum hugsunum þá sá ég leið út. Þar sem þessar hugleiðingar um dauðann voru mér til ánægju þá eyddi ég miklum tíma í velta mér upp úr þeim. Ég skoðaði allar hliðar á dauðanum og lífinu. Það var þá sem ég komst að annarri niðurstöðu og hún var sú að ég vildi einfaldlega að ég hefði aldrei verið, aldrei fæðst. Það var þessi hræðilega tilvera sem ég hataði, í sjálfu sér ekki neitt sérstakt við hana, bara þetta að þurfa að “vera” gagnstætt því að “vera ekki”. Mér fannst ég hafa verið svikinn að hafa þurft að fæðast, ég hafið aldrei óskað eftir því. Mér fannst tilvistarleysi miklu ákjósanlegra heldur en tilvist. Í raun vildi ég þurrka út mína tilvist frá upphafi, einskonar afturvirkt sjálfsvíg. En þetta voru draumar sem ég hugleiddi fram og til baka í mörg ár og er enn að hugleiða í dag. En af hverju er ég á lífi í dag með allar þessar hugsanir og langanir til dauðans? Í fyrsta lagi þá eru það foreldrar mínir. Mér hefur alltaf þótt mjög vænt um foreldra mína og ég einfaldlega gat ekki gert þeim þann harmleik að missa barn sitt í sjálfsvígi. Í öðru lagi er það trúin sem ég tók þegar ég var um 25 ára, þá gerðist ég kaþólskur eftir miklar pælingar og kaþólsk trú og sjálfsvíg fara illa saman en ég mun koma betur að trúnni seinna í þessari sögu. Í þriðja lagi á ég lítinn hund sem mér þykir mjög vænt um og ég get ekki skilið hann eftir. Þetta er nú allt og sumt sem ég get hangið í til að forða mér frá sjálfsmorði.
En tölum aðeins um sjálfsvíg á ópersónulegri hátt. Þegar maður hefur hugleitt sjálfsvíg í jafn mörg ár og ég hef gert, þau ár skipta tugum núna, þá verður þessi hugleiðing partur af manni. Hún verður partur af persónuleikanum, hver maður er. Sjálfsvígshugleiðingin hættir að vera hugleiðing og breytist í það sem ég kalla dauðaósk. Og hvað er dauðaósk? Rannsökum orðið. Óskin að deyja. Vissulega er það partur af því. En það er meira innifalið í orðinu og það er þörfin og löngunin eftir endalokum. Maður spyr sig, hvenær tekur öll þessi vitleysa enda? Hvenær get ég farið að sofa og þurft ekki að vakna aftur um morguninn? Hvenær fæ ég loksins hvíld? Dauðaóskin er partur af mínum persónuleika, mitt líf miðast að miklu leiti við hana. Ég lifi ekki eins og annað fólk. Ég á mér ekki drauma og þrár. Það er ekkert sem mig langar að gera, það er ekkert sem mig langar að verða, það er ekkert sem mig langar að sjá eða upplifa. Ég er algerleg innantómur hvað þessa hluti varðar. Það eina sem ég er að bíða eftir er dauðinn. Dauðinn er orðinn að mínu markmiði. Það má eiginlega segja að ég lifi til að deyja. Því fyrr, því betra. Verandi með þessar hugsanir þá kýs ég að lifa rólegu lífi. Ég á mikið safn af bókum og bíómyndum sem ég get oftast gleymt mér í. Ég klappa hundinum mínum og fer með hann út að ganga. Ég vafra um á netinu mér til skemmtunar o.s.frv. Einnig tilheyri ég félagasamtökum fyrir fólk með geðraskanir sem heitir Hugarafl, þar hef ég fundið fólk sem ég á eitthvað sameiginlegt með og það hefur hjálpað mér að komast út úr félagslegri einangrun. En í grundvallaratriðum þá lifi ég mínu lífi á þeim forsendum að ég æsi ég mig ekki yfir neinu og fátt snertir mig. Þetta er mitt líf!

Ég veit ekki hvenær það gerðist í mínu lífi að ég týndi þeim hæfileika að tengjast öðru fólki á tilfinningarplani en ég veit að það gerðist snemma í mínu lífi. Ég held að ég hafi verið viðkvæmt barn þó veit ég það ekki með vissu. En af einhverjum ástæðum þá fann ég mikla þörf fyrir að byggja mér varnarveggi svo ég myndi ekki særast. Ég passaði mig alltaf á því að lenda ekki í þeirri aðstöðu að einhver gæti sært mig. Ég kaus heldur að draga mig í hlé og draga ekki athygli að mér. Svona fór ég í gegnum skóla, hálf sofandi vegna þess að ég vakti allar nætur með engan áhuga á náminu.
Með tímanaum hafði ég byggt svo gríðarlega varnarveggi í kringum mig að ég var orðinn ósnertanlegur. Það má í raun segja að ég gaf öðru fólk ekki möguleika á að nálgast mig og á sama tíma reyndi ég ekki að nálgast aðra. Það var ekki fyrr en mörgu árum seinna að ég áttaði mig á því hversu ófarsælt þetta hegðunarmunstur var en þá var það orðið of seint. Skaðinn var skeður. Ég var ekki lengur fær um tilfinningarleg sambönd við annað fólk. Ég gat að vísu verið mjög almennilegur og vingjarnlegur, ég átti auðvelt með kurteis og einlæg samskipti við annað fólk en það náði aldrei lengra en það. Ég gat ekki myndað þessi tilfinningarbönd sem leiða til vináttu. Af einhverri ástæðu var ég aldrei til í að taka þá áhættu að hleypa einhverjum inn. Þetta hegðunarmunstur hefur fylgt mér alla tíð fram til dagsins í dag. Ég hef að vísu nokkrum sinnum í gengum tíðina reynt að breytast en það hefur staðið stutt og mér hefur liðið verr á eftir. Það má segja að ég sé búinn að sættast við sjálfan mig eins og ég er með öllum mínum göllum og ég sé ekki fram á að geta breyst. Ég viðurkenni að þetta er nokkuð dökk og svartsýn niðurstaða en þegar maður hefur alið með sér hegðunarmunstur eins og ég hef í áraraðir þá hættir maður að sjá leiðir út.

Trúarskeiðið í mínu lífi hófst um tvítugt. Foreldrar mínir höfðu tekið upp á því að gerast kaþólskir þegar ég var um 18 ára gamall og í kjölfarið fóru þau að bjóða prestinum sínum í mat reglulega. Smátt og smátt kynntist ég prestinum og dældi auðvitað yfir hann minni úthugsuðu heimspeki að lífið væri tilgangslaust og tilvistarleysi væri betra en tilvist…Það kom mér mjög á óvart að presturinn hafði bara gaman af þessum hugleiðingum og svaraði mér með allt annarri heimspeki sem ég hafið aldrei heyrt talað um. Þetta gekk á í um tvö ár og þá ákváðum við að ég skildi hitta prestinn einu sinni í viku til að ræða málin. Presturinn tók upp á því að kenna mér heimspeki, allt aðra en ég hafði þróað með mér, heldur heimspeki kaþólsku kirkjunnar. Ég heillaðist með tímanum að þessari hugsun vegna þess að hún gaf mér von sem var hugtak sem ég hafði aldrei átt. Seinna með tímanum jókst áhugi minn á trúnni og guðfræðilegri heimspeki. Einnig heillaðist ég að tilbeiðslunni í kaþólskunni það sem við köllum mýstík en það orð er nú orðið útjaskað í dag. Svo kom að því þegar ég var um 25 að ég ákvað að gerast kaþólskur og þá var ég einnig með þá hugmynd að gerast prestur. Hjá mér fór þetta eiginlega saman, að gerast kaþólskur og að gerast prestur. Þegar ég var að verða þrítugur ef ég man rétt þá var ég farinn að ræða við biskupinn um að ég vildi gerast prestur. Við hittumst vikulega og ræddum málin um það hvort ég hefði köllun til að verða prestur eða ekki. Eftir nokkra mánuði þá vorum við sammála um að ég hefði köllun og næst skref væri að finna pláss fyrir mig í skóla í Róm.
Á sama tíma og þetta er allt að gerast þá er ég smá saman að veikjast af geðklofa. Geðklofinn verður til þess að ég neyðist til að hætta við allar mínar áætlanir varðandi prestinn og ég bakka út úr öllu dæminu. Einnig þurfti ég að hætta að vinna vegna þessa að ég einfaldlega réð ekki við það sem ég var að gera. En ég mun fjalla betur um geðklofann í annarri málsgrein. Það verður líka að segjast að trúin var mér aldrei auðveld. Þegar maður er sjúklega þunglyndur þá getur verið erfitt að halda í eitthvað jákvætt eins og trú. Það má eiginleg segja að ég hafi alla tíð verið að berjast milli einhverrar neikvæðrar tilvistarheimspeki og tómhyggju og síðan jákvæðrar trúar. Þessi barátta er enn í gangi. Þetta eru tvö ólík sjónarhorn á tilveruna og þó svo að ég vildi gjarnan að trúin yrði ofan á þá er staðreyndin sú að þegar maður er langt niðri þá er trúin bara dauð ákvörðun án innihalds.
Geðklofinn kom aftan að mér. Ég sá hann alls ekki koma og gerði mér enga grein fyrir því að ég væri að veikjast. Þarna var ég í góðri vinnu hjá fyrirtæki sem hét Medcare. Þar vann ég í þróunardeild og hafði það að starfi að búa til frumgerðir af vörunum okkar og síðan samsetningarlýsingar á vörunum fyrir undirverktaka. Í raun var hlutverk mitt að koma vörunni frá þróunardeild yfir í framleiðsludeild. Þetta var skemmtilegt starf og það sem var einþá skemmtilegra var að ég var að undirbúa mig fyrir að fara í nám til að læra að verða prestur. Þetta voru að mörgu leyti spennandi tímar og í fyrsta sinn hafði ég jákvætt markmið í lífi mínu. En þá kom geðklofinn inn í mitt líf. Eins og ég sagði áður þá gerði ég mér ekki neina grein fyrir því að ég væri að veikjast. Það byrjaði þannig að ég fór að heyra óm af röddum inni í íbúðinni minni. Ég heyrði ekki orðaskil heldur var þetta eins og að það væri fólk að tala í mikilli fjarlægð. Ég kippti mér nú ekkert upp við þetta, hélt bara að ´það væru komnir nýir nágrannar sem töluðu hærra. Með tímanum fóru raddirnar að verða skýrari og ég fór að heyra orðaskil. Þær voru ekkert að tala um mig eða við mig á þessu stigi heldur bara svona daglegt tal. Það var ein karlmannsrödd og ein kvennamannsrödd. Ég skildi ekkert í þessu af hverju ég væri að heyra svona vel í mínum nágrönnum sem ég hafið í 6 ár aldrei heyrt í. Mér fannst þetta skrítið en svona var þetta. Með tímanum fóru raddirnar að hafa samskipti við mig. Fyrst þá lýstu þær minni hegðun nákvæmlega, það var eins og að hafa sögumann sem stæði fyrir framan mann og lýsti hverri hreyfingu upphátt. Mér fannst þetta að sjálfsögðu mjög skrítið en gerði mér samt enga grein fyrir því að ég væri að verða geðveikur. Mánuði seinna eða svo þá fóru raddirnar að tala við mig. Þær fóru að segja mér hvað ég ætti að gera og hvernig ég ætti að gera það. Á þessu stigi voru raddirnar ekki andstyggilegar, þær voru bara frekar og tilætlunarsamar. Verandi sá þverhaus sem ég er, þá að sjálfsögðu gerði ég aldrei það sem raddirnar sögðu og eftir svolítinn tíma þá fóru raddirnar að verða andstyggilegar. Raddirnar kvöldu mig, þær töluðu illa um mig, gerðu lítið úr mér, hótuðu mér öllu illu og að því er ég held þá vildu þær gera mig vitlausan eða hreint út sagt gera útaf við mig. Þessu fylgdi mikið ofsóknarbrjálæði og ég hélt að íbúðin mín, bíllinn minn, fötin mín og vinnustaður væru full að hlerunartækum og hljóðnemum. Ég man nú samt hvað mér fannst það einkennilegt hvað raddirnar vissu mikið um mig, það var eins og að þær hefðu þekkt mig frá fæðingu. Mér finnst það skrítið núna að ég skildi ekki átta mig á því að ég væri veikur miðað við allt sem var að gerast í mínu lífi en þá verður maður að taka inn í myndina að ég vissi náttúrulega ekkert um geðsjúkdóma. Með allt þetta í gangi, raddir og ofsóknarbrjálæði þá tók ég þá ákvörðun að flytja. Ég hélt alltaf það þetta væru mínir nágrannar þannig að það var rökrétt að flýja þessa klikkuðu nágranna. Þegar ég flyt þá hafði þetta ástandi staðið yfir í um það bil hálft ár og mér var farið að líða mjög illa, bæði andlega og líkamlega. Ég fékk lítinn svefn fyrir röddunum þannig að mér leið einnig illa líkamlega. Nú ég flyt og raddirnar flytja náttúrulega með mér. Þegar ég er búinn að búa á nýja staðnum í nokkrar vikur þá fæ ég kast þar sem ég sker upp sófann minn og velti öllu um koll í íbúðinni í leit að hlerunartækjum. Það var þá sem mig fór að gruna að eitthvað væri að hjá mér. Þarna hafði liðið rúmlega hálft ár af gríðarlegum ranghugmyndum og mér hafði aldrei dottið það í hug að eitthvað gæti verið að hjá mér. Málið með raddirnar var að ég upplifði þær ekki inni í hausnum á mér heldur voru þær utanaðkomandi eins og ég væri að heyra í annarri manneskju. En þannig er þetta nú bara. Þegar skynfærin bregðast manni eins og í mínu tilfelli heyrnin, þá gerir maður sér ekki grein fyrir því sem er að gerast jafnvel þó það standist ekki rökrétta hugsun. Ég leitaði á bráðamóttöku geðsviðs LSH og sagði mína sögu. Ég var strax settur á geðrofslyf sem því miður virkuðu ekki neitt. Næstu mánuði prófaði ég nokkur lyf með litlum árangri, en það var ekki fyrr en ég fór á lyf sem heitir Leponex sem raddirnar þögnuðu. Það var eins og að slökkt hefði verið á útvarpi. En ég var samt enn illa farinn af ofsóknarbrjálæði og hræðslu. Sem betur fer fékk ég góðan geðlækni sem hjálpaði mér í gengum þetta og er enn að hjálpa mér með mín vandamál.

Og hvers vegna er ég að skrifa þetta? Aðallega vegna þess að ég er í hálfgerðu geðrofi og ég er að reyna að binda hugann við eitthvað eitt. Það virðist hjálpa að skrifa hugsanir sínar, það setur huga sem er í óreiðu í eitthvað samhengi. Þú mátt ekki halda kæri lesandi að ég sé að skrifa þetta sem einhverskonar ósk um hjálp. Ég vill enga hjálp nema frá mínum geðlækni. Hún gefur mér lyf til að halda verstu einkennum geðklofans niðri og einnig tek ég þunglyndislyf og róandi lyf sem hjálpa mikið. Ég er sá sem ég er og ég hef engan áhuga á því að breytast. Ég hef lært að lifa í oft mikilli vanlíðan og með miklar ranghugmyndir um lífið og tilveruna. Mínar hugsanir skilgreina mig sem persónu og gera mig að því sem ég er. Þessi grein er ekki batasaga. Það er enginn fallegur endir á henni. Það eina sem þessi saga getur hugsanlega verið er innsýn inn í truflaðan huga. Hvort það nýtist einhverjum það veit ég ekki og er í raun alveg sama. Það sem ég skrifaði í þessari grein er einfaldlega það sem kom upp í huga mínum í þessu geðrofi mínu, truflanir huga míns eru margfalt fleiri og flóknari en það sem hér hefur verið skrifað….

Skrifað: 3.5.2012.
Höfundur: Kári Halldórsson.