Skip to main content
Greinar

Bylting í íslensku leikhúsi

By febrúar 20, 2014No Comments

Ásgeir Ingvarsson fékk á dögunum að sitja umræðufund á vegum Reykvíska Listaleikhússins sem sett hefur upp í Klink og Bank leikritið Penetreitor.

Ég fékk á dögunum að sitja umræðufund á vegum Reykvíska Listaleikhússins sem sett hefur upp í Klink og Bank leikritið Penetreitor.
Penetreitor-verkefnið er frumlegt og áhugavert um margar sakir en eins og fjallað hefur verið um áður á síðum blaðsins fengu leiklistarnemarnir þrír sem að verkefninu standa aðstoð Hugarafls, hóps fólks með geðræn vandamál, til að móta sýninguna.

Tilgangurinn með verkefninu var síðan að sjá hverju samstarfið myndi skila bæði til leikaranna og til geðsjúklinganna.

Fyrir leikarana er afraksturinn sýning sem fær glimrandi umsagnir. Ávinningur hinna kom í ljós á umræðufundinum.

Fundurinn var eins og sýningin: á köflum sláandi, á köflum fyndinn. Saman voru komnir allskyns einstaklingar: hjúkrunarfólk, geðsjúklingar og fólk sem einfaldlega hafði hrifist af sýningunni.

Sérstaklega áberandi var hversu ánægt fólk var með þann sýnileika sem geðræn vandamál fá gegnum verkefnið: „Ég hef svifið í loftinu í allt sumar, það er svo gaman að hafa fengið að taka þátt í einhverju svona,“ sagði Ebba, sem kom að verkefninu gegnum Hugarafl. „Þessi hugmynd er svo frábær. Við erum einangraðir hópar: leikarar, fagfólk og sjúklingar, hvort í sínu hólfinu. Þarna urðu einhver samskipti og þessir ólíku hópar fóru að tala meira saman.“

Héðinn bætir við: „Öll sköpun liggur á mjög svipuðum stað og geðveiki: á jöðrunum. Þess vegna held ég að Hugarafl, sem hópur geðsjúklinga, geti dýpkað svona sýningar. Það þarf líka ekki annað en að skoða helstu listamenn sögunnar: þeir hafa allir meira og minna verið geðveikir.“

Berglind, sem kímin segist hérumbil getað kallað sig fagaðila í geðsjúkdómum, því hún fari að teljast fag-geðsjúklingur bætti við: „Ég er búin að „vera þarna“, og rúmlega það. Er gift geðsjúklingi og alkóhólista. Það hafði djúpstæð áhrif á heimilislífið að sjá sýninguna og allt búið að vera á reiðiskjálfi síðan þá. Þetta hreyfði við svo mörgu og leikritið hefði vel getað gerst í stofunni hjá mér fyrir ekki svo löngu.“

Penetreitor segir frá þremur piltum og ýmsu því sem þjakar þá og aðra menn í nútímasamfélaginu. Einn gestur bætir við í því sambandi: „Eitt fannst mér sérstaklega skemmtilegt. Við höfum haft Píkusögur, Sellófón og „stelpur hitt“ og „stelpur þetta“. Loksins fengu strákarnir einhverja umfjöllun.“

Rætt var fram og aftur um geðsjúkdóma, hvað væri viðmið samfélagsins um hvað teldist eðlilegt og hvað ekki, hvar mörkin liggja milli geðheilbrigðis og geðsjúks:

„Ég man eftir fyrsta sálfræðitímanum mínum,“ bætti sálfræðingurinn Jóhann við: „Kennarinn byrjaði á að sýna okkur mynd af einstaklingi sem hreyfði sig furðulega og spurði okkur: „er þetta normal eða abnormal?“. Bekkurinn var sammála um að þetta væri abnormal, en þegar myndin var sýnd í samhengi kom í ljós að þetta var hljómsveitarstjóri og þá var hann aftur orðinn normal. Við þurfum að sjá samhengi hlutanna og erum alltof gjörn á að vera dómhörð og ofboðslega fljót að fara að kalla hlutina einhverjum nöfnum.“

Berglind bætti við: „Þjóðfélagið er svo upptekið af að skilgreina út í hörgul. Ég hef t.d. farið í sjö greindarpróf. Það átti að vera skýringin á mínum vandamálum: að ég væri svo rosalega gáfuð og ég hefði orðið fyrir einelti vegna þess að ég lærði á fiðlu. Ég var ekkert endilega að biðja um þessar skilgreiningar heldur var það barnavernd, félagsþjónustan og fleiri batterí. Mér leið sjálfri aldrei betur, þó ég væri búin að fá einhverja skilgreiningu.“

Á þessum nótum var fundurinn allur og margt merkilegt sem fólk hafði fram að færa. Ég tel það ekki allt upp hér, heldur læt duga að segja að verkefni ungu leiklistarnemanna þriggja virðist hafa slegið í gegn á öllum sviðum. Samvinnan við Hugarafl skilaði sér í margfalt meiri dýpt verksins en annars hefði orðið og verkefnið í heild sinni hefur skilað sér bæði til Hugarafls og út í samfélagið með aukinni umræðu. Fólk talar um byltingu í íslensku leikhúsi og ferska vinda.

Aðstandendur sýningarinnar hafa hreyft við samfélaginu – búið til verk sem enginn horfir á ósnortinn. Það hlýtur að vera besti gæðastimpill sem leikrit getur hlotið. Vonandi að fleiri prufi eitthvað svipað.

Vegna mikilla vinsælda hefur verið ákveðið að halda tvær aukasýningar á leikritinu, í dag og á morgun. Sýningarnar hefjast kl. 21 og eru upplýsingar og miðapantanir í síma 699 0913 og 661 7510.

asgeiri@mbl.is