Fréttatilkynning inn á mbl.is birt þann 14.12.2023
Hugarafl hefur sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna vinnubragða félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) og Vinnumálastofnunar. Lögmaður Hugarafls sakar GEV um valdníðslu.
Fram kemur í tilkynningu frá Sævari Þór Jónssyni hæstaréttarlögmanni, að kvörtunin vegna félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins snúist meðal annars um höfnun ráðuneytisins á afhendingu greinargerðar sem sex fyrrum félagsmenn Hugarafls sendu ráðuneytinu. Einnig komi fram í kvörtuninni hunsun ráðuneytisins þegar Hugarafl hefur leitað eftir áheyrn vegna stöðunnar.
Hafi verið skylt að veita Hugarafli aðgang
Sævar bendir á, að málið hafi farið fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál og niðurstaðan hafi verið sú að ráðuneytinu hafi verið skylt að veita Hugarafli aðgang að greinargerðinni. Fjárstyrkur sem fjárlaganefnd Alþingis samþykkti til handa Hugarafli í lok ársins 2022 átti að vera úthlutað frá ráðuneytinu. Þurfti að margítreka beiðnir um úthlutunina til ráðuneytisins sem skilyrti greiðsluna við endurnýjaðan samning við Vinnumálastofnun.
Sævar Þór segir jafnframt að Hugarafl hafi frá upphafi samninga við félagsmálaráðuneytið átt gott samstarf og þau þar ávallt verið velkomin í ráðuneytið til að fara yfir stöðu mála.
Ekki sama viðmót og áður
„Eftir að greinargerðin var afhent ráðuneytinu hefur ekki verið sama viðmót og var áður og hefur ráðuneytið að því er virðist vera að forðast að eiga samtal við Hugarafl og beinlínis vísað þeim frá. Félagið lítur þetta alvarlegum augum þar sem ráðuneytið fer m.a. með málefni Hugarafls,“ segir Sævar í tilkynningunni.
Þá kemur fram, að Hugarafl telji úttekt GEV á félaginu ófullnægjandi. Ekki hafi verið rætt við starfsfólk Hugarafls né nána samstarfsaðila og GEV heimsótti Hugarafl aldrei í úttektinni að sögn Sævars þrátt fyrir ítrekuð boð þar um að.
Hirðuleysi og valdníðsla
Sævar gagnrýnir harðlega vinnubrögð GEV.
„Þessar róttæku breytingar sem GEV hefur lagt fram eru markaðar af skilningsleysi á starfsemi og þeirri fræðistefnu sem samtökin vinna eftir. GEV hefur auk þess sýnt af sér fádæma hirðuleysi þegar þau hvorki mættu á starfsstöð Hugarafls til að gera úttekt á starfsemi félagsins og virtu að engu athugasemdir stjórnenda og starfsmanna Hugarafls við frumdrögum skýrslu GEV. Það sem er mér efst í huga við yfirferð þessa máls er valdníðsla,“ segir Sævar enn fremur í tilkynningunni.
Kvörtunin sem snýr að Vinnumálastofnun er vegna þess að stofnunin óskaði eftir aðkomu GEV að endurnýjuðum þjónustusamningi sem leið undir lok í lok ársins 2022 og síðan þá hafa í nokkur skipti verið gerðir skammtímasamningar á meðan GEV er að sinna vinnu sinni hvað varðar endurnýjaðan samning. Fyrir skömmu skilaði GEV af sér sinni vinnu og fer fram á umfangsmikla breytingu á starfsemi Hugarafls með þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram. Samtökin telja vegið að grunngildum og hugmyndafræði valdeflingar og batamódels og þar með öllu starfi Hugarafls, að því er Sævar greinir frá.
Sjá grein hér