Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Vont veður hefur áhrif á andlega líðan

By mars 17, 2015No Comments

Auður og sjal
Hver lægðin á fætur annarri hefur dunið yfir og landsmenn orðnir langeygir eftir vorinu. Auður Axelsdóttir, forstöðumaður Hugarafls, segir vont veðurfar geta haft áhrif á andlega líðan fólks og að mikil ásókn sé í þjónsutu Hugarafls, geðheilbrigðisþjónustu Heilsugæslunnar, þessar vikurnar.

Það er mikil aukning hjá okkur núna, við finnum það mjög sterkt.

Það er mikil aukning hjá okkur núna, við finnum það mjög sterkt. Það gæti orsakast að hluta af veðri og vindum því auðvitað er hægt að tengja veðurfarið og andlega líðan okkar að einhverju leyti. Þegar erfitt er að komast á milli staða, eins og hefur verið í allan vetur, spilar það einnig inn í líðan fólks. Það þarf seiglu til að halda þetta út. Það eru allir farnir að bíða eftir vorinu,“ segir Auður Axelsdóttir, forstöðumaður Hugarafls, Geðheilsu-eftirfylgdar, hjá Heilsugæslunni.

Hún segir janúarmánuð hafa farið tiltölulega rólega af stað hjá Hugarafli en mikla sveiflu hafa orðið strax í febrúar sem standi enn.

„Það mæta um tuttugu manns á hverja nýliðakynningu hjá okkur, flest fólk sem er að leita sér úrræða og vill komast í gang. Þá leita aðstandendur mikið til okkar núna því áhyggjur þeirra aukast einnig. Við leggjum áherslu á að fólk haldi sig við rútínuna þó að veðrið sé vont, taki bætiefni og stundi hreyfingu en við notum til dæmis mikið jóga og slökun sem hjálpar mjög mörgum sem glíma við þunglyndi og kvíða,“ útskýrir Auður og hvetur fólk til að leita sér aðstoðar finnist því það vera að missa móðinn.

„Ef fólk er til dæmis farið að finna fyrir svefnleysi, kvíða eða treystir sér jafnvel ekki í vinnuna er mikilvægt að leita sér hjálpar áður en vandamálið vex og endar í óefni,“ segir Auður.

„Það þarf ekki tilvísun til að koma hingað inn og til okkar leitar bæði fólk með grun um geðheilsuvanda og einnig fólk sem búið er að fá greiningu. Við erum aðgengilegt úrræði meðan það geta verið þyngri skref að leita inn á spítala. Hjá okkur getur fólk einnig stoppað í töluverðan tíma í endurhæfingu en ég hef trú á því að fólk sem hefur verið að kljást við geðrænan vanda þurfi langan tíma. Við erum með prógramm alla daga, umræðuhópa, jóga, viðtöl og heimavitjanir.“

Auður segir mikið forvarnarstarf unnið hjá Hugarafli og að það sé jákvætt að fólk leiti fyrr aðstoðar.

„Veðrið í vetur hefur kannski orðið til þess að ýta við fólki að leita sér fyrr hjálpar. Það gæti verið þessi aukning sem við finnum fyrir núna og kannski jákvæði punkturinn í þessu.“