Skip to main content
Greinar

Viti í myrkrinu

By apríl 19, 2017No Comments

Vitinn við Gróttu á fallegum degi. Mynd/Kristinn H

Leiðari Morgunblaðsins 6. apríl 2017.

Félagasamtökin Hugarafl voru stofnuð árið 2003 í því skyni að veita fólki, sem hefur átt við geðræn vandamál að stríða, stuðning og hjálpa því að ná bata. Ein af forsendum Hugarafls er að þar séu allir jafningjar og á þeim grundvelli fer starfsemin fram. Segja má að samtökin brúi að ákveðnu leyti bilið þar sem hlutverki heilbrigðiskerfisins sleppir í að hjálpa fólki að koma undir sig fótunum. Lykilhugtak í starfseminni er valdefling. Hugarafl er líkt og Geysir, Hlutverkasetur og Geðhjálp grasrótarsamtök. Þessi samtök hafa meðal annars hlaupið í skarðið þar sem hið opinbera heilbrigðiskerfi bregst. Margir hafa notið hjálpar hjá Hugarafli og greinilegt er að samtökin vinna þarft starf. Nú er hins vegar óvissa um framhaldið. Í fyrra fékk Hugarafl rúmlega átta milljónir króna í styrk frá hinu opinbera, en á þessu ári er ráðgert að þau fái aðeins eina og hálfa milljón. Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, brást hart við þessum fréttum og sagði að verið væri „að leika sér með mannslíf“. Sagði hann að nær væri að samtökin fengju árslaun þingmanna en mánaðarlaun. Hann hefur nýtt sér samtökin eins og kom fram í máli hans þegar hann gagnrýndi niðurskurðinn: „Ég veit ekki hvort ég væri hér ef Hugarafl væri ekki til.“ Fleiri geta tekið undir þessi orð. Á heimasíðu samtakanna er að finna vitnisburði um starf Hugarafls. Þar skrifar Þórey Guðmundsdóttir að þegar „öll von um betri tíma var fokin og öll ljós slökkt þá var Hugarafl viti í myrkrinu“. Í lok þessa mánaðar verður ár liðið frá því að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Þá er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar lögð áhersla á geðheilbrigðisþjónustu og aukið (ekki minnkað) aðgengi að henni.

Niðurskurður á framlögum til grasrótarsamtaka á borð við Hugarafl er óskiljanlegur

Niðurskurðurinn til Hugarafls er hvorki í anda þeirrar þingsályktunar né stefnuyfirlýsingar stjórnarinnar og það er ekki of seint að endurskoða þessa ákvörðun. Hugarafl og önnur sambærileg grasrótarsamtök vinna mikilvægt starf. Hugarafl gerir fólki kleift að koma undir sig fótunum, oft þegar öll önnur sund virðast lokuð. Árlega leita þangað hátt í þúsund manns og starfsemin er borin uppi með sjálfboðavinnu. Það er ótækt að slík samtök þurfi að berjast með kjafti og klóm fyrir styrkjum ár eftir ár til að koma í veg fyrir að slökkt verði á „vitanum í myrkrinu“.