Skip to main content
Uncategorized

Þunglyndi og kvíði algeng á vinnumarkaði

By september 25, 2011No Comments

 

Þetta segir norskur sálfræðingur, Torkil Berge, en hann var einn af aðalfyrirlesurum á fjölsóttri ráðstefnu um hugræna atferlismeðferð sem haldin var …

Þ etta segir norskur sálfræðingur, Torkil Berge, en hann var einn af aðalfyrirlesurum á fjölsóttri ráðstefnu um hugræna atferlismeðferð sem haldin var í Hörpu í byrjun september. »Talið er að geðraskanir snerti eina af hverjum þremur fjölskyldum enda eru þær mjög almennar en um 20-24% af almenningi glíma við geðraskanir á hverjum tíma, þar af eru mjög margir sem eru þunglyndir eða þjást af kvíða. Að hafa atvinnu er mikilvægur hluti af lífinu og margir af þeim sem sem greinast með geðraskanir eða hafa greinst með geðraskanir hafa einhvern tímann verið í vinnu eða eru í vinnu,« segir Torkil Berge, sálfræðingur við Diakonhjemmet-spítalann í Ósló, en hann hefur rannsakað tengsl vinnu og geðraskana. »Raskanir eins og þunglyndi og kvíði hrjá því fólk sem stundar vinnu. Fáir aðrir súkdómar hafa þó eins mikil áhrif á afköst en þar má nefna skort á orku og úthaldi, einbeitingu og minni, fælni við að taka ákvarðanir, starfsánægju og frumkvæði. Þá hefur þunglyndi áhrif á það hvernig fólk hugsar, hvernig því líður, tengist öðrum og sjálfu sér. Það er óhætt að segja að þunglyndi ráðist á fólk.«

Meðferð á vinnustað í stað veikindaleyfis

Þunglyndi er oftast ástæða fjarvista frá vinnu, oftar en nokkur annar sjúkdómur og kostnaðurinn vegna þess og minni framleiðni er mikill, iðulega vegna þess að þunglyndið er ekki meðhöndlað. Oft er fyrsta úrræðið að senda fólk í veikindaleyfi sem þjáist af þunglyndi og/eða kvíða á vinnustað svo það geti hvílt sig og safnað kröftum. »Þunglyndi, kvíði sem og aðrar geðraskanir hafa áhrif á líðan fólks í vinnunni og vinnuafköst. Því er eðlilegt að það telji þetta fyrsta úrræðið. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að í sumum stéttum svo sem meðal kennara, hjúkrunarfræðinga, lækna, lögreglumanna og lögfræðinga getur stuðningur eins og hugræn atferlismeðferð komið að góðum notum og stutt fólk í vinnunni í gegnum erfið tímabil í stað þess að taka veikindaleyfi. Af einhverjum ástæðum eru geðraskanir algengari hjá fólki í þessum stéttum en um leið hefur það oft þekkingu og getu til þess að hjálpa sér sjálft fái það til þess bæra aðstoð og það reynist jafnvel eða betur en að fara í leyfi. Gallinn við veikindaleyfi er að fólk einangrast oft, það skortir eðlilegan ramma í hversdagslífinu, finnst erfitt að fara aftur til vinnu og er lengur að ná eðlilegum vinnuafköstum. Það hefur í raun, nema það hafi leitað sér meðferðar, ekki fengið neina bót á sjúkdómi sínum og hvernig eigi að ráða við hann og fyrirbyggja aðra lotu sjúkdómseinkenna eins og hægt er að gera með sérhæfðri hugrænni atferlismeðferð.«

Torkil bendir á að til þess að hægt verði að styðja fólk með geðraskanir á vinnustað sínum verði að koma upp ákveðnu kerfi. »Í Noregi erum við með þrjú verkefni í gangi. Hið fyrsta er á landsvísu og nefnist »Sjáumst á morgun« en þar fá stjórnendur fyrirtækja, mannauðsstjórar og stjórnendur verkalýðsfélaga þjálfun sem byggist á þekkingu og samspili vinnu og geðraskana og hvernig best sé að bregðast við þegar starfsmaður greinist með geðröskun. Þá hefur verkefni um bætt aðgengi þeirra sem þjást af algengum geðröskunum að sálfræðimeðferð verið í gangi í Noregi síðustu ár og loks höfum við opnað sex miðstöðvar fyrir fólk sem á í erfiðleikum á vinnustað, en þangað getur það komið og fengið hjálp og endurhæfingu sem tengist vinnunni með hugrænni atferlismeðferð. Þetta hefur gengið mjög vel og orðið til þess að margir hafa snúið aftur til vinnu. Það eru því ýmsar leiðir til þess að halda fólki með geðraskanir í vinnu og koma því aftur í vinnu, með svo miklu minni kostnaði fyrir samfélagið og fólkið sjálft en ef það færi á örorkubætur. En stjórnvöld verða að vilja það og sýna vilja í verki.«

Vinnumarkaðurinn hefur hafnað fólki með geðraskanir

Eins og áður segir er vinnan eitt af því mikilvægasta í lífi fólks, fyrir utan fjölskyldu og áhugamál. Flestir með geðraskanir vilja vinna og það að vinna hefur mjög góð áhrif á heilsu þeirra að sögn Torkil. »Staðreyndin er þó sú að atvinnustigið er minnst hjá fólki með geðraskanir sé litið yfir hóp fólks með skerðingar. Það á mjög erfitt með að fá vinnu. Það hefur svo aftur áhrif á geðraskanir og veldur þunglyndi, kvíða og óhamingju eins og er algengt meðal atvinnulausra. Þannig að oft er þetta vítahringur. Ef fólk þróar með sér geðröskun er það tvisvar sinnum líklegra til að missa vinnuna en ef það væri með nokkra aðra skerðingu.« Torkil segir að rannsóknir sem beinast að starfstengdri endurhæfingu fyrir fólk með alvarlegar geðraskanir sýni að aðeins 5% þeirra sem greinst hafi með geðklofa hafi reglulega vinnu en meira en helmingur þeirra vilji vinna. »Að hafa vinnu er hluti af því að vera borgari. Geðheilbrigði snýst ekki bara um þjónustu við samfélagið, það snýst ekki bara um hvers fólk þarfnast, heldur snýst það um hvað fólk getur lagt til samfélagsins. Um það snúast borgararéttindi. Þess vegna er svo mikilvægt að auka sjálfræði og sjálfstæði fólks með alvarlegar geðraskanir, svo að það megi taka meiri þátt í meðferð sinni og í samfélaginu, sem vinir, nágrannar, neytendur og starfsmenn.«

Torkil dregur ekki dul á að starfsendurhæfing fólks með alvarlegar geðraskanir sem hafi verið lengi án vinnu geti verið erfið. »Það gerist ekki allt á einum degi og slík starfsendurhæfing á sér ofast stað með ákveðnum stuðningi og í samstarfi við vinnustaðinn. Flestar rannsóknir sýna að best er ýta þeim sem er með geðröskunina út í djúpu laugina og kenna honum svo sundtökin. Það er valið starf fyrir viðkomandi og svo er tekist á við hverja hindrun eftir því sem hún kemur upp. Hér hentar hugræn atferlismeðferð mjög vel.« Torkil segir að vinnan gefi fólki sem glímt hefur við geðraskanir yfirleitt mikið og auki lífsgæði þess. »Bætt sjálfsmynd og færri sjúkdómseinkenni eru yfirleitt ánægjulegur fylgifiskur þessarar tegundar af starfstengdri endurhæfingu.«

Hugræn atferlismeðerð virkar

Rannsóknir hafa sýnt að það er hægt að vinna að forvörnum á vinnustöðum. »Fræðsla um þunglyndi og kvíða ætti að vera sjálfsögð og eins ættu fyrirtæki að huga að streituvörnum. Það getur verið margt í vinnuumhverfinu sem veldur streitu eins og of mikið vinnuálag, óskýrar vinnukröfur, óstjórn eða misræmi í skilaboðum stjórnenda auk eineltis, kynferðislegrar áreitni og fleira. En við fyrirbyggjum aldrei alveg þunglyndi og kvíða eða aðrar geðraskanir á vinnumarkaði og þess vegna er svo mikilvægt að vinna með þær.«

Torkil bendir á að þrátt fyrir að til séu aðferðir til þess að styðja fólk á vinnumarkaði sem þjáist á geðröskunum og koma fólki aftur á vinnumarkaðinn með starfstengdri þjálfun, þá sé það því miður ekki kostur sem standi öllum til boða. »Hugræn atferlismeðferð þyrfti að vera aðgengilegri og gæti verið brú á milli heilsugæslunnar og vinnumarkaðarins. Rannsóknir hafa sýnt, að ef fólk hefði val, þá myndi það kjósa slíka meðferð og hún bæði virkar og er fyrirbyggjandi. Heilsugæslan er almennt ekki nægilega upplýst um þennan kost á vinnumarkaði og í sumum löndum er hann varla til. Fólk á mikið undir því að vera áfram á vinnumarkaði ekki síður en samfélagið, þrátt fyrir að vera greint með geðröskun, og því er mikilvægt að nýta öll þau úrræði sem eru til.«

>> Staðreyndin er þó sú að atvinnustigið er minnst hjá fólki með geðraskanir sé litið yfir hóp fólks með skerðingar. Það á því mjög erfitt með að fá vinnu.

>> Með því að veita fólki með geðraskanir stuðning á vinnustað má halda því í starfi með eðlilegum afköstum. Það er ódýrari kostur fyrir samfélagið en að hafna því á vinnumarkaði.

Texti og mynd: Unnur H. Jóhannsdóttir