Skip to main content
Uncategorized

Sonur Benedikts féll fyrir eigin hendi: „Það er ekkert verra til en þetta“

By desember 20, 2016No Comments

„Þetta er eitthvað sem maður vill að enginn lendi í. Það er ekkert verra til en þetta,“ segir Benedikt Þór Guðmundsson en sonur hans Pétur var 21 árs gamall þegar hann féll fyrir eigin hendi. Benedikt situr í dag í stjórn Pieta Ísland en samtökin munu opna hús árið 2017, miðstöð fyrir fólk sem á um sárt að binda vegna sjálfsvígsvanda. Hann átti jafnframt hugmyndina að samtökunum, sem eru að írskri fyrirmynd.

Benedikt Þór Guðmundsson. Ljósmynd/skjáskot af youtube.

Benedikt Þór Guðmundsson. Ljósmynd/skjáskot af youtube.

Í samtali við sjónvarpsþáttinn Fólk með Sirrý á Hringbraut segir Benedikt það vera nauðsynlegt efitr jafn hrikalegt áfall að vera með öðru fólki sem þekkir sorgina og vonina.Hér á landi eru 500 til 600 tilraunir gerðar til sjálfsvígs á hverju ári, og þá benda opinberar tölur til þess að 40 til 50 manns taki sitt eigið líf ár hvert.

Bendikt og kona hans þurftu í kjölfar fráfalls sonar síns fyrir 11 árum að leita sér hjálpar eða „„finna sér stað“ eins og Benedikt orðar það. Leituðu þau þá meðal annars til sjálfshjálparhópa og segir Benedikt að stofnun Pieta samtakanna hér á landi hafi verið framhald af þeirri vinnu.

„Það má segja það að það hafi tekið mig og konuna mína þrjú ár að finna staðinn. Þá fundum við aðra aðstandendur sem höfðu lent í því sama. Þá forum við að tala sama tungumálið. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir fólk sem missir í sjálfsvígi að hitta fólk sem hefur lent í sömu stöðu. Það hjálpar mjög.“

Benedikt kveðst lítið hafa vitað um þessi mál áður en sonur hans féll frá.

„Ég var ekki þannig meðvitaður um þetta. Þetta er náttúrulega gríðarleg reynsla og skóli sem maður fer í gegnum á þessum tíma.“

Hann og fleiri í stjórn Pieta Ísland standa fyrir göngu 21.desember næstkomandi: Úr myrkri í ljós en þar er ætlunin meðal annars að minnast þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Um miðnætti mun vera gengið að vitanum við Skarfaklett, enda er vitinn merki um ljós og von, og nöfn hinna látnu skráð niður á sérstaka plötu. Benedikt segir það hafa mikla þýðingu fyrir aðstandendur að koma saman á þennan hátt og gera eitthvað táknrænt.

„Þetta snýst líka um að finan gleðina og finna vonina. Það eru margir á msimunandi stað í sorginni. Þetta er tilgangur til þess að minnast, og líka til þess að eiga vonina og eiga morgudaginn og framtíðina,“ segir hann og bætir við:

„Sorgin er ekki bara leiðinleg. Maður getur líka byggt sig upp eftir sorgina.“

Grein birtistu upphaflega á DV.is