Einstaklingar sem sækja um styrk fyrir sálfræðiþjónustu hjá stéttarfélögum þurfa að greiða skatt af styrkupphæðinni, en þeir sem sækja hins vegar um styrk fyrir líkamsræktariðkun eða endurhæfingu þurfa ekki að greiða skatta. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra er sálfræðiþjónusta ekki talin falla undir endurhæfingu.
Viðmælandi mbl.is, sem vildi ekki koma fram undir nafni, sótti á dögunum um greiðslu úr varasjóði VR vegna sálfræðiþjónustu sem nam hátt í tvö hundruð þúsund krónum fyrir síðastliðið ár. Átti hann inni 28.000 krónur sem greiðslu frá sjóðnum sem hann hugðist nota upp í sálfræðiþjónustuna. Var honum þá tjáð það hjá VR að greiðsla fyrir sálfræðiþjónustu væri skattskyld, en ef hann ætti líkamsræktarkort sem keypt hefði verið á árinu gæti hann fengið upphæðina greidda að fullu. Þar sem viðkomandi átti ekki líkamsræktarkort skilaði hann inn reikningum fyrir sálfræðiþjónustunni og fékk þá aðeins greiddar 18.000 krónur af þessum 28.000 krónum.
„Þetta eru ekki reglur sem við setjum heldur skatturinn, og við höfum verið mjög ósátt við þessa túlkun skattsins á því að sálfræðiþjónusta skuli vera skattlögð,“ segir Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR. Segir hann það skiljanlegt að fólki finnist óréttlátt að geta fengið fulla greiðslu vegna t.d. líkamsræktarkorts eða félagsskírteinis í golfklúbb, en ekki vegna sálfræðitíma.
Aðeins horft á líkamlegar endurhæfingarmeðferðir í kjölfar veikinda eða slysa
Í kafla 2.9 í reglum um skattmat vegna tekna manna á tekjuárinu 2016, sem ber yfirskriftina Heilsurækt, segir að ekki skuli telja til skattskyldra tekna starfsmanns greiðslu frá launagreiðanda, eða eftir atvikum stéttarfélagi, sem ætlað er að standa straum af kostnaði við íþróttaiðkun og aðra heilsurækt að því marki sem slík greiðsla fer ekki yfir 55.000 kr. á ári. Með kostnaði við íþróttaiðkun og heilsurækt sé átt við greiðslu á aðgangi að líkamsræktarstöðvum, sundlaugum og skíðasvæðum, greiðslu á æfingagjöldum í íþróttasali og félagsgjöldum í golfklúbba sem og þátttökugjöld vegna annarrar hreyfingar sem stunduð er með reglubundnum hætti. Einnig fellur þar undir kostnaður við aðra heilsurækt eins og t.d. jóga og annar sambærilegur kostnaður, þ.m.t. kostnaður vegna endurhæfingar.
Í skriflegu svari frá embætti Ríkisskattstjóra segir að það að telja umrædda greiðslu á persónulegum kostnaði ekki til skattskyldra tekna sé undantekning frá þeirri meginreglu að öll hlunnindi skuli teljast til skattskyldra tekna. Undantekningarnar verði ekki skýrðar rýmra en orðalagið gefur tilefni til. Varðandi endurhæfinguna sé átt við sambærilegan kostnað og vegna íþróttaiðkunar sem stunduð sé til endurhæfingar.
„Að þessu öllu virtu, og sérstaklega með hliðsjón af því orðalagi sem getið er, hefur ríkisskattstjóri túlkað það þannig að með endurhæfingu sé þá átt við ýmiss konar líkamlegar sjúkrameðferðir í kjölfar veikinda eða slysa (endurhæfingar), sem gerir fólki kleift að stunda vinnu áfram eða komast til vinnu aftur. Þar með talinn getur við þessar aðstæður verið kostnaður við nálastungur, sjúkraþjálfun og sjúkranudd svo dæmi séu tekin. Ekki hefur verið talið að sálfræðiþjónusta félli almennt hér undir.“
Sálræn endurhæfing jafnmikilvæg og hin líkamlega
Samkvæmt upplýsingum frá Sálfræðingafélaginu er ofangreind skilgreining á endurhæfingu mjög þröng. Þá sé hún í raun úreld þar sem hún sé ekki í takt við skilgreiningar á endurhæfingu eins og þær eru í dag. Sálræn endurhæfing sé oft á tíðum jafnmikilvæg og hin líkamlega.
Sálfræðingafélagið er stéttarfélag undir Bandalagi háskólamanna (BHM), en sjúkrasjóður BHM hefur áður gert athugasemdir við það fyrirkomulag við Ríkisskattstjóra að sálfræðiþjónusta sé ekki flokkuð sem endurhæfing. Ekki hefur verið brugðist við því.