Skip to main content
Fréttir

Jólin koma snemma í Hugarafl þetta árið

By nóvember 22, 2015No Comments

Hugaraflsfélagar eru nú komnir í jólaskap eftir vel heppnað jólahlaðborð sem haldið var á föstudaginn í Smáranum.  Um 80 manns mættu í sínu fínasta pússi með jólapakka og góða skapið til þess að eiga saman yndislega kvöldstund.  Fyrr um daginn höfðu félagar lokið við að pakka jólakortum sem verða seld til styrktar Hugarafli og flestir farnir að raula jólalögin þegar byrjaði að snjóa um miðjan dag.

Líkt og undanfarin ár sá Torfi Axelsson og IGS um veislumatinn og eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var ekkert til sparað í kræsingum.  Veislugestir tóku líka vel til matar síns og voru allir á einu máli um að maturinn hefði verið alveg frábær.

Fjölbreytt skemmtiatriði voru á dagskránni.  Hljómsveitin Hugarró tók nokkur lög og sá jafnframt um undirspil þegar kór Hugarafls stýrði fjöldasöng þar sem salurinn tók vel undir.   Farið var með gamanmál og ræður voru fluttar.  Þá var jólahappdrættið á sínum stað.  BYKO, Síminn, Rekstrarvörur, Glit/Listgler, Maður Lifandi, Heilsunudd Hilmars, Snyrtistofan Paradís og Guffa gáfu vinningana að þessu sinni og voru þeir ekki af verri endanum.  Í lokin tóku veislugestir svo upp jólapakkana áður en allir hjálpuðust að við að ganga frá eftir vel heppnaða kvöldstund.

Hugarafl vill nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hjálpuðust að við að búa til þessa notalegu kvöldstund í Smáranum.  Undirbúningsnefndin, hljómsveitin, kórinn og fyrirtæki sem gáfu vinninga eiga hrós skilið fyrir sitt frábæra framlag.  Þá fá kokkarnir enn og aftur þakkir fyrir veislumatinn og að lokum fær Breiðablik og starfsfólk Smárans sérstakar þakkir fyrir liðlegheitin og afnot af húsakynnum.

Takk kærlega fyrir okkur 🙂