Skip to main content
Greinar

Batasaga um kvíðaröskun

By febrúar 20, 2014No Comments

Ég hafði þjáðst af kvíðaröskun í einhver ár án þess að hafa fengið greiningu. Hægt og sígandi hafði hún gagntekið mig, gegnsýrt hugsun mína og framkomu. Ef framkomu má kalla, ég var farin að verða stjörf og svipbrigðalaus. Ég talaði orðið hægt og hreyfði mig hægt. Framtaksleysi og örvænting réði ríkjum

Auk þess var ég orðin mjög félagslega einangruð. Fólk hafði hætt að hafa afskipti af mér áður en ég veiktist og stuðningur var enginn. Helstu aðilar sem höfðu sýnt mér hlýju og umhyggju voru dánir og ýmis utanaðkomandi áföll höfðu tekið sinn toll. Aðstandendur höfðu ýmissa hluta vegna öðrum hlutum að hneppa. Yngsta barnið mitt lagði sig reyndar fram um að vera með mér þótt ungt væri. Segja má að það hafi komið í veg fyrir algert hrun og stuðlað að því að ég þraukaði þennan versta tíma.. Einnig kom fyrir að stöku frænka eða vinkona sló á þráðinn til mín. Þó að það hafi verið sjaldan hélt það á sínum tíma í mér lífinu. Hvernig mer raunverulega leið talaði ég ekki um við neinn. Þessir fáu sem ég var í sambandi vissu samt að mér hafði liðið illa í kjölfar áfalla..

Það var ekki fyrr en mér hafði liðið lengi óbærilega illa að ég talaði af hreinskilni við lækninn minn. Sennilega hef ég verið hrædd um að hún sneri líka við mér bakinu eins og aðrir höfðu gert. Okkur kom saman um það að ég færi í hugræna atferlismeðferð í 3 mánuði. Ég var þá orðin eins og drukknandi maður sem grípur í haldreipi. Sagt er að við eigum öll okkar örlagastund og þessi meðferð var mín. Hún var margþætt og tekið á mörgum sviðum. Það voru því margir sem komu að henni, þar sem hver og einn hafði sitt vægi. Ég lærði eitthvað af þeim öllum. Þarna var mér sýnd ósvikin umhyggja. Ég var hvött og sýnd hlýja og virðing. Minningar um að svona viðmót væri til vöknuðu úr dvala. Fólki var annt um mig og lagði sig fram, hvert á sínu sviði. Þetta var hlutur sem að ég hafði gleymt. Það var til fólk sem lét sér annt um aðra. Leiðin til bata var hafin. Hjá okkur notendunum myndaðist lítið samfélag á meðan meðferð stóð. Þar sat hjálpsemin í fyrirrúmi og við studdum hvort annað mikið.

Ég lærði að treysta fólki aftur. Fyrra félagslyndi og bjartsýni fór að láta á sér bæra og ég áttaði mig á því að til var fólk sem stóð ekki á sama um mig. Sennilega var það nú samt erfiðast að læra þarna að maður ætti rétt á því að biðja aðra um hjálp, slíkt væri ekki dauðasynd. Það væri ekki víst að allir brygðust illa við því. Sé félagslegt stuðningskerfi t.d. ekki til staðar, þá er hægt að mynda nýtt. Mér er það samt umhugsunarefni í góðum bata, áhrif hugtaka eins og góðmennsku og greiðvikni í bataferli. Ég er núna meðlimur í Hugarafli og vinn að endurhæfingarmálum. Í þessu bataferli mínu frá upphafi, hef ég hvorki fyrr eða síðar kynnst jafn mikilli góðmennsku og í röðum fólks sem er í bata eftir geðraskanir. Sama má segja um marga þá sem vinna að þessum málum og hef ég þó víða komið við. Batamál eru mér mjög hugleikin og þar með þættir eins og virðing, mannleg reisn og traust og áhrif þeirra á bata.

Ég reyni að spjara mig án lyfja og stunda slökun og göngur. Tónlist sem var vinsæl þegar ég var barn og unglingur hefur t.d. mjög slakandi áhrif á mig. Vera mín í Hugarafli og kynni af fólki þar hefur líka haft mikil áhrif á mig. Starfið þar byggir á hugmyndafræði valdeflingar, þar sem við erum jafningjar og hver einstaklingur einstakur og mikilvægur. Mikilvægt skref var þar tekið í mínum bata að upplifa það að ég væri ekki ein heldur hluti af stærri hóp. Ég er mjög meðvituð um það í dag að veikindi mín stöfuðu af stórum hluta af missi og vöntun á stuðningi. Í dag hef ég vinnu, er í öruggu húsnæði og reynslunni ríkari. Hversu illa sem manni líður, þá þarf það ekki alltaf að vera þannig.