„Hvenær fæ ég prinsessuna, það var aðalmálið,“ sagði Brynjar Orri Oddgeirsson í heimildarþáttaseríunni Bara geðveik á Stöð 2 í vikunni.

Brynjar Orri gaf út ljóðabók í samstarfi við Hugarafl. Ljóðin eru skrifuð í Undralandinu sem var í upphafi af hans veikindum.
Unghuginn Brynjar Orri var fyrir nokkrum árum háskólanemi í fjármálaverkfræði en er í dag skapandi ungur maður að fóta sig í nýrri tilveru eftir að hann fór fyrst í maníu árið 2012. Brynjar er einn af fjórum hugrökkum manneskjum sem ákváðu að hleypa Lóu Pind og Agli Aðalsteinssyni myndatökumanni inn í líf sitt. Þau hafa fylgst með Brynjari, Ágústu Ísleifsdóttur, Silju Björk Björnsdóttur og Bjarneyju Vigdísi Ingimundardóttur mánuðum saman, sumum í tæplega ár til að fá djúpa innsýn í tilveru fólks með geðsjúkdóma.
í þáttunum segir Brynjar Orri sögu sína af geðhvörfum. Geðhvarfasýki telst til geðrofssjúkdóma þar sem einstaklingurinn missir oft raunveruleikatengsl, fær jafnvel ofskynjanir og ranghugmyndir þegar hann er í örlyndi. Ein af þeim hugmyndum sem gróf sig um í kollinum á Brynjari var að hin heimsfræga söngkona, Rihanna ætti að verða konan hans.
„Hún heitir Robyn og ef þú endurraðar stöfunum kemur Bryn O. Ég heiti Brynjar Orri. Ég var bara já ókei, þetta er hún,“ segir Brynjar og bætir við: „Ég var bara viss um að Rihanna væri að bíða eftir mér í brúðarkjól þegar ég kæmi upp í Viðarás 18.“
Brynjar segir það hafa verið áfall þegar hann uppgötvaði að poppsöngkonan beið ekki eftir honum í stofunni í Viðarási. „Það tók við sjö mánaða innlögn inn á geðdeild.“
Brynjar er nú að fóta sig á ný í lífinu og hefur nýtt sér Hugarafl til þess að byggja sig upp. Meðal annars gaf Brynjar út ljóðabókina “Bláa Riddarann” í samstarfi við Hugarafl. Bókin hefur að geyma 28 ljóð sem samin voru í hugarástandi sem Brynjar kýs að kalla Undraland og voru upphafið af hans veikindum.. Í heimi Undralandsins var Brynjar einskonar ofurhetja og hlutverk hans var að fá alla hina til að ganga til liðs við sig. Í Undralandinu gerðist margt áhugavert, forvitnilegt, skringilegt og sumt mjög óþægilegt. Í sumum tilfellum var hreinlega eins og um töfra væri að ræða eins og segir í formála bókarinnar..
Næstu fimm mánudagskvöld mun Lóa Pind síðan fylgja eftir öðrum einstaklingum og segja sögu þeirra. Alls eru þættirnir “Bara geðveik” 6 talsins og eru þeir sýndir á Stöð 2.
Hér má sjá brot úr síðasta þætti þar sem rætt var við Brynjar.