Fjöldi Hugarflsfólks og notendur Geðheilsu-eftirfylgdar, (hér eftir kallað GET) sátu saman á Hugaraflsfundi og hlustuðu á svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi, þann 30. janúar 2018. Verður að segjast að mikil vonbrigði og vonleysi voru fyrstu viðbrögð margra sem sátu fundinn. Notendur og fagfólk í GET finnst þeir hafa verið útilokaðir frá öllum ákvarðanatökum og stefnumótun þegar kemur að stofnun nýrra geðteyma og afdrifum notenda GET. Hugarafl tekur undir orð ráðherra um að óöryggi eins og við erum að upplifa sé algjörlega óboðlegt. Tilfinning okkar er sú að verið sé að ríkisvæða frumkvæði og hugsjónir. Einnig að um afturför sé að ræða í Íslensku geðheilbrigðiskerfi.
Hugaraflsfólk þakkar Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um málefni Geðheilsu – Eftirfylgdar og Hugarafls á Alþingi. Það er gott að vita af fólki sem lætur sig málið varða og ómetanlegt fyrir notendur Geðheilsu-eftirfylgdar og Hugarafl á þessum tímapunkti.
Í svörum kemur fram að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hyggist leggja fram sérstaka skýrslu fyrir Alþingi og að hún muni ræða hana í febrúar á þinginu. Hugarafl fagnar því að skýrsla sé á leiðinni, en óskar þess jafnframt að fá að vera þátttakandi í slíkri skýrslugerð til að tryggja að rödd notenda heyrist.
Þegar Svandís ráðherra var spurð um málefni Geðheilsu-eftirfylgdar þá sagði hún að Heilsugæslan hefði fengið það verkefni að vinna samkvæmt geðheilbrigðisáætlun Alþingis sem m.a. leggur áherslu á fjölgun teyma. Við bendum á að í geðheilbrigðisáætlun er hvergi kveðið á um að GET skuli lagt niður til að rýma fyrir öðrum teymum.
Í svari ráðherra kemur einnig fram að verið sé að fjölga teymum en samkvæmt okkar bestu vitund er verið að skerða þjónustu, og í raun óskiljanlegt hvernig teymum sé fjölgað þegar eitt teymi er lagt niður. Teymi sem er brautryðjandi og hefur starfað innan Heilsugæslunnar í 15 ár. Þar að auki eru nýju teymin ekki að fara að vinna á sama grunni og samvinna GET og Hugarafls byggir á.
Einnig bendum við á að hér er í raun verið að fækka valmöguleikum og aðgengi verður torveldara. Sérstaða GET og Hugarafls hefur m.a. verið opið úrræði þar sem einstaklingur og fjölskylda geta leitað til að eigin frumkvæði og á eigin forsendum, með það að markmiði að geta gripið fyrr inní og aukið forvörn. Þann aðgang er ekki að finna í nýjum teymum. Samkvæmt skýrslu um ný geðteymi og tímaáætlanir, kemur hreinlega fram að fólki verði mismunað eftir því hvar það býr á höfuðborgarsvæðinu. Slík tímaplön brjóta því gegn meginmarkmiði geðheilbrigðisáætlunar Alþingis um aukna vellíðan og betri geðheilsu landsmanna og virkari samfélagsþátttöku einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra.
Svandís segir einnig til útskýringar að Heilsugæslan vilji hafa teymin á sínu forræði og vilji jafnframt nýta reynslu GET til mótunar nýrra teyma. Við bendum á að GET hefur verið undir forræði Heilsugæslunnar undanfarin 15 ár. En þegar forstöðukona GET fór fram á það formlega að fá að taka þátt í mótun nýrra teyma, var henni meinaður aðgangur að vinnuhópnum, hennar krafta sem sagt ekki óskað þar. Henni var beinlínis tjáð að hún væri ekki eini fagmaðurinn á Íslandi!
Svandís ráðherra segir að það sé samtal í gangi við GET. Við bendum á að forstöðukona GET hefur ekki fengið samtal um framtíð nýrra teyma eða lokun GET. Hún hefur fengið tilkynningar, nú síðast um tímalínu vegna lokunar. Forstöðukona hefur þó ítrekað óskað eftir að hennar reynsla væri nýtt í öllu ferlinu og einnig kallað ítrekað eftir ábyrgð Heilsugæslunnar og ráðherra vegna þeirra einstaklinga sem missa munu þjónustu. Það hefur ekki verið auðvelt og ekki fengist samræða um hvaða þjónustu skjólstæðingahópurinn er að missa, í nýju fyrirkomulagi. Reynsla forstöðukonu GET og notenda Hugarafls er hér algjörlega virt að vettugi. Við bendum á að það samræmist heldur ekki aðgerðararáætlun Alþingis sem m.a. byggir á öflugu samstarfi við notendasamtök hverju sinni.
Þegar spurt var um hópinn sem mun missa þjónustu svaraði Svandís ráðherra því til að það svar sem hún fengi hjá Heilsugæslunni væri að tryggt verði að öllum verði búið framtíðarrúrræði innan úrræðanna sem eru fyrir hendi hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Við bendum á að það sem sagt hefur verið við okkur er að þeir skjólstæðingar sem fylgja því stöðugildi sem fer inn í nýtt teymi fái að fylgja með sínum fagaðila – að því gefnu að fagaðilinn kjósi að fara inn í nýtt teymi. Einnig hefur verið sagt að allir hafi aðgang að teymunum en það fáum við ekki til að passa þar sem þjónustan er gerólík og hjá GET og ekki um sambærilega þjónustu að ræða. Við bendum einnig á að ekki er ljóst hversu lengi eftirfylgd getur varað í nýjum teymum fyrir hvern og einn skjólstæðing og því eru þeir í algjörri óvissu um sína framtíð. Ef allir skjólstæðingar fylgja sínum fagmanni þá er ljóst að nýtt teymi verði fullt strax við opnun og biðlisti mun myndast, og/eða þjónustan skerðast. Ekki hefur fengist samtal um skerðingu á þjónustu, hvorki hjá Heilsugæslunni né ráðuneytinu.
Við bendum á að fjöldi einstaklinga mun missa endurhæfingu sína og aðstandendavinna fer í uppnám, svo fátt eitt sé nefnt. Bataferli einstaklinga er með þessu rofið og hætta á alvarlegum bakslögum.
Heilbrigðisráðherra gerir að umtalsefni að módel GET sé til fyrirmyndar og sé það módel sem stjórnvöld ætli séu að taka sér til fyrrmyndar í raun og veru. Við bendum á að ef módelið væri virt til fyrirmyndar þá hefðu stjórnvöld óskað eftir aðkomu GET og Hugarafls við stofnun nýrra teyma og í allri umræðu um þau. Það skýtur vægast sagt skökku við að leggja niður fyrirmyndina, við fáum slíka ákvörðun einfaldllega ekki til að ganga upp.
Ennfremur var heilbrigðisráðherra spurður um framtíð Hugarafls og svarar því til að vel hafi verið búið um framtíð þess að af hálfu félagsmálaráðuneytisins. Við ætlum að leyfa okkur að treysta orðum ráðherra hér um að séð verði vel um Hugarafl af hálfu félagsmálaráðherra en við höfum, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, ekki enn fengið samtal við hann.
Svandís ráðherra nefnir að sá tími sem framundan sé verði nýttur í að tryggja öllum öryggi í þeim úrræðum og þessi yfirgangsperíóda, ef svo má að orði komast, muni taka fimm til sex mánuði.
Við bendum á að teymin taka ekki öll til starfa strax, tvö þeirra taka ekki til starfa fyrr en um 2019-2020 og spyrjum við hvað verður um það fólk sem tilheyrir þeim?
Við bendum á það hér í lokin að þessi málflutningur sem birtist á Alþingi Íslendinga er með miklum ólíkindum. Leggja á niður fyrirmyndarteymi sem við sannarlega teljum það vera, með ófyrirséðum afleiðingum, á sama tíma og byggja á upp og efla geðheilbrigðisþjónustu. Frumkvæði forstöðukonu GET og Hugarafls, framlag til 15 ára til samfélagsgeðþjónustu er hér hunsað og virt að vettugi. Þessir aðilar hafa einnig verið málsvarar fólks með geðraskanir og lagt gríðarlega mikið af mörkum til geðheilbrigðismála á Íslandi. Jafnframt hafa þessir aðilar sýnt fram á að samstarf fagmanna og notenda í veitingu þjónustu hefur verið afar árangursríkt og stuðlað að fullum bata hjá fjölda einstaklinga. Í áliti Sameinuðu þjóðanna frá því í júní 2017 kemur einmitt fram að það sé mikilvægt að hafa þjónustu opna, aðgengilega, að fagmenn og notendur starfi saman og umfram allt að rödd notenda heyrist í hvívetna.
Við viljum ítreka að Hugarafl er hópur notenda þessarar þjónustu sem verið er að setja á laggirnar og finnst það eðlilegt að fá eitthvað um það að segja hvað og hvernig á að meðhöndla okkur inní geðheilbrigðiskerfinu á Íslandi. Enda er sterklega kveðið á um það í nýrri geðheilbrigðisáætlun Alþingis. Þau vinnubrögð sem notendur eru að verða vitni að lýsa miklu fremur valdníðslu en valdeflingu og mótmælum við þeim vinnubrögðum!
Með einlægri von um að ráðamenn sjái skynsemina í því að varðveita GET og samstarfið við Hugarafl og stuðla þannig að breidd í samfélagsgeðþjónstu. Staðsetja þarf GET annars staðar og finna því nýjan farveg utan Heilsugæslunnar. Þannig geta ný teymi innan Heilsugæslunnar verið í samstarfi við GET og Hugarafl sem eru mikilvægur hlekkur í endurhæfingu og bata einstaklinga með geðraskanir.