Skip to main content
Greinar

Að finna sína eigin leið

By febrúar 22, 2014No Comments

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort maður geti í raun og veru hjálpað öðrum. Ég verð að viðurkenna að reynsla mín hingað til bendir ekki til þess að maður geti hjálpað fólki með beinum hætti eins og kennari fræðir og hjálpar nemanda sínum. Maður getur kennt fólki ákveðna hluti eins og að læra að lesa og skrifa o.s.frv. en þegar kemur að því sem raunverulega skiptir máli eins og að finna hamingjuna eða lífsfyllingu þá dugar ekki að beita sömu aðferðum. Stundum reynir maður að segja fólki hvað hefur reynst manni sjálfum vel og haldið að það leiði til þess að lífssýn og skoðanir viðkomandi breytist í kjölfarið. Þó velmeinandi þá virka hlutirnir því miður ekki svona.

Raunveruleikinn er sá að hver og einn verður að finna sína eigin leið með eða án aðstoðar annarra. Þetta er okkar hlutskipti hvort sem okkur líkar það vel eða illa. Einn besti eiginleiki sem maður getur tileinkað sér er víðsýni, að geta séð hlutina frá mörgum sjónarmiðum án þessa að þurfa að fella dóma um það hvort þeir séu réttir eða rangir, góðir eða vondir. Sá sem hefur opinn huga og forðast að fella harkalega dóma er og verður ávallt feti framar þeim sem eru þröngsýnir.

Þá komum við aftur að því hvernig við getum hjálpað öðrum. Galdurinn að mínu mati er að hjálpa fólki að finna sína eigin leið. Með því að benda viðkomandi á að það eru mörg sjónarhorn á öll viðfangsefni, hvort sem um er að ræða andlega málefni sem og veraldleg. Þegar viðkomandi sér að það er hægt að sjá hlutina í víðu samhengi og að sú sýn sem hann hefur á lífið og tilveruna akkúrat núna er ekki endilega sú farsælasta þá hefur mikill árangur náðst. Það er á þessu stigi þar sem viðkomandi getur farið að tileinka sér nýjar hugmyndir og ný lífsviðhorf. Þegar viðkomandi er kominn á þetta stig sjálfsuppgötvunar getur hann farið að læra af öðrum og tileinkað sér það sem honum finnst eftirsóknarvert í fari annarra.

Það verður þó að segjast að það eru ekki til neinar töfralausnir sem virka á alla. Skoða verður hvert tilvik sér á parti vegna þess að við erum öll einstök. Við höfum öll okkar kosti og galla ef svo má að orði komast. Grundvallar atriðið er þó alltaf að nálgast hvort annað með kærleika og hlýju og muna að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Höfundur: Kári Halldórsson
Sett inn á vefinn: 25.03.2009