Skip to main content
Greinar

Á flug með drauma og hugmyndir.

By febrúar 20, 2014No Comments

Flestir eiga sér drauma og þrár en skortir oft sjálfstraust og hugrekki til þess að láta á þá reyna. Markþjálfarnir Linda Sigríður Baldvinsdóttir og Þórhildur Sveinsdóttir segja að markþjálfun gæti komið þar mörgum að gagni.

Eftir Unni H. Jóhannsdóttur
uhj@mbl.is

Markþjálfi aðstoðar fólk við að taka skref sem gera framtíðarsýn þess, markmið og óskir að veruleika,“ segir Þórhildur Sveinsdóttir. „Hver og einn er sérfræðingur í sjálfum sér en markþjálfi notar aðferðir eins og markvissar spurningar, stuðning og endurgjöf til þess að efla vitund fólks til að bera ábyrgð á eigin lífi. Samtöl við markþjálfa hjálpa fólki bæði til þess að skilgreina hvað það er sem það raunverulega vill gera með líf sitt og ná faglegum og persónulegum markmiðum hraðar en annars væri mögulegt.“

Markþjálfun er íslensk þýðing á enska heitinu ,,coaching“ en markþjálfi er á því tungumáli nefndur ,,coach“. Aðferðin á rætur að rekja til Bandaríkjanna og hefur á örfáum árum breiðst þaðan víða um heim og er ekki síst vinsæl hjá fólki sem vill ná árangri í viðskiptaheiminum og efla leiðtogahæfileika sína.

„Markþjálfun nýtist þó fleirum,“ segir Linda Sigríður Baldvinsdóttir. „Hún getur verið hluti af því að ná jafnvægi í lífi einstaklings en einnig getur hún aðstoðað fólk til þess að fara út fyrir þægindaramma sinn, vinna með styrkleika sína og láta drauma sína rætast. Með markþjálfun getur hver og einn fundið heppilegustu lausnina fyrir sjálfan sig.“

Markþjálfun er ekki meðferð.

–En er þetta meðferð líkt og hjá sálfræðingum eða félagsráðgjöfum?
„Nei, alls ekki,“ segja markþjálfarnir í kór og hrista höfuðið um leið neitandi. „Við viljum einmitt taka það fram að markþjálfun er ekki meðferð í þeim skilningi. Markþjálfar eru ekki menntaðir til þess að taka fólk í meðferð, eins og t.d. þá sem eiga við erfiðleika að stríða úr fortíðinni eða geðrænar raskanir, en að sjálfsögðu getur markþjálfun nýst þeim eins og öðrum. Markþjálfun snýr að því að efla sjálfstraust og sjálfsöryggi, það eru þeir steinar sem fólk steytir oftast á þegar það vill gera breytingar í lífi sínu. Í markþjálfun er einstaklingurinn að vinna með sjálfan sig að þeirri framtíð sem hann vill eiga.“

–Er engin hætta á að fólk fari þá að lifa í framtíðardraumunum?

„Nei,“ svarar Linda afdráttarlaust. „Við vinnum út frá núinu að því sem viljum fá í framtíðinni. Markþjálfar styðja fólk til þess að setja sér þau markmið sem það vill og sjá mögleikana í framtíðinni. Það er hins vegar fólkið sjálft sem finnur leiðirnar og stígur skrefin. Þær breytingar sem eiga sér stað í lífi fólks gerast hins vegar alltaf í núinu.“

Að beina orkunni í réttan farveg.

–Hvernig fer markþjálfun fram?
„Við notum opnar en markvissar spurningar, skráum niður markmið og leiðir og tölum um þá möguleika sem eru fyrir hendi,“ segir Linda og Þórhildur heldur áfram:

,,Fólk vill yfirleitt gera einhverjar breytingar á lífi sínu eða viðhorfum og ræður því alltaf umfjöllunarefninu. Það getur verið allt frá mjög hagnýtum málum eins og að taka oftar til heima hjá sér, bæta sig í samskiptum og til huglægari verkefna eins og að verða jákvæðari í hugsun. Umræðan getur snúist um núverandi stöðu og hvað knýr fólk til breytinga, hvar það vill sjá sig eftir ár og hvaða lausnir það sjái í stöðunni. Við erum ekki ráðgjafar, fólk verður að finna sínar lausnir sjálft, en hlustum og speglum og veitum aðhald í breytingaferli, til þess að fólk fái betri yfirsýn yfir líf sitt eða sjái hlutina frá öðru sjónarhorni.“

Linda og Þórhildur segja fólk á öllum aldri og úr öllum stéttum geta nýtt sér markþjálfun. „Hún gagnast einnig fólki án tillits til starfs. Bílstjóri, námsmaður eða húsmóðir geta því haft jafnmikið gagn af markþjálfun og þeir sem stjórna fyrirtækjum en þetta þykir mjög nytsamlegt tæki í mannauðsstjórnun.“ Þær segja fólk iðulega hugsa meira um takmarkanirnar í lífi sínu en möguleikana. ,,Fólk vantar oft stuðning og hvatningu til þess að stíga út fyrir þægindarammann og þar er markþjálfun hjálpleg. Það skilgreinir sjálft sig oft upp á nýtt og leyfir sér að framkvæma, láta möguleikana verða að veruleika í stað þess að draga alltaf úr sjálfu sér eða leyfa öðrum að gera það.“

Þær segja að það sé oft betra að eiga samtal við markþjálfa en við vin eða maka þar sem hann er hlutlaus aðili og engin tilfinningabönd fyrir hendi. „Markþjálfinn hefur bara það hlutverk að laða fram hjá hverjum og einum þær lausnir sem hann býr sjálfur yfir. Fólk undrast t.d. oft smáatriðin sem ræna það orku. Markþjálfun snýst nefnilega um að nýta lífsorkuna sem best og leggja í þann farveg sem fólk óskar sem og að fylla fólk orku til þess að takast á við verkefnin og möguleikana sem eru í lífi hvers og eins.“

Hvatningartorg á Menningarnótt.

Á Menningarnótt ætla nokkrir markþjálfar að bjóða upp á hvatningartorg í Lýðveldisgarðinum hjá Þjóðleikhúsinu við Hverfisgötu. „Það eru til margar tegundir markþjálfunar og ein þeirra er svokölluð hraðmarkþjálfun en Hvatningartorgið verður með því sniði. Þá koma nokkrir markþjálfar saman og þeir sem vilja koma geta átt örsamtöl, um fimm mínútna löng, við hvern og einn þeirra og fengið speglun á drauma sína og hugmyndir. Það getur verið gott að tala við marga markþjálfa því þeir hafa oft misjafnan bakgrunn og áherslur en í raun eru þetta hvatningarsamtöl. Fólk fær kröftuga hvatningu til þess að segja frá draumum sínum, gera þá skýrari og taka þá ef til vill skref til þess að láta þá rætast. Við erum sannfærðar um að slík samtöl fylli fólk meiri andagift og fullvissu um að það geti látið óskir sínar verða að veruleika. Það er skortur á hvatningu og hrósi í menningu Íslendinga og þetta á einmitt vel við á krepputímum þar sem frekar er verið að draga úr fólki og fólk verður hræddara við að segja frá draumum sínum eða láta á þá reyna.“ Markþjálfarnir verða með Hvatningartorgið opið í Lýðveldisgarðinum kl. 14, 16, 18 og 20.