Ungmennaskipti um tilfinningar og geðheilsu
Hópur frá Hugarafli dvelur nú í Portúgal á vegum Erasmus+ ungmennaskipta sem snúast um tilfinningar, geðheilsu og sjálfstyrkingu. Fimm manns mynda íslenska hópinn: hópstjórinn Sigrún Huld og unghugarnir Blær, Dan, Lovísa og Sylvía.
Sigrún Huld, Dan, Sylvía, Blær og Lovísa.
Verkefnið leggur áherslu á að kanna og vinna með tilfinningar í gegnum skapandi tjáningu og samveru. Þátttakendur prófa fjölbreyttar leiðir, meðal annars dans og hreyfingu, leiklist, núvitundaræfingar og opna samræðu. Lögð er áhersla á tengsl, hlustun og samfélag – og hvernig hægt er að tjá sig án orða, með hugrekki og nærveru.
Þátttakendur dvelja í fallegu umhverfi í Portúgal.
Dagarnir eru skipaðir lifandi dagskrá þar sem þátttakendur stíga út fyrir sinn þægindaramma á eigin forsendum. Þetta ferli reynist einstaklega valdeflandi, bæði fyrir einstaklinginn og hópinn í heild. Í einni af æfingunum fengu þátttakendur að tjá sitt innra tilfinningalíf í dansi, sem skapaði einstaka og djúpa tengingu milli þátttakenda.
Góð tenging hefur myndast milli þátttakenda sem koma frá nokkrum löndum.
Á næstu dögum heldur hópurinn áfram ferð sinni, meðal annars í fjallgöngu að gömlu klaustri og á hvíta baðströnd. Síðustu dagarnir fara svo í gerð stuttmynda sem endurspegla þema Ungmennaskiptana.
Reynslan eykur bæði sjálfstraust og samstöðu og styrkir ungt fólk í að treysta eigin rödd, tilfinningum og getu.