Fréttir

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins leggur niður geðteymi

By nóvember 28, 2017 No Comments

Magnea Rivera Reinaldsdóttir tjáir sig um stöðu GET; Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins leggur niður geðteymi sem starfað hefur í 14 ár með mjög góðum árangri.

Fyrir rúmlega 14 árum fór Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi á fund hjá samninganefnd Heibrigðis- og Tryggingamálaráðherra með batahugmynd fyrir fólk með geðraskanir og bað um stuðning hins opinbera til að hrinda af stað úrræði fyrir þessa einstaklinga.  Ráðherra tók þessu vel og gerður var samningur milli  Auðar og ráðuneytisins um fjárhagslegan stuðning. Auður hafði unnið að þessari hugmynd með  fjórum aðilum sem höfðu reynslu af geðrænum kvillum. Þessi hópur stofnaði samtök og nefndu þau Hugarafl. Unnið skyldi eftir bata módeli sem kallað er Valdefling.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins óskaði fljótlega eftir að fá að vera með í þessu starfi og var það samþykkt.  Úr varð teymi með 4 stöðugildum fagaðila og Auður tók að sér forstöðumennsku þessa teymis. Teymið skyldi vinna eftir sama batamódelinu, Valdeflingu, en í því felst að efla einstaklinginn til að ná aftur valdi á sínu lífi, en oftar en ekki hefur fólk með geðræna kvilla misst þetta vald og eftir situr vonleysi, vanmáttarkennd, uppgjöf og í sumum tilfellum sjálfsvígshugsanir sem því miður verða stundum að  veruleika. Þessi 2 úrræði, Hugarafl og teymið hafa unnið saman allt frá byrjun, eða í 14 ár.  Teymið þjónustar bæði „fólk úti í bæ“ og Hugaraflsmeðlimi. Teymið fær ákveðna upphæð í gegnum Heilsugæsluna sem fer aðallega í laun starfsmanna en Hugarafl er með samning við Velferðarráðuneytið um fjárhagslegan stuðning einu sinni á ári.  Ég get alveg lofað ykkur því að þetta eru ekki háar upphæðir en fleiri hundruð manns sækja sér hjálp í þessi úrræði á ári hverju og er ég þá ekki að tala um komur heldur einstaklinga sem þangað sækja.

Samstarf teymisins og Hugarafls hefur verið alveg einstaklega gott allar götur frá því þau voru stofnuð, unnið saman sem einn maður við að koma fólki til heilsu á ný. Eru þau nú til húsa að Borgartúni 22 í Reykjavík. Þar sem Auður er ein af stofnendum Hugarafls og er ennþá forstöðukona teymisins gefur augaleið hversu nátengt þetta tvennt er. Hjá Hugarafli starfa 3 einstaklingar á launum, einn iðjuþjálfi og tveir verkefnastjórar, en mestallt prógrammið er unnið af sjálfboðaliðum,  notendum sem náð hafa bata og treysta sér til að taka ábyrgð en í Valdeflingunni felst einnig að æfa sig í að taka ábyrgð og svo vilja flestir líka gefa eitthvað til baka af því sem þeir hafa fengið í Hugarafli. Úrræði þessi eru opin, fólk kemur og fer að vild, velur sér það prógram sem hentar því og ræður hversu mikla þjónustu það óskar eftir hjá teyminu og hversu mikið það sækir af þjónustu Hugarfls.Þetta er mjög óvenjulegt, því yfirleitt þarf fólk að bíða svo og svo lengi eftir aðstoð og fá jafnvel ekki aðstoð fyrr en of seint.  Allt er þetta ókeypis. Svo ég segi frá einhverju sem í boði er Í Borgartúni 22 nefni ég einkaviðtöl, alls kyns hópastarf sem hjálpar fólki að tjá sig, setja sér markmið, læra á sjúkdóm sinn, deila reynslu sinni styrk og vonum með fólki sem upplifað hefur sömu erfiðleika, jógatímar, meðvirknigrúppur, myndlistarkennsla,  handavinnuhópur og fleira og fleira.

En af hverju er ég að tala um þetta allt, er þetta ekki bara hið besta mál? Jú ég er að upplýsa þá sorglegu staðreynd að nú hefur Heilsugæslan ákveðið að leggja teymið niður.  Á teikniborðinu hjá þeim eru drög að nýjum teymum sem starfa eiga í hverfunum og seinna meir á landsbyggðinni. Þetta er auðvitað mjög gott ef ekki stæði til að leggja niður teymið sem hefur 14 ára reynslu af einstaklega góðu starfi og ráða engan af starfsmönnum teymisins í Borgartúni í nýju teymin. Og, takið eftir, það er engin skýring gefin á ástæðu þess að teymið skuli lagt niður. Forstöðukona teymisins Auður Axelsdóttir fær ekki að vera með og hún hefur ítrekað farið á fundi hjá Heilsugæslunni, hjá ráðuneytinu, hjá nefndinni sem er að búa til drögin að nýju teymunum, en ekkert svar, það á bara að leggja teymið hennar niður. Þetta er með ólíkindum og ég flokka þetta undir einelti. Starf það sem unnið er hjá þessu teymi er ómetanlegt og samstarfið við Hugarafl er líka alveg einstakt.

Það er kaldhæðnislegt að sjá að í skýrslunni sem komin er út um starfsemi nýju teymanna segir að unnið  skuli eftir hugmyndafræði sem nefnist Valdrfling. Sem sagt, það á að nota módelið sem Hugarafl og teymið hennar Auðar hafa unnið eftir í 14 ár en hún og hennar fólk eiga bara ekki að vera með.

Þessi sama kona,  Auður Axelsdóttir fékk Fálkaorðuna 17. júní á þessu ári fyrir einstakt starf í þágu geðheilbrigðismála á Íslandi á undanförnum árum.  Hvað er eiginlega að, hvernig samræmist þetta tvennt. Hvernig getur kona fengið Fálkaorðuna í júní og vera svo sett útá kaldan klakann 4 mánuðum seinna fyrir sömu störf?

Sjálf hef ég fengið ómetanlega aðstoð bæði hjá teyminu og í Hugarafli. Ég var ansi mikið veik af þunglyndi og kvíða á árunum 2013 og 2014. Ég frétti af Hugarafli og ákvað að prófa. Ég fór á hverjum degi í langan tíma og sótti mér hjálp bæði hjá Hugarafli og teyminu. Ég fer enn í Borgartúnið, kannske 2svar 3svar í viku, en andinn þar  er svo góður og kærleikurinn svo miklill, að þetta verður eins og annað heimili manns. Ég hef séð ótrúlega hluti gerast í Borgartúninu. Fólk hefur komið og fengið bata með undraverðum hætti og er ég sjálf í þessum hópi.  Hvert á fólk eiginlega að fara þegar búið er að leggja teymið niður? Allt þetta fólk sem hefur náð heilsu þar. Hvað ætli það spari íslensku þjóðfélagi mikið að einstaklingar geti komið og fengið einkaviðtöl, alls konar hópavinnu, jóga af ýmsum gerðum og margs konar námskeið svo eitthvað sé nefnt, já alla þá aðstoð sem það þarf  í stað þess að þurfa ef til vill að leggjast á geðdeild. Nýju teymin eru nefnilega enn bara á pappírunum, engu fé hefur verið veitt til þeirra ennþá,  en teymið hennar Auðar verður lagt niður á næsta ári  Ég skil bara ekki hver tekur svona ákvarðanir, en það er ekki gefið upp, sá sem það hefur gert þorir ekki að stíga fram og axla þá ábyrgð, enda kannske ekki hægt að státa sig af svona vinnubrögðum. Ég leyfi mér að fullyrða að það sem hefur hjálpað mér og ótal ótal öðrum einstaklingum við að ná heilsu aftur, fara í vinnu eða skóla, sinna fjölskuldu sinni, já öðlast bara líf aftur, er starfið í Borgartúninu og þá ekki síst hjá teyminu.  Ég trúi bara ekki öðru en einhverjir óski eftir að taka þetta teymi að sér þó Heilsugæslan hafi geð í sér til að leggja það niður.