Skip to main content
Fréttir

Hlustaðu!! Ungmenni Hugarafls tjá sig um reynslu sína af sjálfsskaða og sjálfsvígstilraunum.

By september 9, 2019No Comments

Í tilefni af alþjóðlegum forvarnadegi sjálfsvíga sem haldinn er hátíðlegur 10. september ár hvert langar okkur í Hugarafli að bjóða ykkur á opinn borgarafund ungs fólks um sjálfsvígshugsanir og sjálfsskaða. Fundurinn verður haldinn í húsnæði Hugarafls, Lágmúla 9, 6. hæð, frá kl. 13:00-15:00, 12. september 2019.

Á þessum viðburði verða fjögur ungmenni í pallborðsumræðum og deila sinni persónulegu reynslu af andlegum áskorunum og öngstræti. Þau munu einnig deila með áheyrendum hugmyndum um það sem hefur reynst þeim vel í þjónustuumhverfi og samfélaginu öllu auk þess sem hægt væri að bæta. Unga fólkið verður í sviðsljósinu og við höfum sérsaklega boðið félagsmála-, menntamála- og heilbrigðisráðherrum að hlýða á sögur þeirra og spyrja spurninga. Einnig buðum við fulltrúum velferðarráða Reykjavíkurborgar og nærliggjandi sveitarfélaga á fundinn. Þetta er einstakt tækifæri fyrir stjórnsýsluna til að fá aukna innsýn inn í málaflokkinn og fá tillögur að mögulegum framförum frá grasrótinni og unga fólkinu sjálfu. Hér snúum við hefðbundnu viðburðaformi við þar sem stjórnmálafólk er ekki sjálft í pallborðinu en fær fyrsta spurningarétt og beinan aðgang að einstaklingum með persónulega reynslu.

Fundinum verður streymt á netinu fyrir landsbyggðarfólk og hann tekinn upp. Í kjölfar fundarins verða helstu niðurstöður teknar saman og sendar Alþingisfólki til hliðsjónar við stefnumótandi ákvarðanatöku í geðheilbrigðismálum.

Bestu kveðjur fyrir hönd skipulagsnefndar,
Agla Hjörvarsdóttir
Fanney Björk Ingólfsdóttir
Hrefna Svanborgar Karlsdóttir
Sigurborg Sveinsdóttir
Svava Arnardóttir
Þórður Páll Jónínuson