Skip to main content
Greinar

Heilsan og hamingjan

By febrúar 19, 2016No Comments

Thelma Björk Jónsdóttir skrifar

Thelma Björk Jónsdóttir fatahönnuður segir kundalini jóga hafa breytt íífi sínu. „Það hefur gefið mér innri frið, sjálfstraust, kjark og úthald til að stíga inn í draumana mína.“

 Ég er fatahönnuður, móðir og kundalini jógakennari. Hamingja fyrir mig felst í því að vera vakandi vitund í eigin lífi, hlusta og heyra hvað hjartað og líkaminn er að segja. Ég hef í gegnum nokkrar leiðir fengið nýja sýn á hamingjuna. Þær leiðir sem veita mér hamingju og hugarró eru:

Kundalini jóga

Kundalini jóga hefur breytt lífi mínu í alla staði. Það hefur gefið mér innri frið, sjálfstraust, kjark og úthald til að stíga inn í draumana mína. Að trúa á sjálfa mig. Ég hef náð að næra allt það bjarta og góða í mér og sjá það í öðrum, auk þess sem ég upplifi aukinn kjark og úthald til að takast á við þær áskoranir sem ég mæti í lífinu. Umfram allt hef ég öðlast traust til lífsins í gegnum jógaiðkun mína. Þetta snýst nefnilega ekki um hvort við erum með stinnann rass heldur hvernig okkur líður í hjartanu. Ég treysti því að lífið færi mér allt sem ég þarf og allt sem ég vil.

Flot/sund og KALDUR pottur

Ég reyni að byrja alla daga á sundi og henda mér í kaldan pott, sem er auðvitað besti kaffibollinn. Ég elska þó fátt meira en að lauma mér eldsnemma í vaðlaugina á Seltjarnarnesi um helgar og fljóta. Flothettan hennar Unnar Valdísar er í miklu uppáhaldi hjá mér og er afar vönduð og fallega hugsuð hönnun. Þegar líkaminn flýtur verður hann þyngdarlaus. Í þyngdarleysinu minnkar álagið á miðtaugakerfið, vöðvana og mænuna. Ein klukkustund af floti jafngildir um það bil fjögurra klukkustunda svefni. Flothettuna tek ég alltaf með mér í sumarbústaðinn og í rauninni hvert sem möguleiki er á að skella sér í vatn.

Danspásur

Máttur dansins er gífurlegur og enn sterkari ef við munum eftir því að brosa. Þegar stressið er að taka yfir, þá er ekkert jafn frelsandi en að taka sér danspásu. Ég set uppáhaldslagið mitt í botn og dansa eins og enginn sé að horfa. Þú getur ekki annað en brosað og liðið betur eftir svoleiðis pásur.

Göngutúrar

Upplifa náttúruna og anda að sér fersku lofti. Að gleyma sér í göngutúr meðfram sjónum getur gert kraftaverk.

Góð næring

Þú ert svo sannarlega það sem þú borðar og drekkur. Mikilvægi vatnsdrykkju má aldrei vanmeta. Svo eru töfrar í drykkjunum frá systrunum í Systrasamlaginu sem fá mig til að ljóma. Nærandi heila- og magafóður. Indigo kaffið gerir mig skýrari og fjörefnagrænn fyllir vel á tankinn.

Þakklæti og fallegar hugsanir

Máttur hugans er svo mikill. Þú ert það sem þú borðar en þú ert líka það sem þú hugsar. Vertu til staðar fyrir sjálfan þig og svo fyrir aðra í auðmýkt.
Stattu með sjálfum þér. Þökkum fyrir lífið því við fáum bara eitt.

„Þakkaðu fyrir það sem þú munt þiggja, jafnvel áður en þú biður. Skynjaðu sameiningu, einingu alls lífs, þar sem enginn aðskilnaður er, því allt er eitt.“ – Yogi Bahjan

Hugleiðsla og möntrusöngur

Hugleiðsla og möntrur hafa breytt miklu fyrir mig. Eftir að ég byrjaði að stunda jóga og hugleiða fór ég að tengja aftur við mig og mínar tilfinningar, ég varð meira skapandi, sef betur og á sama tíma finn ég innri ró og vellíðan. Möntrur eru helg orð sem hreyfa við sálinni. Orðin eru eins og vörður sem leiða okkur inn á við í þeim tilgangi að losa um spennu og skapa frið.

Þessa grein er upprunalega að finna á: http://stundin.is/pistill/heilsan-og-hamingjan/