Um þessar mundir tekur Lyfjastofnun þátt í sam-evrópsku átaki um að vekja athygli almennings og heilbrigðisstarfsfólks á mikilvægi þess að tilkynna aukaverkanir af völdum lyfja til lyfjayfirvalda. Meginskilaboðin eru: Aukaverkanatilkynningar auka öryggi lyfja og með því að tilkynna getur þú hjálpað sjálfum þér og öðrum sem þurfa á lyfjameðferð að halda.
Allir geta tilkynnt aukaverkun lyfs til Lyfjastofnunar
Lyfjastofnun tekur við aukaverkanatilkynningum frá heilbrigðisstarfsmönnum, þ.m.t. dýralæknum og almenningi. Þær eru færðar inn í Evrópskan gagnagrunn (EudraVigilance) þar sem þær eru nýttar af sérfræðingum á vegum lyfjastofnana einstakra Evrópulanda og Lyfjastofnunar Evrópu til að fylgjast með öryggi lyfja og leita leiða til að minnka líkur á aukaverkunum. Þannig er söfnun og rannsókn á aukaverkanatilkynningum forsenda fyrir bættu lyfjaöryggi sjúklinga.
Til að tryggja öryggi sjúklinga eins og best verður á kosið er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk sem kemur að lyfjameðferð, einstaklingar sem nota lyf og umönnunaraðilar þeirra leggi hönd á plóginn. Mikilvægur þáttur í þessu sambandi er að tilkynna Lyfjastofnun þegar grunur er um aukaverkanir af völdum lyfja. Þetta á jafnt við um mannalyf og dýralyf.
Hægt er að tilkynna aukaverkanir á heimasíðu Lyfjastofnunar, á þar til gerðum vefeyðublöðum. Þar eru jafnframt leiðbeiningar og almennar upplýsingar um aukaverkanir.
Hvað er aukaverkun?
Aukaverkun er skaðleg og ótilætluð verkun lyfs. Ekki þarf að vera búið að sanna tengsl lyfs og aukaverkunar áður en tilkynnt er. Grunur um aukaverkun lyfs dugar til að aukaverkun sé tilkynnt.
Góð ráð til almennings:
Fylgiseðla lyfja er að finna í pakkningu lyfsins og þá má einnig finna í sérlyfjaskrá. Hægt er að lesa sér til um þekktar aukaverkanir lyfsins í fylgiseðli.
Ef grunur leikur á að aukaverkunar hafi orðið vart gerið þá eftirfarandi:
- Skráið hjá ykkur mögulegar aukaverkanir
- Ráðfærið ykkur við heilbrigðisstarfsmann og
- Tilkynnið aukaverkanir til Lyfjastofnunar
Nánari upplýsingar um tilkynningar aukaverkanna og átakið má m.a. finna á vef Lyfjastofnunar og á facebókarsíðu stofnunarinnar.