Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Ályktun frá stjórn Hugarafls

By November 4, 2016No Comments

hugaraflVegna fréttar mbl um lyfjanotkun íslendinga, 4.11.2016:

„Íslendingar eru langhæstir í notkun örvandi lyfja eins og rítalíns og skyldra lyfja. Við notuðum hlutfallslega 260% meira af þeim en Svíar sem komu næstir. Árið 2013 var Ísland í fyrsta skipti, samkvæmt norrænni heilbrigðistölfræði (Nomesco), komið í efsta sæti í notkun verkjalyfja á Norðurlöndum. Þá er Ísland orðið hæst í notkun verkjalyfja, örvandi lyfja, svefnlyfja og róandi lyfja, róandi og kvíðastillandi lyfja og flogaveikilyfja sem öll eru ávanabindandi.“

Við hjá Hugarafli lítum mjög alvarlegum augum á þá staðreynd að Íslendingar hafi verið að setja Norðurlandamet í lyfjanotkun. Við verðum áþreifanlega vör við þennan vanda daglega í okkar starfi. Mikil lyfjanotkun hefur áhrif á færni og þátttöku einstaklinga í samfélaginu og getur hamlað bata. Okkar reynsla er sú að geðlyf, róandi lyf og svefnlyf séu notuð í of miklu magni og yfir of langan tíma. Einnig teljum við upplýsingaflæði vera ábótavant til neytenda um aukaverkanir og áhrif langtímanotkunar. Sama má segja um fráhvörf þegar lyfjatöku er hætt, þar skortir einnig á upplýsingaflæði og aðstoð. Endurskoðun lyfjameðferðar virðist ekki fara fram reglulega.

Hér teljum við mannréttindi vera brotin og tilgangur með ofnotkun þessara lyfja óljós í lækningaskyni. Læknastéttin ber hér mikla ábyrgð sem ekki er nægjanlegt eftirlit með frá stjórnvöldum að mati Hugarafls.

Við viljum leggja það til að settur verði á fót vinnuhópur sem stefnir á að minnka lyfjanotkun vegna geðraskana um 50% á næstu fimm árum. Þessi vinnuhópur hefði það einnig að markmiði að setja gæðastaðla vegna ávísun lyfja og að setja starfsreglur læknum sem ávísa lyfjum. Í nýjum starfsreglum ætti að vera skýrt kveðið á um að í hvert sinn sem einstaklingur fær geðlyf, róandi lyf og svefnlyf á að fara fram öflugt upplýsingaflæði um verkan, aukaverkanir og áhrif s.s. eins og hættuna á öðrum sjúkdómum og lífslíkum. Endurskoðun verði gerð reglulega á lyfjameðferð og markmiðið verði ávallt að hafa hana eins takmarkaða og hægt er. Að notandinn hafi val og áhrif á meðferð sína og að hans rödd verði sterk í allri ákvarðanatöku varðandi lyfjameðferð. Hugarafl býður að sjálfsögðu fram einstaklinga í hópinn sem hafa reynslu af lyfjum, verkan þeirra og hvernig lyf geti stutt við bataferli eða haft hamlandi afleiðingar.

Hugarafl bendir á árangur Finna með meðferðarformið „Open dialogue“ sem er ætlað til að mæta einstaklingi í fyrsta geðrofi, í 1/3 tilfella án lyfja. Rannsóknir sýna að árangur þessarar meðferðar er m.a. sá að 82% þeirra sem fara í gegnum þessa meðferð ná bata og fara aftur til fullrar þátttöku í samfélaginu. Hugarafl hefur talað fyrir „Open dialog“ í mörg ár og telur kjörið að Ísland taki aðferðina upp sem valmöguleika við hefðbundna geðheilbrigðisþjónustu. Hugarafl hefur til margra ára einnig barist fyrir öðrum valmöguleika við hefðbundna þjónustu, þ.e. Skjólshúsi. Í Skjólshúsi getur einstaklingur í andlegri vanlíðan leitað og fengið þjónustu hjá aðilum sem hafa náð bata af geðröskunum, í styðjandi umhverfi sem ekki byggir á stofnana nálgun og sjúkdómsvæðingu.

Því miður hafa stjórnvöld enn ekki tekið nægjanlega undir þessar tvær hugmyndir Hugaraflsmanna að nýjum óhefðbundnum leiðum í okkar geðheilbrigðiskerfi. Það virðist hins vegar liggja ljóst fyrir að „oft var þörf en nú er nauðsyn“ og því viljum við hvetja komandi  ríkisstjórn til að taka málin föstum tökum og vinna að bættum leiðum sem byggja á virðingu og réttlæti.

Í lokin vill Hugarafl hvetja til opinnar umræðu um þetta alvarlega málefni og að allir sem eru ábyrgir og láta sig málið varða, taki höndum saman og stuðli að gagngerum breytingum. Hugarafl lýsir sig reiðubúið til að halda utan um þá umræðu.