
Dagana 9.–11. desember fór fram fyrsta jafningjastuðningsnámskeið Hugarafls, hannað og haldið innanhúss. Námskeiðinu lauk í gær og markar það mikilvæg tímamót í uppbyggingu jafningjastuðnings innan félagsins.
Á námskeiðinu var farið yfir sögu jafningjastuðnings í Hugarafli, grunngildi hans og hlutverk. Lögð var rík áhersla á að skilgreina hvað jafningjastuðningur er – og ekki síður hvað hann er ekki. Þátttakendur fengu tækifæri til að dýpka skilning sinn á mörkum, ábyrgð og þeirri sérstöku þekkingu sem byggir á reynslu af bata.
Námskeiðið var jafnframt djúpt og krefjandi ferli þar sem þátttakendur unnu með eigin lífssögu, upplifun og reynslu, með það að markmiði að greina sigra, styrkleika og þann mannauð sem býr í hópnum. Þar kom skýrt fram hversu mikil verðmæti felast í þessum fjölbreytta hópi fólks – ólíkum bakgrunni, en sameiginlegri reynslu og innsýn.
Þessi fyrsti hópur leggur nú grunninn að jafningjastuðningsteymi Hugarafls, sem mun taka til starfa í upphafi komandi árs. Með því er stigið mikilvægt skref í áframhaldandi þróun bata- og jafningjamiðaðrar þjónustu, þar sem rödd og reynsla fólks með lifaða reynslu er í forgrunni.
Hugarafl er stolt af þessum áfanga og hlakkar til að byggja áfram á þeim styrk, visku og mannlegu tengingu sem birtist svo skýrt í þessu ferli.
Fjóla, Fríða og Grétar voru þjálfararnir á námskeiðinu en öll þrjú hafa þau alþjóðleg réttindi til þess að þjálfa aðra í jafningjastuðningi frá Herstel Talent í Hollandi.








