Skip to main content

Góðan dag. Hér kemur dagskrá fyrir lotu 4 sem gildir 25. ágúst – 3. október. 

 

Við viljum minna á hópareglur; að mæta tímanlega í hópa, hafa athyglina á réttum stað (vera t.d. ekki í símanum í hópum) og vera ekki að ráfa út og inn að óþörfu á meðan hópurinn er í gangi.  

 

Teams er í boði fyrir þau sem búa úti á landi, búa við skerta hreyfigetu eða hafa aðra tilgreinda ástæðu. Til þess að fá senda teams linka skal senda tölvupóst á ninna@hugarafl.is með skýringu. Ef þið viljið fá senda staka teams linka skal passa að senda póst fyrir kl. 9 þann dag sem fundurinn er. Athugið að ef þið þurfið link fyrir Skipulag endurhæfingar þarf að taka fram í hvaða hópi þið eruð. 

 

Mánudagur

Skipulag endurhæfingar (teams) 

Þrír hópar ganga undir nafninu Skipulag endurhæfingar og eru lokaðir hópar. 

Í hópatímum A og B eru rædd markmið og tilgangur endurhæfingar með iðjuþjálfa. 

Í hópi A er lögð áhersla á tilgang endurhæfingar og markmið daglegs lífs. Markmið eru sett fyrir hverja viku sem taka mið af daglega lífinu samhliða fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun. Einnig fer fram þematengd umræða sem tengist endurhæfingu s.s. um rútínu, skipulag í dagsins önn, að setja sjálfum sér og öðrum mörk, hugað að heilsunni og afleiðingum áfalla á taugakerfið og svo mætti lengi telja. Allt eru þetta atriði sem tengjast endurhæfingu og bataferlinu. Hvatt er til virkar þátttöku hvers og eins í hópnum. 

Í hópi B er haldið áfram að vinna með markmið og áfrorm í endurhæfingunni. Markmið eru sett fyrir hverja viku sem taka mið af daglega lífinu samhliða fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun. Einnig fer fram þematengd umræða sem tengist endurhæfingu s.s. um rútínu, skipulag í dagsins önn, að setja sjálfum sér og öðrum mörk, hugað að heilsunni og afleiðingum áfalla á taugakerfið og svo mætti lengi telja. Allt eru þetta atriði sem tengjast endurhæfingu og bataferlinu. Hvatt er til virkar þátttöku hvers og eins í hópnum. 

Það sem bætist við er áhersla á að viðhalda árangri, taka á þeim atriðum sem mögulega þarf að breyta í daglega lífinu og horfa fram á við hvað varðar framtíðaráform. Unnið er með bakslög sem þekkingarbrunn og stuðst við þá þekkingu sem skapast. 

Í hópi C fer fram starfsmiðuð endurhæfing. Þau sem taka þátt í þeim hópi eru flest á seinni hluta endurhæfingar og á leið á vinnumarkað eða til skólagöngu. Unnið er með undirbúning fyrir endurkomu á vinnumarkað og hópastarfið felur í sér að farið er í gegnum vonir og væntingar og unnið með þær áhyggjur sem upp koma þegar þetta skref er stigið. Gerð eru hagnýt plön sem miðast að því að komast á vinnumarkað, farið er yfir möguleika á vinnumarkaði, unnið að ferilskrá, undirbúningur umsókna og starfssamtals og margt fleira mætti telja. Stuðlað er að tengingu við samfélagið og samstarf við þá aðila sem skipta máli þegar stigið er út í samfélagið á ný. Má þar nefna Vinnumálastofnun, Mímir, vinnustaðir og aðrir. 

Kær kveðja, Auður, Birgitta og Grétar 

 

Þriðjudagur 

Meðvirkni og innri sannfæringar 

Undanfarið hafa þetta verið tveir hópar, meðvirknispjall og innri sannfæringar, en nú ætlar Guffa að prófa að blanda þessu saman.
Hvað er meðvirkni? Spjöllum um það. Hvernig hefur hún áhrif á daglegt líf okkar og hvernig getum við verið meðvitaðri um meðvirknina okkar.
Í hópnum fer fram sjálfsvinna og sjálfsskoðun um kjarnaviðhorf og hvernig við lítum á sjálf okkur, til dæmis; hverju trúi ég um sjálfa/n mig og hvers vegna?, hvort það sem virkaði og hentaði áður sé að flækjast fyrir mér núna, hvort það sem ég lærði sem barn sé að henta mér núna, og af hverju við erum að gera það sama núna sem aftrar okkur í bataferlinu. Farið ofan í hlutina um hvers vegna við gerum og hugsum í dag neikvætt um okkur sjálf og hvernig við getum breytt því til betri vegar og líðanar í dag. 

 

Bati (teams) 

Hópur sem ræðir batahugmyndafræðina sem er einn af máttarstólpunum í allri starfsemi Hugarafls. Hópurinn er leiddur af Grétari og Sigrúnu Huld í þessari lotu og byggir á gagnrýnni umræðu um viðteknar venjur í geðheilbrigðiskerfinu og batahugmyndafræði sem hefur reynst fólki vel í bataferlinu. Hver tími er bland af fræðslu, umræðum og verkefnavinnu. 

 

Lyfjamálin (skráning nauðsynleg) (teams) 

Athugið að hópurinn hefst 9. september og verður því í fjórar vikur í þessari lotu. Skráning er nauðsynleg, sendið póst á hugarafl@hugarafl.is til að skrá ykkur í hópinn.
Markmið hópsins eru umræður og fræðsla um markmið og leiðir í lyfjamálum. Að verða margs vísari um geðlyf, aukaverkanir þeirra og fráhvörf, að verða meðvitaðri um leiðir geðheilbrigðiskerfisins til sjúkdómsvæðingar og lyfjanotkun, að fræðast um hvaða hlutverki lyfin gegna eða gegna ekki í bataferli, að fræðast um leiðir til niðurtröppunar og að öðlast þekkingu á “landslagi” lyfjamála í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í hópnum eru ræddar margs konar leiðir; miðlað er þekkingu um lyf og áhrif þeirra á líkama og sál, efld er þekking á öðrum leiðum og þær bornar saman, aukin er þekking hópsins á lyfjaniðurtröppun og mismunandi úrræðum/leiðum sem er að finna víða erlendis, miðlað er persónulegri reynslu af lyfjum og áhrifum þeirra á hvern og einn og kynnt er hvort fyrir öðru hvaða hlutverk þau hafa haft í bataferlinu. Óskað er eftir virkri þátttöku og æskilegt að hvert og eitt miðli sinni reynslu um málefnið. Auður sér um hópinn. 

 

Unghugar 

Unghugar er hópur fyrir ungmenni á aldrinum 18–30 ára sem vilja taka þátt í styrkjandi og uppbyggilegri samveru. 
Við hittumst á þriðjudögum uppi í risinu, þar sem við eigum tvær klukkustundir saman í öruggu rými sem byggir á jafningjastuðningi og samstöðu. 
Í hópnum leggjum við áherslu á að mynda tengsl, styrkja bataferli hvers og eins og rækta félagslega virkni. Við sköpum vettvang þar sem hægt er að deila reynslu, fá innblástur og finna kraftinn sem felst í því að vera hluti af samfélagi jafningja. 
Alexander, Blær og Silvía sjá um hópinn. 

 

Miðvikudagur 

Borðspil 

Hittumst og spilum saman borðspil!
Hugarafl á helling af skemmtilegum spilum sem við getum valið úr, og þið megið líka endilega koma með ykkar eigin spil ef ykkur langar. Richard hefur boðið sig fram að stýra Dungeons and Dragons á þessum tímum ef áhugi er til staðar.  Við ákveðum saman hvað við spilum í hvert skipti og leggjum áherslu á góða stemningu og samveru.
Alexander og Rikki sjá um hópinn. 

 

Saumanámskeið (skráning nauðsynleg) 

Sigríður Tryggvadóttir heldur saumanámskeið fyrir áhugasöm. Námskeiðið eru 4 skipti, hefst 27. ágúst og lýkur 17. september.
Þetta námskeið býður uppá endurnýtingu og viðhald á fatnaði, kynningu á möguleikum; hvort sem þú vilt nota saumavél eða skreyta flíkurnar með handsaumi.
Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna í auglýsingu í fb hópnum okkar eða í húsi.
Athugið að skráning er nauðsynleg, það eru 8 pláss á námskeiðið og hægt er að skrá sig með því að senda póst á hugarafl@hugarafl.is.  

Kaffispjall og handavinna
Áhersla er lögð á samveru og að efla félagsleg tengsl. Engin þörf er á að vera með eitthvað í höndunum eða drekka kaffi, bara koma og vera. Þetta er til dæmis tilvalið fyrir þau sem eru að æfa sig í að koma í hús og rjúfa einangrun. Ninna og Rakel taka vel á móti ykkur.

Göngutúr 

Léttur göngutúr og spjall í nærumhverfi hússins, öll velkomin. Helga og Kristín leiða hópinn. 

 

Hugaraflsfundur 

Á Hugaraflsfundi fyrir stuttu var félagsfólk spurt að því af hverju það mætir á Hugaraflsfundi og svörin létu ekki á sér standa; til að vera í samfélagi, að fá upplýsingar, taka virkan þátt í félaginu, að hafa áhrif, að læra af öðrum, tjá rödd mína, að vera með puttann á púlsinum, að fá upplýsingar, að fá möguleika á að taka þátt, að missa ekki af, að koma með hugmyndir/tilboð, að þjálfa hlustun og tjáningu, að fá upplýsingar og að efla félagsvitund.
Hugaraflsfundir eru eitt af hryggjarstykkjunum í starfsemi Hugarafls. Þeir gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, auka einbeitingu og gegna veigamiklu hlutverki þar sem allt félagsfólk hefur atkvæðisrétt við ákvarðanatökur. Hugaraflsfólk er eindregið hvatt til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja viðburði.  

 

Félagsfundur Hearing Voices (10. sept, 8. okt, 5. nóv, 3. des) 

Opnir félagsfundir Hearing Voices Iceland. Öllum er velkomið að koma, kynnast starfsemi samtakanna og taka þátt í umræðu um málefni fólks sem heyrir raddir og/eða eru með aðrar óhefðbundnar skynjanir. Það er einnig hægt að skrá sig í félagið á fundinum.  

 

Hinsegin hugar 

Umræða fyrir öll sem finna sig undir hinsegin regnboganum til að ræða um líðan og geðheilsu, áföll, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Tekin eru fyrir umræðuefni í hverjum tíma sem valin eru af hópnum. Hópstjórar eru Emil og Ninna.  

 

Fimmtudagur 

Verkfærakistan  

Thelma heldur utan um opinn hóp fyrir öll sem hafa áhuga á verkfæri vikunnar.
Í hverjum tíma verður kynnt eitt verkfæri sem gæti nýst í þeirri sjálfsvinnu sem hvert og eitt okkar er að vinna, alls konar sjálfsstyrkingu eða bara til að gera “andlegar armbeygjur” til að auka lífsgæði okkar.
Stundum prófum við verkfærið í tímanum og stundum verða tillögur að heimavinnu. En ekki alltaf og það er aldrei þrýstingur eða skylda að taka þátt í neinu. Það er alltaf í boði að koma bara og fylgjast með. Hlakka til að sjá ykkur. 

 

Valdefling (teams) 

Hópur þar sem valdefling er rædd út frá valdeflingarpunktunum 15 og þátttakendur deila eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Hugmyndafræði valdeflingarinnar kemur frá Judi Chamberlin og hér má lesa punktana: https://hugarafl.is/vinnuskilgreining-a-valdeflingu/
Hópstjóri lotunnar er Rakel Björk með aðstoð frá Ninnu og Tinnu. 

 

Bæn og íhugun 

Alla fimmtudaga frá 12:15 – 13:15 býður Bjarni Karlsson prestur upp á samveru í húsnæði Hugarafls í Síðumúla 6.
Öll sem langar að eflast í trú, von og kærleika hvött til að vera með. 

 

Drekasmiðja (teams) 

Thelma Ásdísardóttir heldur vikulegar vinnustofur þar sem þátttakendum gefst færi á að ræða áhrif áfallasögu á sjálfsmynd, samskipti og tengslamyndun. Efnið er sett fram á uppbyggilegan, hvetjandi hátt sem ýtir undir að hvert og eitt finni sína leið að betri líðan. 

 

Aðstandendafundur (hefst 4. sept) 

Aðstandendahópurinn hefur verið starfræktur frá upphafi Hugarafls. Hér er reynsla aðstandenda sett í farveg, reynslunni er miðlað til nýrra meðlima sem eru í fyrsta sinn að kynnast andlegum áskorunum í fjölskyldunni og vantar stuðning til að efla bjargráð og að koma auga á leiðir. Þagnarskylda er höfð í heiðri á fundunum. Einnig er lögð áhersla á að málflutningur fundarmanna sé þannig að umræða fari vel fram og að ekki sé talað neikvætt um persónur eða þær nafngreindar. Auður Axelsdóttir og Thelma Ásdísardóttir leiða þennan hóp og fá einnig aðstoð frá aðstandendum við utanumhald. 

 

Föstudagur  

Hugleiðsla 

Tími til að slaka á líkama og taugakerfi þar sem hugleiðsla er leidd. Einstaklingurinn liggur á dýnu með teppi, mælt er með þægilegum fatnaði. Mikilvægt er að mæta tímanlega í hugleiðsluna, hurðinni er lokað kl. 11:30. Rakel leiðir hugleiðsluna. 

 

Kvennafundur 

Umræða fyrir konur og kvár til að ræða um líðan og geðheilsu, áföll, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Uppsetning fundanna er yfirleitt þannig að ein/eitt okkar leiðir fundinn, svo er farið hringinn og málin rædd og spegluð. Eftir það er farið niður í miðju í léttara spjall áður en við höldum út í helgina. Einu sinni í hverri lotu reynum við svo að gera eitthvað skemmtilegt og óhefðbundið, eins og að fara saman á kaffihús eða eitthvað. Hópstjórar eru Ninna, Rakel og Thelma með aðstoð frá Tinnu.  

 

Karlafundur 

Umræða fyrir alla karla til að tala um líðan og geðheilsu, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Grétar og Alexander halda utan um hópinn.