Góðan dag. Hér kemur dagskrá fyrir lotu 5, sem gildir 13. október – 21. nóvember 2025.
Gott er að lesa þennan póst til enda, í honum eru mikilvægar upplýsingar og nánari lýsingar á öllum hópum.
Eins og glögg taka eftir hafa nöfn á rýmum breyst. Það hefur lengi verið draumur að nefna rýmin eftir stofnendum Hugarafls, þeim Auði, Garðari, Hallgrími, Jóni og Ragnhildi, og nú er sá draumur loks orðinn að veruleika. Nánari upplýsingar um hvaða rými bera hvaða nöfn má finna í lokuðum fb-hópi fyrir Hugaraflsfólk og í húsinu.
Við viljum minna á hópareglur; að mæta tímanlega í hópa, hafa athyglina á réttum stað (vera t.d. ekki í símanum í hópum) og vera ekki að ráfa út og inn að óþörfu á meðan hópurinn er í gangi.
Teams er í boði fyrir þau sem búa úti á landi, búa við skerta hreyfigetu eða hafa aðra tilgreinda ástæðu. Til þess að fá senda teams linka skal senda tölvupóst á ninna@hugarafl.is með skýringu. Ef þið viljið fá senda staka teams linka skal passa að senda póst fyrir kl. 9 þann dag sem fundurinn er. Athugið að ef þið þurfið link fyrir Skipulag endurhæfingar þarf að taka fram í hvaða hópi þið eruð.
Mánudagur
Skipulag endurhæfingar (teams) – ATH nýjar tímasetningar
Þrír hópar ganga undir nafninu Skipulag endurhæfingar og eru lokaðir hópar.
Í hópatímum A og B eru rædd markmið og tilgangur endurhæfingar með iðjuþjálfa.
Í hópi A er lögð áhersla á tilgang endurhæfingar og markmið daglegs lífs. Markmið eru sett fyrir hverja viku sem taka mið af daglega lífinu samhliða fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun. Einnig fer fram þematengd umræða sem tengist endurhæfingu s.s. um rútínu, skipulag í dagsins önn, að setja sjálfum sér og öðrum mörk, hugað að heilsunni og afleiðingum áfalla á taugakerfið og svo mætti lengi telja. Allt eru þetta atriði sem tengjast endurhæfingu og bataferlinu. Hvatt er til virkar þátttöku hvers og eins í hópnum.
Í hópi B er haldið áfram að vinna með markmið og áfrorm í endurhæfingunni. Markmið eru sett fyrir hverja viku sem taka mið af daglega lífinu samhliða fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun. Einnig fer fram þematengd umræða sem tengist endurhæfingu s.s. um rútínu, skipulag í dagsins önn, að setja sjálfum sér og öðrum mörk, hugað að heilsunni og afleiðingum áfalla á taugakerfið og svo mætti lengi telja. Allt eru þetta atriði sem tengjast endurhæfingu og bataferlinu. Hvatt er til virkar þátttöku hvers og eins í hópnum.
Það sem bætist við er áhersla á að viðhalda árangri, taka á þeim atriðum sem mögulega þarf að breyta í daglega lífinu og horfa fram á við hvað varðar framtíðaráform. Unnið er með bakslög sem þekkingarbrunn og stuðst við þá þekkingu sem skapast.
Í hópi C fer fram starfsmiðuð endurhæfing. Þau sem taka þátt í þeim hópi eru flest á seinni hluta endurhæfingar og á leið á vinnumarkað eða til skólagöngu. Unnið er með undirbúning fyrir endurkomu á vinnumarkað og hópastarfið felur í sér að farið er í gegnum vonir og væntingar og unnið með þær áhyggjur sem upp koma þegar þetta skref er stigið. Gerð eru hagnýt plön sem miðast að því að komast á vinnumarkað, farið er yfir möguleika á vinnumarkaði, unnið að ferilskrá, undirbúningur umsókna og starfssamtals og margt fleira mætti telja. Stuðlað er að tengingu við samfélagið og samstarf við þá aðila sem skipta máli þegar stigið er út í samfélagið á ný. Má þar nefna Vinnumálastofnun, Mímir, vinnustaðir og aðrir.
Kær kveðja, Auður, Birgitta og Grétar.
Hinsegin hugar
Umræða fyrir öll sem finna sig undir hinsegin regnboganum til að ræða um líðan og geðheilsu, áföll, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Tekin eru fyrir umræðuefni í hverjum tíma sem valin eru af hópnum. Hópstjórar eru Emil og Ninna.
Þriðjudagur
Meðvirkni og innri sannfæringar
Hvað er meðvirkni? Spjöllum um það. Hvernig hefur hún áhrif á daglegt líf okkar og hvernig getum við verið meðvitaðri um meðvirknina okkar.
Í hópnum fer fram sjálfsvinna og sjálfsskoðun um kjarnaviðhorf og hvernig við lítum á sjálf okkur, til dæmis; hverju trúi ég um sjálfa/n mig og hvers vegna?, hvort það sem virkaði og hentaði áður sé að flækjast fyrir mér núna, hvort það sem ég lærði sem barn sé að henta mér núna, og af hverju við erum að gera það sama núna sem aftrar okkur í bataferlinu. Farið ofan í hlutina um hvers vegna við gerum og hugsum í dag neikvætt um okkur sjálf og hvernig við getum breytt því til betri vegar og líðanar í dag. Guffa heldur utan um hópinn.
Jóga og hugleiðsla
Við munum taka léttar yogaæfingar, léttar teygjur og öndunaræfingar svo endum við á léttri hugleiðslu. Vinsamlega mætum í léttum teygjanlegum fatnaði. Ef ekki mætt í þægilegum fötum er ekki hægt að vera með í tímanum. Hægt er að taka þátt í jóganu og fara svo upp í Bata eftir það eða vera áfram og taka þátt í hugleiðslu eftir jógað. Rakel leiðir jóga og hugleiðslu.
Lyfjamálin (skráning) (teams)
Markmið hópsins eru umræður og fræðsla um markmið og leiðir í lyfjamálum. Að verða margs vísari um geðlyf, aukaverkanir þeirra og fráhvörf, að verða meðvitaðri um leiðir geðheilbrigðiskerfisins til sjúkdómsvæðingar og lyfjanotkun, að fræðast um hvaða hlutverki lyfin gegna eða gegna ekki í bataferli, að fræðast um leiðir til niðurtröppunar og að öðlast þekkingu á “landslagi” lyfjamála í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í hópnum eru ræddar margs konar leiðir; miðlað er þekkingu um lyf og áhrif þeirra á líkama og sál, efld er þekking á öðrum leiðum og þær bornar saman, aukin er þekking hópsins á lyfjaniðurtröppun og mismunandi úrræðum/leiðum sem er að finna víða erlendis, miðlað er persónulegri reynslu af lyfjum og áhrifum þeirra á hvern og einn og kynnt er hvort fyrir öðru hvaða hlutverk þau hafa haft í bataferlinu. Óskað er eftir virkri þátttöku og æskilegt að hvert og eitt miðli sinni reynslu um málefnið. Auður sér um hópinn.
Bati (teams)
Hvað er Bati? Hvað þarf til þess að ná Bata?
Grétar og Sigrún Huld leiða Bata í þessari lotu og kynna Batamódelið fyrir þátttakendum. Í hverjum tíma er tekinn fyrir einn þáttur batamódelsins og kafað dýpra ofan í hann og tímanum lýkur með umræðum í smærri hópum og stóra hópnum. Bati er fyrirlestrarröð. Hver tími er opinn öllum sem hafa áhuga, en til þess að lærdómurinn skili sér sem best mælum við með því að sitja hvern tíma í heila lotu til að ná heildrænum skilningi á hvað Batamódelið er og hvernig hægt er að nýta sér það í sínum persónulega bata.
Batahugmyndafræðin er einn af máttarstólpunum í allri starfsemi Hugarafls. Fundirnir byggja á gagnrýnni umræðu um viðteknar venjur í geðheilbrigðiskerfinu og þá batahugmyndafræði sem hefur reynst fólki vel á sinni batavegferð.
Listasmiðja
Sigrún Huld leiðir listasmiðju í þessari lotu. Degi fyrir hverja smiðju mun hún kynna þemað sem verður þá vikuna í Facebook hópi Hugarafls. Í lotunni verður blanda af frjálslegri tímum með þema sem allir skapa eftir, listþerapíu æfingum og tilraunastarfsemi. Fundunum er ætlað að styðja við batavegferðina okkar, með því eiga samtal við undirmeðvitundina og ímyndunaraflið í öruggu rými jafningja. Ekki er kennd tækni eða efnistök. Ekki er þörf á neinni reynslu eða hæfileikum, einungis vilja til að leyfa sköpuninni að flæða.
Í hverjum tíma eru 9 laus pláss. Það er ekki hægt að koma of seint því hver tími mun hafa skýran boga, með upphafi, miðju og niðurstöðu. Hurðinni verður skellt í lás 5 mínútur yfir og ekki hægt að koma inn eftir það.
Unghugar
Unghugar er opinn hópur ungmenna á aldrinum 18 til 30 ára sem vilja taka þátt í styrkjandi og uppbyggilegri samveru með jafnöldrum.
Á þriðjudögum hittumst við uppi í Garðarshólma (risi) og einblínum á batamiðaða samveru þar sem við leggjum mikla áherslu á tengslamyndun, bata og félagslega virkni í öruggu og stuðningsríku rými.
Alexander og Blær sjá um hópinn.
Miðvikudagur
Kaffispjall og handavinna
Áhersla er lögð á samveru og að efla félagsleg tengsl. Engin þörf er á að vera með eitthvað í höndunum eða drekka kaffi, bara koma og vera. Þetta er til dæmis tilvalið fyrir þau sem eru að æfa sig í að koma í hús og rjúfa einangrun. Gulla tekur vel á móti ykkur ásamt Ninnu og Rakel.
Batahópurinn – skaðaminnkun
Stuðningshópurinn er ætlaður fólki sem hefur reynslu af fíkn eða er í bataferli. Markmiðið er að skapa öruggt og fordómalaust rými þar sem þátttakendur geta deilt reynslu, hlustað, fengið stuðning og fræðslu sem styður bata.
Hópurinn byggir á skaðaminnkunarsjónarhorni, þar sem áhersla er lögð á virðingu, sjálfsákvörðun og raunhæfan stuðning út frá stöðu hvers og eins. Enginn dómur – aðeins skilningur, samhygð og samkennd. Hópstjórar eru Finnbjörn og Maciek.
Hugaraflsfundur (teams)
Á Hugaraflsfundi fyrir stuttu var félagsfólk spurt að því af hverju það mætir á Hugaraflsfundi og svörin létu ekki á sér standa; til að vera í samfélagi, að fá upplýsingar, taka virkan þátt í félaginu, að hafa áhrif, að læra af öðrum, tjá rödd mína, að vera með puttann á púlsinum, að fá upplýsingar, að fá möguleika á að taka þátt, að missa ekki af, að koma með hugmyndir/tilboð, að þjálfa hlustun og tjáningu, að fá upplýsingar og að efla félagsvitund.
Hugaraflsfundir eru eitt af hryggjarstykkjunum í starfsemi Hugarafls. Þeir gefa fundargestum tækifæri til að tjá skoðanir sínar, setja mörk, auka einbeitingu og gegna veigamiklu hlutverki þar sem allt félagsfólk hefur atkvæðisrétt við ákvarðanatökur. Hugaraflsfólk er eindregið hvatt til að mæta á Hugaraflsfundi til að taka sameiginlegar ákvarðanir um starfsemina í heild sinni, ræða málefni líðandi stundar og skipuleggja viðburði.
Tónlistarsamspil
Tónlistarhópur þar sem við fögnum hugrekki fram yfir færni.
Tónlist er heilandi og frelsandi og það geta öll tekið þátt. Við förum í allskonar leiki og sönghringi og það er nóg af hljóðfærum. Og ef þú getur ekki klappað reyndu þá að stappa…
Hópurinn verður ýmist í Jónsdal eða Auðarskjóli. Steinþór og Davíð sjá um hópinn.
Fimmtudagur
Valdefling (teams)
Hópur þar sem valdefling er rædd út frá valdeflingarpunktunum 15 og þátttakendur deila eigin reynslu út frá umræðuefni dagsins. Hugmyndafræði valdeflingarinnar kemur frá Judi Chamberlin og hér má lesa punktana: https://hugarafl.is/vinnuskilgreining-a-valdeflingu/
Hópstjóri lotunnar er Finnbjörn með aðstoð frá Rakel Björk.
Danshugar
Komum og dönsum saman, já eða bara hristum okkur, losum um stress sem líkaminn hefur safnað upp og leyfum líkamanum að gera það sem hann vill gera í takt við tónlistina.
Adda heldur utan um hópinn.
Bæn og íhugun
Alla fimmtudaga frá 12:15 – 13:15 býður Bjarni Karlsson prestur upp á samveru í húsnæði Hugarafls í Síðumúla 6. Öll sem langar að eflast í trú, von og kærleika eru hvött til að vera með.
Förðun og spjall
Frjálslegur hópur þar sem við munum leika okkur að því að skapa þær farðanir sem við viljum sama hversu mikla fyrri reynslu við höfum, fókusinn er meira á að hafa gaman og auðvitað hittast, spjalla og eiga kósý stund saman. Megið endilega koma með ykkar eigið makeup og bursta en ég verð líka með eitthvað sem þið getið notað. Hópstjóri er Guðný Rós.
Tilfinningaseigla (skráning)
Sigrún Huld leiðir lokaðan hóp í þessari lotu þar sem þátttakendur öðlast þjálfun í að kynnast sínum eigin tilfinningum, leyfa þeim að flæða, ganga í gegnum þær og losa um tilfinningar sem sitja fastar í líkamanum. Tímarnir innihalda fræðslu, kynningu á verkfæri og verkefnavinnu þar sem verkfærið er prófað í rauntíma. Fjölbreyttir tímar þar sem alls konar leiðir eru kynntar til þess að vinna með tilfinningar. Tilfinningar eru ekki rökrænar og þar af leiðandi verður unnið mikið með ýmiss konar listsköpun og líkamlega tjáningu. Þátttakendur fara út úr þægindarrammanum í öruggum og lokuðum hópi og saman þjálfum við upp aukna tilfinningaseiglu.
Sigrún Huld sækir efni tímanna í eigin reynslu af sinni batavegferð og úr tveimur Erasmus+ verkefnum sem hún tók þátt í á vegum Hugarafls, þar sem unnið var með tilfinningar á fjölbreyttan hátt; Highway to Mental Health 2022 í Rúmeníu og nú nýverið E+Motions í Portúgal.
Í lok lotunnar hafa þátttakendur öðlast verkfæri sem þeir geta notað til þess að styðja við, liðka og styrkja sitt tilfinningalíf.
Hópurinn er lokaður. Áhugasömum er bent á að senda póst á hugarafl@hugarafl.is til að skrá sig í hópinn. Takmörkuð pláss í boði.
Félagsfundur Unghuga
Unghugar er opinn hópur ungmenna á aldrinum 18 til 30 ára sem vilja taka þátt í styrkjandi og uppbyggilegri samveru með jafnöldrum.
Annan hvern fimmtudag er félagsfundur Unghuga, þá hittumst við í Ragnhildarkoti (listasmiðju). Á félagsfundum Unghuga komum við saman til að skipuleggja og móta dagskrá og framtíð hópsins. Allir Unghugar eru hvattir til þess að mæta á fundi og taka þátt í sameiginlegum ákvörðunum um málefni, stefnu og virkni hópsins.
Alexander og Blær sjá um hópinn.
Aðstandendafundur
Aðstandendahópurinn hefur verið starfræktur frá upphafi Hugarafls. Hér er reynsla aðstandenda sett í farveg, reynslunni er miðlað til nýrra meðlima sem eru í fyrsta sinn að kynnast andlegum áskorunum í fjölskyldunni og vantar stuðning til að efla bjargráð og að koma auga á leiðir. Þagnarskylda er höfð í heiðri á fundunum. Einnig er lögð áhersla á að málflutningur fundarmanna sé þannig að umræða fari vel fram og að ekki sé talað neikvætt um persónur eða þær nafngreindar. Auður Axelsdóttir leiðir þennan hóp og fær einnig aðstoð frá aðstandendum við utanumhald.
Föstudagur
Göngutúr
Maciek leiðir léttan göngutúr um nærumhverfi Hugarafls.
Kvennafundur
Umræða fyrir konur og kvár til að ræða um líðan og geðheilsu, áföll, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Uppsetning fundanna er yfirleitt þannig að ein/eitt okkar leiðir fundinn, svo er farið hringinn og málin rædd og spegluð. Eftir það er farið niður í miðju í léttara spjall áður en við höldum út í helgina. Einu sinni í hverri lotu reynum við svo að gera eitthvað skemmtilegt og óhefðbundið, eins og að fara saman á kaffihús eða eitthvað. Hópstjórar eru Ninna og Rakel.
Karlafundur
Umræða fyrir alla karla til að tala um líðan og geðheilsu, tengjast öðrum og bæta eigin hag. Hópstjórar eru Alexander og Grétar.