Skip to main content

Skrautlegi læknirinn Patch Adams átti að koma til landsins í dag en er veðurtepptur í Chicago, þaðan sem hann átti að fljúga til New York áður en hann kæmi hingað. Hann er þó væntanlegur í fyrramálið og verður eitt af hans fyrstu verkum að heimsækja börn á Barnaspítala hringsins.

„Þetta setur auðvitað alla dagskrána úr skorðum hjá okkur. Hann átti meðal annars að borða morgunmat með borgarstjóra á morgun, en það getur ekki orðið. En við látum þetta ekki slá okkur út af laginu,“ segir Auður Axelsdóttir hjá Hugarafli, sem hefur veg og vanda af komu heimilislæknisins til landsins.

Hugarafl er félagsskapur fólks með geðraskanir og segir Auður að nálgun Patch Adams eigi vel við hugmyndafræði félagsins. „Hugmyndir hans um persónulega nálgun, kærleika og hómor falla okkur vel og við höfum notað þær í okkar starfi.“

Margir muna eftir bíómyndinni um Patch Adams með Robin Williams í aðalhlutverki, sem meðal annars var tilnefnd til Óskarsverðlauna, en hún byggir á ævi læknisins. Þetta er í annað sinn sem Patch Adams kemur til Íslands. Hann kom hingað árið 2013 og hélt meðal annars vinnusmiðju og og samkomu í Þjóðleikhúsinu. „Þá kom í ljós að hann á marga aðdáendur hér á landi og það voru margir sem misstu af honum í það skipti.“

Nú verður bætt úr því og stendur til að hann haldi fyrirlestur í Háskólabíó 14. júní næstkomandi. Auður vonar að sem flestir komi og hlusti á hann. „Þetta er einstakur og kraftmikill maður sem hefur miklu að miðla. Hann ferðast um heiminn, fer á staði sem flest okkar hinna viljum ekki fara á og linar þjáningar. Þetta er einn mesti mannvinur sem við eigum.“