Skip to main content
FréttirGreinar

Virðing í verki

By október 8, 2015No Comments

Alþjóðageðheilbriðgisdagurinn 2015 verður haldinn hátíðlegur um allan heim þann 10. október. Margt hefur áunnist á þeim 20 árum sem liðin eru frá því dagurinn var fyrst haldinn hér á Íslandi. En geðheilbrigðisumræðan á samt  langt í land með að standa jafnfætis annarri samfélagslegsumræðu. Í þessari grein verða nefnd nokkur dæmi þar um og hvernig þetta elur á fordómum og vanvirðingu í garð þeirra sem ekki hafa möguleika á að standa á rétti sínum.

Alþjóðasamtök um geðheilsu gefa á ári hverju út kynningarefni í tengslum við yfirskrift Geðheibrigðisdagsins. Að þessu sinni er yfirskriftin „Dignity in Mental Health”. Bein þýðing á íslensku gæti verið „Mannleg reisn í geðheilbrigði”.  Á undirbúningsfundi fyrir 10. október var ákveðið að hafa íslenska yfirskrift dagsins „Virðing í verki”. Með íslensku yfirskriftinni vildum við, sem komum að undirbúningnum, hvetja til  aukinnar virðingar í tengslum við geðheilbrigðismál. Ein leið til að auðsýna virðingu í verki er þátttaka í deginum, með því að mæta á dagskrána eða með því að heimsækja heimasíðu dagsinns 10okt.com.  Þar má m.a. nálgast fræðsluefni sem Alþjóða heibrigðismálastofnunin (WHO) gefur út um þátt virðingar varðandi geðheilbrigði og geðheilbrigðisþjónustu. Tölulegar upplýsingar og tillögur sem koma fram í þessari grein byggja á þessu efni og hvetjum við alla til að kynna sér það.

Frá 10. október göngu. Mynd: Helgi Halldórsson
Frá 10. október göngu. Mynd: Helgi Halldórsson

Mannleg reisn í geðheilbrigði hefur ekki fast mótað inntak. En þótt menn kunni að nálgast ólíka einstaklinga aðstæðubundið og á misjafnan hátt virðist hlutverk virðingar í mannlegum samskiptum óumdeilanlegt. Það er lykilatriði að allir njóti virðingar og séu metnir að verðleikum í samfélagi manna. Því er nauðsynlegt að einstaklingar, sem eiga við geðræn veikindi að stríða, upplifi stuðning, skilning en ekki sýst  virðingu til að geta mætt veikindunum. Virðing er þannig ein af forsendum þess að bati náist.

Bati leiðir til virkrar þátttöku. Hann snýst um heildstæða nálgun sem tekur mið af einstaklingsbundnum og félagslegum þáttum. Hann kemur inná hið líkamlega, andlega og hið tilfinningalega. Fræðsla er ein öflugasta leiðin til að stuðla að bata og mæta fordómum. Hún þarf að ná til samfélagsinns í heild, einstaklinga sem og almennings og byggja á virðingu, skilning og stuðningi.

Til að greiða fyrir bata þarf að gera endurbætur á velferðarkerfinu, þannig að ríki og sveitarfélög séu meira samstíga þegar kemur að grundvallarvelferð. Við núverandi stöðu vinna t.d. sumir útfrá batamiðaðri nálgun á meðan aðrir virðast jafnvel ekki þekkja hugtakið. Það skýtur einnig skökku við að heyra dægurþras stjórnmálamanna um prósentur, krónur og aura nánast í sömu andrá og frásagnir um að grundvallarréttindi fólks séu virt að vettugi.  Ómálefnaleg umræða um offjölgun öryrkja og rassaspörk eru dæmi sem koma upp í hugann í þessu samhengi.  Slík ómálefnaleg umræða um grundvallarahagsmuni og grundvallarréttindi eru skírt dæmi um virðingaleysi.  Sérstaklega þegar þeir sem verða fyrir henni eiga erfitt með að svara fyrir sig. Virðingarlaus umræða stuðlar að að fordómum og almennu skilningsleysi í samfélaginu. Hún stendur einnig í vegi þess að fólk tali opinskátt um eigin vandamál eða leiti sér aðstoðar.

Dignity
Samantekt Alþjóðasamtaka um geðheilsu 2015.

Samkvæmt tölum frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni eiga um 27% Evrópubúa við geðræn vandamál að stríða á hverjum tíma. Mikill meirihluti þessa hóps, eða 74%, fá ekki fullnægjandi aðstoð til að takast á við vandann. Ef við yfirfærum þessa tölfræði yfir í íslenskt samhengi, jafngildir hún því að 65 þúsund íslendingar væru ekki að fá þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda vegna geðrænna vandamála.

Með hliðsjón af ofangreindri umræðu er bagalegt að upplifa það hvernig stjórnvöld virðast draga lappirnar þegar kemur að grundvallarmannréttindum fólks sem á við geðræn veikindi að stríða. Nokkuð sem opinberast meðal annars í seinagangi  varðandi það að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Markmið samningsins er „að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.“  Grundvallaratriði og meginreglur samningsins kveða á um virðingu fyrir mannlegri reisn, sjálfræði og sjálfstæði allra einstaklinga. Jafnramt er kveðið skýrt á um bann við allri mismunum og að allir eigi rétt á fullri samfélagsþátttöku í einu samfélagi fyrir alla. Lögð er áhersla á virðingu fyrir fjölbreytileika og mannlegum margbreytileika, að allir hafi jöfn tækifæri, aðgengi og jafnrétti sé á milli karla og kvenna.

Öryrkjabandalag Íslands stendur nú fyrir undirskriftasöfnun til að hvetja íslensk stjórnvöld til að fullgilda samninginn. Líkamlegar fatlanir eru þar ofarlega á baugi í þessu samhengi sem kann að hafa villandi áhrif varðandi hversu gríðarlega útbreiddar geðraskanir eru í okkar samfélagi. Geðfötlun er t.d.  bæði sá fötlunarflokkur sem er stærstur og í mestum vexti.  Hér er þörf á að opna umræðuna þótt að það sé að vissu leiti skiljanlegt að fólk leggi ekki í slíkt vegna fordóma og þeirrar umræðuhefðar sem því miður hefur fengið að viðgangast í okkar samfélagi. Það er hins vegar þeim mun mikilvægara að sína samstöðu með því að allir njóti grundvallar réttinda óháð fötlun.  Þar sem þetta snertir mannréttindi er það hagsmunamál allra, jafnt fatlaðra sem ófatlaðra.

Aðþjóða heilbriðgismálastofnunin leggur sérstaka áherslu á samstöðu og sýnileika í baráttu fyrir bættri geðheilsu í heiminum. Fólk með geðræn veikindi er hvatt til að koma fram og segja frá sinni reynslu, fræða aðra um sín veikindi og um sinn bata og vinna gegn fordómum og mismunun. Samstaða, sýnileiki, réttindi og bati eru þannig lykillinn að bættu geðheilbrigði, ekki bara hér á Íslandi heldur í heiminum öllum.

En hver og einn verður að finna eigin leið til að sýna virðingu í verki þegar kemur að þessu sameiginlega hagsmunamáli okkar allra. Framlag mitt mun meðal annars felast í því að mæta á dagskrá Alþjóðageðheilbrigðisdagsins 10. október sem hefst við útvarpshúsið í Efstaleiti 1 klukkan 12:15.  Eftir stutta dagskrá við útvarpshúsið verður samstöðu- og heilsuganga niður í Kringlu þar sem formleg dagskrá fer fram á Blómatorginu frá klukkan 13:00.  Með því að taka virkan þátt í deginum sýni ég samstöðu, verð sýnilegur og berst um leið fyrir auknum réttindum allra þeirra sem fá ekki tækifæri til að vera virkir þátttakendur í okkar samfélagi sökum veikinda eða fötlunar. Og um leið felst í því heilmikill bati og valdefling fyrir mig að berjast gegn eigin fordómum og samfélagsins í garð fólks sem á við geðræn veikindi að stríða.  Þeim bata er ég líka vonandi að deila hér í þessari grein.

Mín spurning til þín lesandi góður er hins vegar: Hvernig ætlar þú að sýna virðingu í verki?
Kristinn Heiðar Fjölnisson
Félagi í Hugarafli og Klúbbnum Geysi
Póstað: 08/10/2015