Skip to main content
Greinar

Vilji til að Geðheilsa-eftirfylgd starfi áfram

By mars 6, 2018No Comments

Á krossgötum. GET hefur séð um geðþjónustu við einstaklinga og aðstandendur þeirra fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í mörg ár.

Lítill rökstuðningur er fyrir því hjá velferðarráðuneytinu að leggja Geðheilsu-eftirfylgni (GET) niður og koma þar með starfsemi Hugarafls í uppnám, að sögn Auðar Axelsdóttur, forstöðumanns GET. GET sér um geðþjónustu við einstaklinga og aðstandendur þeirra fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en vegna breytinga á þjónustunni næsta haust á að stofna þrjú geðheilsuteymi á höfuðborgarsvæðinu sem verða póstnúmeraskipt. Auður segir að með því verði starfsemi GET lögð niður. GET starfar náið með Hugarafli, samtökum fólks sem glímt hefur við geðraskanir. Auður auk starfsfólks frá Hugarafli mætti á fund velferðarnefndar Alþingis í síðustu viku til þess að ræða málefni GET og Hugarafls. Þar var lesin upp yfirlýsingin frá notendum þjónustunnar þar sem þeir lýstu yfir áhyggjum af því sem framundan er.

Stefnt á lokun í september „Í umræðum kom fram að það er lítið um rökstuðning frá heilbrigðisráðuneyti fyrir því að leggja eigi GET niður, henda dýrmætri reynslu af valdeflingu og batanálgun og að auki koma starfi Hugarafls í uppnám. Það virtist sem embættismenn ráðuneytisins hefðu jafnvel rangar upplýsingar um að ákvörðunin hefði verið tekin í fullu samráði við fagfólk GET og að starfsfólk teymisins hefði aðgang að störfum í nýjum teymum. Það er hins vegar ekki þannig og stefnt er á lokun GET í september. Af hálfu embættismanna mátti heyra að ákvörðun hefur verið tekin og verði útfærð. Ekki var hægt að svara því hvers vegna hagkvæm og virðisaukandi starfsemi eins og GET yrði lögð niður til að rýma fyrir öðrum teymum innan heilsugæslunnar,“ segir Auður um það sem rætt var á fundinum.

Það var samdóma álit flestra nefndarmanna að það væri til bóta að ný teymi yrðu stofnuð innan heilsugæslunnar en flestir töldu það ekki þýða að það þyrfti að leggja niður starfsemi GET. Hjá GET er allt önnur nálgun en verður í nýjum teymum heilsugæslunnar og einnig var bent á að þar færi fram öflugt aðstandendastarf sem væri af skornum skammti annars staðar í kerfinu,“ segir Auður og bætir við að það hafi verið mál flestra nefndarmanna að það hlyti að vera hægt að finna GET stað utan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis og að GET gæti þá starfað áfram við hlið Hugarafls. Hún kveðst vera bjartsýnni á framtíð GET og Hugarafls eftir fundinn með velferðarnefnd.


UTANAÐKOMANDI ÁLITSGJAFI

 Guðný Björk Eydal

Guðný Björk Eydal, prófessor við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands

Guðný Eydal, prófessor við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands og meðlimur í Félagsráðgjafafélagi Íslands, mætti sem utanaðkomandi álitsgjafi á fund velferðarnefndar, GET og Hugarafls. Hún segir nemendur í félagsráðgjöf hafa fjallað um árangur af úrræðinu í MA-ritgerðum og þá hafi félagsráðgjafar mjög góða reynslu af því. „Við höfum verið að reyna að skilja rökin fyrir að leggja úrræðið niður því allt sem við höfum fundið um árangur af því er mjög jákvætt,“ segir Guðný. „Úrræðið sýnist okkur ekki vera kostnaðarsamt, það þarf ekki tilvísun í það og það er opið aðstandendum, sem er mikilvægt fólki sem er að takast á við geðræn veikindi. Það er verið að vinna með valdeflandi nálgun og hefur safnast saman gífurleg reynsla fagfólksins af því hvernig hægt er að ná góðum árangri með því vinnulagi. Þá er samstarfið við félagasamtökin Hugarafl einstakt og skapar í raun þann virðisauka sem býr í þessu úrræði.“ Guðný segir nýju teymin sem fyrirhugað er að stofna innan heilsugæslunnar ekki geta komið í staðinn fyrir starf GET og Hugarafls en hún sér ekkert því til fyrirstöðu að allt geti þetta starfað hlið við hlið og stutt hvað annað.

Grein birtist upphaflega í Morgunblaðinu miðvikudaginn 28. febrúar 2018