Skip to main content
Fréttir

Úrræðaleysi vegna sjálfsvíga: „Upplifði mig alveg eina“

By september 10, 2014No Comments

Úrræðaleysi vegna sjálfsvíga: „Upplifði mig alveg eina“
Innlent
kl 07:00, 10. september 2014

Málfríður segist fyrst hafa fengið von um að leið væri út úr veikindunum þegar hún hóf starf með Hugarafli. VÍSIR/STEFÁN

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar:

Málfríður Hrund Einarsdóttir var með mikla sjálfsskaðahegðun, sem lýsti sér í því að hún skar sig ítrekað. Tvisvar var hún lögð inn á spítala vegna sjálfsvígs­tilrauna og sett í yfirsetu á geðdeild vegna sjálfsvígshættu.

„Ég var svo einmana í yfirsetunni og upplifði mig niðurlægða. Mér fannst ég enga aðstoð fá.“

Málfríður segir að boðið hafi verið upp á viðtöl einu sinni á dag við lækni en þá hafi fyrst og fremst verið farið yfir lyfjagjöf, hvort hún svæfi rétt og borðaði. Annars hafi enginn talað við hana.

„Enginn fylgdist raunverulega með mér og svo var ég send heim. Ég kveið hrikalega fyrir að fara heim því ég vissi að ég yrði ein. Það var engin eftirfylgni.“

Það var undir Málfríði sjálfri komið að leita sér aðstoðar en þegar maður er þungt haldinn af geðrænum veikindum getur verið erfitt að taka frumkvæði að eigin bata. Málfríður heyrði svo af tilviljun af Hugarafli, sem er samstarf fagaðila og sjálfboðaliða með reynslu af geðsjúkdómum, og fékk loksins viðeigandi aðstoð.

Hún segir að slíkt teymi, eins og er starfandi þar, ætti að vera á sjálfsvígsvakt allan sólarhringinn og veita nauðsynlegan stuðning og eftirlit, öllum sjúklingum og fjölskyldum þeirra.

Í Hugarafli lærði Málfríður að mögulegt er að ná bata með því að vinna í rót vandans. Hún hætti því að bíða heima og taka eingöngu lyfin sín, eins og þau væru sýklalyf sem gætu læknað hana, og náði að breyta því hvernig hún nálgaðist veikindi sín.

„Í mörg ár lokaði ég mig bara af ein heima, var alltaf mjög tæp með látlausar sjálfsvígshugsanir og upplifði mikla skömm. Í Hugarafli tilheyri ég hópi fólks með svipaða reynslu og þar fann ég í fyrsta skipti von um að eiga öðruvísi líf.“

Vegna þöggunar í samfélaginu og lítillar umræðu er oft litið á geðsjúkdóma sem varanlegt ástand sem ekki er hægt að lifa góðu lífi með eða ná bata.

„Skömmin veldur því að fólk leitar sér síður hjálpar eða of seint enda telur það ástandið vonlaust. Þar spila manns eigin fordómar að sjálfsögðu stórt hlutverk,“ segir Málfríður sem hefur oft óskað sér að vera með einhvern annan „venjulegri“ sjúkdóm. Einhvern sem auðveldara er að leita sér hjálpar við og þar sem þjónustan er bæði aðgengilegri og sýnilegri.

Halldóra Ólafsdóttir, yfirlæknir á bráðaþjónustu og göngudeild geðsviðs Landspítalans. VÍSIR/STEFÁN

Þarf að bæta aðgengi að sálfræðiþjónustu

Um þrjú hundruð voru greindir á sjúkrahúsum í fyrra með sjálfsskaða, ríflega helmingur þeirra var sendur heim samdægurs.

Halldóra Ólafsdóttir, yfirlæknir á bráðaþjónustu og göngudeild geðsviðs Landspítalans, segir að gert sé geðmat á sjúklingum sem reynt hafa sjálfsvíg og þeim sem séu enn í sjálfsvígshættu sé boðið upp á innlögn á geðdeild. Ekkert sérstakt teymi eða ferli sé fyrir sjúklinga en þeim sé beint í viðeigandi meðferðir, eftir þörfum hvers og eins.

Halldóra segir að mögulega mætti efla verklagið á sjúkrahúsunum en mikilvægast sé þó að ráðast gegn rót vandans. Stærstu áhættuþættirnir varðandi sjálfsvíg séu þunglyndi og vímuefnavandi.
„Aðgengi að meðferðum við vímuefnavanda er gott á Íslandi en það á ekki við um aðgengi fólks að meðferð við þunglyndi og kvíða.“

Halldóra segir göngudeild geðsviðs eingöngu geta tekið á móti litlum hluta þeirra sem þurfa aðstoð og aðgengi að sálfræðiþjónustu sé takmarkað við efnahag fólks því þjónustan sé svo dýr.

„Í raun er mun betra aðgengi að lyfjum á Íslandi en sálfræðimeðferð, sem er þó oft mjög áhrifaríkt úrræði og sérstaklega fyrir ungt fólk sem er með byrjunareinkenni þunglyndis og kvíða.“

Þess má geta að sálfræðiþjónusta er ekki niðurgreidd af Tryggingastofnun ríkisins og kostar eitt viðtal frá tíu til fimmtán þúsund króna.