Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

Þetta bjargaði lífi mínu á þessum tímapunkti – Öll greinin

By nóvember 9, 2015No Comments

Sigurborg greindist með alvarlegt þunglyndi og kvíða – Þakkar Hugarafli fyrir að hafa komið sér á réttan kjöl.

d19cae7ce2899995ca303809e7f9faebSigurborg reindist með kvíða og alvarlegt þunglyndi árið 2007. Hún segir að Hugarafl hafi hjálpað sér mikið við að ná bata. Umsóknum Hugarafls um styrki frá hinu opinbera hefur ítrekað verið hafnað af félags- og húsnæðismálaráðherra.
Sigurborg Sveinsdóttir Greindist með kvíða og alvarlegt þunglyndi árið 2007. Hún segir að Hugarafl hafi hjálpað sér mikið við að ná bata. Umsóknum Hugarafls um styrki frá hinu opinbera hefur ítrekað verið hafnað af félags- og húsnæðismálaráðherra.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Þetta bjargaði lífi mínu á þessum tímapunkti,“ segir Sigurborg Sveinsdóttir sem er á meðal þeirra fjölmörgu sem eru þakklát fyrir það starf sem unnið er hjá Hugarafli.

Í helgarblaði DV er rætt við Auði Axelsdóttur, forstöðukonu Hugarafls, sem kveðst ósátt við hvernig félagasamtökum sem veita geðsjúkum endurhæfingu virðist mismunað í fjárveitingum frá ríkinu. Umsóknum Hugarafls um styrki hefur ítrekað verið hafnað af félags- og húsnæðismálaráðherra. Staða Hugarafls varð til þess að Erna Indriðadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, lagði í vikunni fram fyrirspurn á þingi til Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Þar er hún krafin svara við því hvernig stæði á þessari mismunun og hvers vegna umsóknum Hugarafls um styrki hafi verið hafnað

Í helgarblaði DV segist Sigurborg hafa greinst með alvarlegt þunglyndi og kvíða árið 2007 sem hafði raskað verulega lífi hennar og vinnu. Hún hafði leitað sér aðstoðar, bæði sálfræðinga og geðlækna, sem hún segir að hafi reynst sér ágætlega. Það var hins vegar í júní 2013 sem hún var komin á endastöð og var hætt að geta unnið sökum veikinda sinna. Eftir nokkurra mánaða einangrun og erfiða tíma leitaði hún til Hugarafls í janúar 2014.

„Þarna var í fyrsta lagi tekið ofboðslega vel á móti mér“

„Ég vissi alltaf af þeim og þekkti lítillega til starfseminnar en það er erfitt að fara af stað. Þarna var í fyrsta lagi tekið ofboðslega vel á móti mér. Ég fann mikla hlýju og samkennd á tímapunkti þar sem ég var mjög óörugg og leið ekki vel. Mjög fljótt fann ég fyrir öryggi þarna og upplifði sterkt að fólk hafði mikla trú á mér. Það var mjög góð tilfinning,“ segir Sigurborg. Einn mikilvægasti þátturinn að hennar sögn var jafningjastuðningurinn, eitt aðalsmerkja Hugarafls.

„Þarna gat ég rætt við fólk sem var komið í bata og lýsti leið sinni að þeim bata. Þetta gaf mér ofboðslega mikla von því ég kom mjög vonlítil þarna inn. En að heyra frá fólki með sömu reynslu, lýsa því að það náði bata og var komið í gott jafnvægi í lífinu veitti mér sterka og góða von.“

Sigurborg segir að hún hafi fljótt fengið ábyrgð á verkefnum sem hafi eflt hana mikið. Þar gafst henni tækifæri til að sinna verkefnum sem hæfðu menntun hennar. Í dag vinnur hún að stóru verkefni innan Hugarafls sem ber heitið Skjólhús. Sigurborg segir að þar sé verið að móta nýtt úrræði í geðheilbrigðisþjónustu, sem einnig væri sólahringsúrræði þar sem notendur yrðu nýttir sem starfskraftur auk fagfólks.

„Þetta gerist ótrúlega hratt þegar manni er treyst og trúað fyrir verkefnum og gefin þessa sterka von. Ég er í bata og ég væri sennilega komin af stað í vinnu ef það væru ekki aðrir, líkamlegir, kvillar að hrjá mig núna. En ég hef fulla trú á að ég fari aftur á vinnumarkaðinn, von sem ég hafði ekki fyrir. Ég blómstra þarna innanhúss og maður er að sjá kraftaverkin gerast allt í kringum sig.“
Sigurborg er ekki í neinum vafa um að vinnan með Hugarafli hafi bjargað lífi hennar.

„Maður fékk þau skilaboð frá kerfinu að maður væri bara með þennan sjúkdóm og yrði bara að taka tillit til þess. En þarna fannst mér ég endurheimta sjálfa mig og ég væri ekki „greiningin“, ég væri svo margt annað og hefði meira fram að færa þó að ég hefði veikst á sínum tíma. Mér finnst ráðamenn vera að missa þarna af ótrúlegu tækifæri til að koma fólki í bata og inn í lífið aftur.“

Sigurður Mikael Jónsson
mikael@dv.is
13:57 › 25. október 2015