Skip to main content
Fréttir

Starfsemi Hugarafls tryggð með nýjum tveggja ára samningi

By desember 22, 2020No Comments

Skrifað var undir nýjan samning 18 desember síðastliðinn

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og fulltrúar Vinnumálastofnunar undirrituðu nýja samninga við Hugarafl. Samningarnir, að heildarupphæð 102 milljónir tryggja starfsemi Hugarafls næstu tvö árin. Samningur Vinnumálastofnunar fjallar um starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga með geðraskanir og nemur hann 47 milljónum króna á ári og samningur félagsmálaráðuneytisins er til stuðnings opnu úrræði Hugarafls og er upp á átta milljónir króna samtals.

Hugarafl eru félagasamtök fólks sem hefur upplifað andlega erfiðleika og vinnur að persónulegum bata sínum. Þátttaka í starfsemi Hugarafls er fyrir, 18 ára og eldri, sem hafa áhuga á að vinna í geðheilsu sinni á eigin forsendum. Starfið byggist upp á samvinnu notenda og fagaðila á jafningagrunni þar sem traust og virðing eru höfð að leiðarljósi, og byggist allt starf samtakanna á hugmyndafræði valdeflingar. Starfsemin er  gjaldfrjáls, óháð búsetu og engin krafa er gerð um tilvísanir né geðgreiningar og mun styrkurinn nýtast til að efla þjónustu Hugarafls.

Samkvæmt samningi Vinnumálastofnunar og Hugarafls mun þjónustan standa þeim til boða sem hafa takmörkuð atvinnutækifæri eða standa höllum fæti á vinnumarkaði vegna skorts á grunnmenntun eða annarri hæfni og leita til Hugarafls af sjálfsdáðum. Áhersla verður áfram lögð á einstaklingsbundin úrræði sem miðast við að auka starfsgetu fólks og gera því kleift að fara aftur inn á vinnumarkaðinn. Í því felst meðal annars að undirbúa viðkomandi fyrir vinnu, greina atvinnutækifæri hans, aðstoða við atvinnuleit og atvinnuumsóknir, auk tímabundinnar aðstoðar á vinnustað ef með þarf. Þá er lögð sérstök áhersla á ungt fólk sem uppfyllir ekki skilyrði fyrir þjónustu lokaðra endurhæfingarúrræða.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Hugarafl sinnir ákaflega mikilvægu starfi þar sem fólk getur sótt sér þjónustu gjaldfrjálst og á sínum forsendum. Samtökin hafa hjálpað fjölda einstaklinga í mikilvægri sjálfsvinnu og það er einkar ánægjulegt að þessir samningar tryggi þetta góða starf næstu tvö árin.“

Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls: „Samningurinn er stór þáttur í að tryggja opið aðgengi að þjónustu sem eflir virkni og þátttöku í samfélaginu með áherslum batanálgunar og valdeflingar. Eftirspurn hjá Hugarafli hefur aukist gríðarlega undanfarna mánuði  og starf Hugarafls er nauðsynlegur valmöguleiki í þjónustu við einstaklinga sem ganga í gegnum geðrænar áskoranir og fjölskyldur þeirra. Það er okkur mikil ánægja að sjá ráðherra félags-og barnamála hafa svo góða innsýn og skilning eins og Ásmundur hefur á nauðsyn opinnar þjónustu sem við veitum hér í Hugarafli.“