Skip to main content
Fréttir

Spennandi samstarfsverkefni ,,Highway to mental health“

By nóvember 12, 2019No Comments

Laugardaginn 20.október síðastliðin, héldu þrír hugaraflsmeðlimir á vit ævintýra til Cluj í Rúmeníu, þær Fjóla, Sigurborg og Dumitrita. Þar sem fyrsti fundur í sam-Evrópsku verkefni var haldinn.

Verkefnið heitir Highway to mental health og hefur það að markmiði að hanna námsefni til að stuðla að bættri andlegri líðan hjá ungmennum á aldrinum 18-30. Lokaafurðir þessa verkefnis eru handbók með óhefðbundnu skapandi námsefni sem tengjast ýmsum þemum, til að mynda að valdefling, tilfinningar, samfélag, mannréttindi og náttúra. Einnig verður sett upp vefsíða þar sem einstaklingar sem vinna með ungmennum geta farið í gegnum ákveðið námskeið á netinu til að efla sig og fá verkfæri til að fræða ungmenni um andlega heilsu og takast á við andlegar áskoranir.

Fjögur félagasamtök frá fjórum löndum tóku þátt í fundinum, Hugarafl frá Íslandi, Minte Forte frá Rúmeníu, Activament frá Spáni og Progres frá Póllandi. Minte Forte og Hugarafl hafa verið í samstarfi s.l fjögur ár og þekkjast því ágætlega. Megin viðfangsefni Minte Forte er að fræða um andlega heilsu í samfélaginu með óhefðbundnum leiðum í gegnum þjálfanir, vinnusmiðjur, og viðburði. Einnig eru þau með einstaklings samtöl. Starfsemi Activament er stýrt af notendum líkt og Hugarafl, þau vinna eftir hugmyndafræði valdeflingar og nýta jafningjastuðning. Notendur með reynslu fara einnig út í samfélagið að fræða fagfólk og almenning um andlegar áskoranir. Progres rekur svo kallað Hostel, eða gistiheimili fyrir einstaklinga sem eru að ganga í gegnum andlegar áskoranir, einnig eru þau með mikla reynslu í fræðslu um andlegar áskoranir fyrir fagaðila.

Fundurinn stóð yfir í þrjá daga og fór fram í  húsakynnum Minte Forte. Hluti af fyrsta deginum var nýttur til þess að aðilar næðu að kynnast vel innbyrðis. Fljótlega var ljóst að auk mismunandi menningar á milli landa þá vorum við með fjölbreyttan og öflugan hóp af hæfileikaríku fólki sem hefur margt fram að færa til verkefnisins. Sá hluti hópsins sem hefur reynslu af andlegum áskorunum upplifði að viðhorf þeirra og skoðanir voru mikils metin og munu vera höfð að leiðarljósi í allri þróun verkefnisins. Farið var yfir ýmis praktísk mál eins og fjármál, hvernig við munum skipta með okkur verkum, skipuleggja skype fundi og síðast en ekki síst skipuleggja næsta fund sem verður í Varsjá í Póllandi í byrjun desember.

Mikill tími fór í að vinna með þau þemu sem munu leiða verkefnið, hvernig við viljum skilgreina þau og hvaða megin innihald hvert þema þarf að hafa. Þetta var að sjálfsögðu unnið á óhefðbundinn og skapandi þátt eins og Erasmus+ verkefni eru jafnan unnin. Hópurinn var mjög ánægður með fundinn í heild hann árangursríkur og skemmtilegur í alla staði. Þar sem einstaklingarnir í verkefninu hafa mjög ólíkan bakgrunn þá var mikið rökrætt en alltaf komist að sameiginlegri niðurstöðu og stemmningin var létt og skapandi. Hópurinn er því fullur tilhlökkunar að takast á við þetta viðamikla og gefandi verkefni á næstu tveimur árum.