Skip to main content
Geðheilbrigðismál

Skortur á fleiri og fjölbreyttari úrræðum. Af mbl.is

By október 10, 2014No Comments

Virðingin fyrir sjónarmiðum sjúklinga sem glíma við geðraskanir hefur tvímælalaust aukist og þeir hafa sífellt meira að segja um sína meðferð, segir Engilbert Sigurðsson geðlæknir.

„Á ÍSLANDI höfum við búið við stofnanamiðaða geðheilbrigðisþjónustu. Það sem hefur svo gerst á síðustu árum er að það hafa sprottið upp vísar að þjónustu úti í samfélaginu. Á sama tíma höfum við verið að ganga í gegnum sameiningu spítalanna í Reykjavík og verulegt aðhald í rekstri. Bráðarúmum hefur verið fækkað til að spara fé en á móti hefur komið bætt göngudeildarþjónusta, aukin dagdeildarþjónusta og meira aðgengi að sálfræðingum og hugrænni atferlismeðferð á geðsviðinu. Hlutverk hjúkrunarfræðinga er einnig annað og meira en var. Það hefur einnig verið fjölgað í hópi iðjuþjálfa og félagsráðgjafa og það hafa mörg verkefni verið unnin sem horfa til framfara.“ Þetta segir Engilbert Sigurðsson, geðlæknir á geðsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) um þróun geðheilbrigðisþjónustu spítalans í ljósi umfjöllunar í Kastljóss-þætti Ríkissjónvarpsins að undanförnu.
Spurður hvort þörf sé á nýrri hugsun í geðheilbrigðisþjónustu svarar Engilbert: „Það er ekki nóg að einhver hugsi, það þarf að fá stjórnvöld til að setja fé í verkefni og ný úrræði og það tekur oft mjög langan tíma þrátt fyrir góðan vilja á æðstu stöðum. Stjórnvöld krefjast aukins aðhalds í heilbrigðiskerfinu sem í reynd kemur oft út, til lengri tíma litið, sem niðurskurður á þjónustu.“

Hann segir niðurskurðinn hafa komið niður á sumum þáttum geðheilbrigðisþjónustu spítalans. „Rúmum á bráðadeildum hefur fækkað en aðrir þættir hafa verið styrktir og efldir, t.d. göngu- og dagdeildarþjónusta. Þetta var stefna stjórnvalda, hún kom ekki frá einhverjum á geðsviðinu. Svona vilja þau gera hlutina.“

Hann segir bráðaþjónustu fyrir geðsjúka sæmilega góða, en hún búi við of fá legurými og of fá framhaldsúrræði í kjölfarið. Fækkun bráðarúma komi niður á sjúklingunum því þrýstingur sé á að útskrifa fólk svo fljótt sem auðið er. „Meðallegutími er orðinn of stuttur, hann er kominn niður í 12 til 13 daga á þessum bráðadeildum og það er einfaldlega of lítið.“

Þegar bráðameðferð ljúki sé reynt að koma öllum í framhaldsmeðferð sem það þurfa. Það geti þó reynst erfitt og oft sé ekki greiður aðgangur að þeirri meðferð eða þjónustu sem best hefði hentað sjúklingnum.

Engilbert segir alls ekki hægt að halda því fram að stöðnun hafi verið í geðheilbrigðisþjónustu LSH þrátt fyrir aðhaldskröfur. „Þvert á móti hefur orðið veruleg þróun í rétta átt fyrir þá sem eru minna veikir og þurfa ekki á sólarhringsinnlögn að halda. En það er ekki endilega stjórnvöldum að þakka, heldur hafa menn verið að reyna að þróa þjónustuna í þá átt sem gerist í nágrannalöndunum á aðhaldstímum en við erum á margan hátt komin styttra en þar.“

Hvað vantar helst upp á?

„Okkur vantar helst meiri samfélagsþjónustu fyrir geðsjúka, okkur vantar tilfinnanlega búsetuúrræði og endurhæfingarúrræði.“

Með samfélagsþjónustu á Engilbert t.d. við að teymi fagaðila starfi úti í samfélaginu í nánum tengslum við félagsþjónustuna og heilsugæsluna og veiti langveikum sjúklingum betri þjónustu í sínu nærumhverfi. Á þetta skorti verulega í dag og eru fagaðilar á geðsviði stöðugt að reyna að hafa áhrif innan og utan LSH í þá veru að samfélagsgeðlækningar geti þróast og staðið undir nafni.

En er of mikil áhersla lögð á geðlyf í geðlækningum á Íslandi?

„Það er ekki hægt að svara þessu á einfaldan hátt,“ segir Engilbert. „Það ætti frekar að spyrja hvort ekki sé of lítið um úrræði sem gætu hjálpað fagfólki, í ákveðnum tilvikum, að draga hraðar og meira úr notkun lyfja hjá skjólstæðingum sínum í samvinnu við þá. Það er alveg út í hött að stilla lyfjum og annarri meðferð upp sem andstæðum pólum vegna þess að oft fer best á því að samþætta lyfjameðferð og annars konar meðferð til að hjálpa fólki í lífshættu eða í geðrofi að fóta sig í lífinu á nýjan leik.“ Lyf skapi oft forsendur hjá fólki til að takast á við lífið.

En hefur fólk nægilega mikið val um önnur úrræði en lyfjameðferð? „Í heilsugæslunni og á spítalanum væri oft gott að hafa fleiri úrræði og fjölbreyttari. Við erum að reyna að vinna að því á geðsviðinu. Við erum t.d. núna að kanna árangur af hugrænni atferlismeðferð í hópum á heilsugæslunni, þannig meðferð hefur verið í gangi á göngudeild geðsviðs í langan tíma og einnig inni á bráðadeildum með ágætum árangri.“

Engilbert segir að hugræn atferlismeðferð nýtist best þeim sem eru komnir nokkuð á veg í bata eða hafa ekki þurft á innlögn að halda en meðferðin hjálpar fólki að takast á við ósjálfráðar niðurrifshugsanir og fleiri hugsanavillur sem oft fylgja geðsjúkdómum. Meðferðin henti ekki þó alls ekki öllum sjúklingahópum, best henti hún þeim sem glími við þunglyndi og kvíða. Oft fari hún saman við lyfjameðferð.

„Þetta er engin allsherjarlausn almennt en vissulega hjálplegur þáttur í meðferðinni. Alveg eins og lyfin.“

Hvað framhaldsmeðferð að lokinni meðferð á bráðadeildum varðar segir Engilbert mjög misjafnt hvað henti hverjum og einum. Þeir sem eru langveikir af geðklofa og skyldum geðrofssjúkdómum hafi oft mjög fjölþættar þarfir. Þá skorti oft viðunandi húsnæði, þeir þurfi hvatningu til að mæta daglega á tiltekinn samastað og séu sumir á hálfsmánaðarlegum forðalyfjasprautum á vegum göngudeildar Kleppsspítala, heimahjúkrunar, heimageðteymis heilsugæslunnar eða sambærilegs teymis frá Landspítalanum. Öðrum henti að fara í endurhæfingu á dagdeild eða í iðjuþjálfum og enn öðrum eftirfylgni á göngudeild, hjá geðlækni eða sálfræðingi á stofu eða hjá heimilislækni.
Spurður hvort nægjanlegt tillit sé tekið til skoðana sjúklingsins sjálfs við val á meðferð á sjúkrahúsum svarar Engilbert: „Það fer eftir því hvaða sjúklingahóp um ræðir. Sjúklinga með alvarlegustu veikindin er ekki hægt að tala út úr sinni sturlun eða maníu. Þeir þurfa viðeigandi lyfjameðferð og slíkt gerir oft stórkostlega mikið fyrir fólk á fáum dögum eða vikum. Samstarfið við þá er oftast nær gott í kjölfarið. Bókstaflega allir aðrir geta stýrt því sjálfir frá upphafi hvort þeir taka lyf eða ekki. Það neyðir þá enginn til þess. Það hafa orðið miklar breytingar hvað þetta varðar undanfarinn áratug, virðingin fyrir sjónarmiðum sjúklinga varðandi sína meðferð hefur tvímælalaust aukist. Þeir veikustu standa hins vegar stundum ekki tímabundið undir þeirri ábyrgð.“

Í hnotskurn

» Bráðarúmum hefur verið fækkað á geðsviði LSH frá sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík.
» Hugræn atferlismeðferð hentar ekki öllum sjúklingahópum, best hentar hún þeim sem glíma við þunglyndi og kvíða.
» Markvisst er unnið að því á geðdeildum LSH að hafa sjúklinga með í ráðum.

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1107626/