Skip to main content
Greinar

Skák og mát í Vin.

By febrúar 20, 2014No Comments

Þarna mætast allir á jafnréttisgrundvelli, einstaklingar sem hafa lifað með fordómum samfélagsins gagnvart geðsjúkdómum, starfsfólk, vinir og velunnar

Þarna mætast allir á jafnréttisgrundvelli, einstaklingar sem hafa lifað með fordómum samfélagsins gagnvart geðsjúkdómum, starfsfólk, vinir og velunnarar. Það er haldið stórmót við Hverfisgötu 47 í húsakynnum Vinjar. Hver leikur er ígrundaður og meðal þátttakenda leynast skákmeistarar sem hafa stóran hluta af lífi sínu verið í felum. Það er létt yfir gestum og þátttakendum skákmótsins en áhyggjur af framtíð þessa griðarstaðar leyna sér ekki þar sem nú stendur til að leggja starfsemi Vinjar niður í mars á næsta ári. Vin er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og hefur verið starfrækt frá árinu 1993. Markmið Vinjar hefur frá upphafi verið að draga úr félagslegri einangrun geðfatlaðra og draga úr endurinnlögnum á geðdeildir. Í Vin móta gestirnir starfsemina í samstarfi við starfsfólkið.

Reglubundnir gestir líta á Vin sem sitt annað heimili og sjá svartnætti eitt vegna komandi aðgerða. Einn gestur Vinjar sagði m.a.: »Vin gefur tilgang í lífinu, lífi þeirra sem skugga ber á vegna alls konar illvígra geðsjúkdóma.« Það er sárt þegar einstaklingar sem þurfa að lifa með stöðugum kvíða eru sviptir þeim eina stað þar sem þeir stöku sinnum geta lagt kvíðann á hilluna og samsamað sig með öðrum. Svartur á leik og hernaðaraðgerðir á tvílitum velli koma andstæðingnum í opna skjöldu. Hvítur verst af hugkvæmni og á borðinu fyrir framan áhyggjufulla velunnara Vinjar endurspeglast yfirvofandi aðgerðir. signy@mbl.is