Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

Sigraðist á þunglyndi og geðrofum

By október 16, 2015No Comments

Hugaraflsmaðurinn Grétar Björnsson sagði sína sögu á Hringbraut.

Hugaraflsmaðurinn Grétar Björnsson, steig fram í sjónvarpsþættinum Afsakið: Truflun á geði, sem var á dagskrá Hringbrautar og lýsti þar á opinskáan hátt hvernig alvarlegt þunglyndi hans leiddi til geðrofa.

Þátturinn, sem er í umsjá Sigmundar Ernis, var sendur út í tilefni Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins en Grétar talar af miklu hispursleysi og einlægni um sjúdóm sinn sem hann hefur nú sigrast á eftir mikla og langa viðureign við svarta hundinn.

Grétar var ósköp venjulegur strákur að skríða inn í unglingsárin þegar hann fór að finna fyrir kvíða og óöryggi. Það magnaðist fljótt á næstu árum, svo mjög að algert niðamyrkur einkenndi hugsanir hans á löngum köflum. Í viðtalinu lýsir hann því mjög opinskátt hvernig er að fyllast því gríðarlega vonleysi sem oft og tíðum fylgir alvarlegu þunglyndi, en í hans tilviki leiddi það til geðrofs og mikill ranghugmynda, enda taldi Grétar á því skeiði ævinnar að hann væri útvalinn af almættinu, fengi hann skilaboð í þá veru frá Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra í gegnum sjónvarpstækið heima hjá sér – og gilti einu hvort kveikt var á því eða ekki.

Grétar 34 ára er nú í hjónabandi og orðinn faðir og stundar háskólanám sitt af kappi, en hann er einn fjölmargra sem samtökin Þú getur hafa stutt til mennta á síðustu árum, en þar eru á ferðinni sjálfboðaliðasamtök sem berjast gegn fordómum í garð geðsjúkra og styður þá út í samfélagið.

Í lok þáttarins ræðir Sigmundur Ernir við Siv Friðleifsdóttur, einn stjórnarmanna samtakanna sem hafa skipt fjölmarga sem glímt hafa við geðsjúkdóma miklu máli.