Skip to main content
Greinar

Saga Ron Colmans

By febrúar 20, 2014No Comments

Ég var alinn upp í verkamannafjölskyldu sem var kaþólsk. Eins og margir drengir á mínum aldri gekk ég í gegnum trúarskeiðið þegar ég var á ellefta ári. Ég fór og talaði við sóknarprestinn minn og sagði honum að ég hefði áhuga á því að gerast prestur. Presturinn okkar sem var orðinn aldraður var af gamla skólanum og hélt fleiri messur á latínu en á ensku. Hann var líka án efa maður Guðs sem sá sig sem hirði og okkur sem hjörðina sína. Þegar einn af hjörðinni sagðist vilja verða prestur þá tók hann því alvarlega. Hann tók þrá mín að verða prestur alvarlega og í framhaldi hittumst við einu sinni í viku með tveim öðrum drengjum sem einnig vildu verða prestar.

Á þessum vikulegu fundum töluðu við um kenningar kirkjunnar, hlutverk prestsins og hvort köllun okkar til prestdóms væri raunveruleg. Eftir einn af okkar fundum þá hætti einn af drengjunum að mæta vegna þess að hann efaðist um köllun sína og taldi sig vera að gera þetta fyrir fjölskyldu sína. Við tveir sem eftir voru héldum ótrauðir áfram með kennsluna og vorum harðákveðnir í þeirri hugmynd að við myndum gerast prestar.

Þetta voru góðir dagar í lífi mínu, ég var að búa mig undir það hlutverk að þjóna Guði með öllum þeim eldmóði sem ellefu ára drengur býr yfir. Dagurinn sem breytti lífi mínu byrjaði eins og allir aðrir dagar, ég fór í skólann og framhaldi af því fór ég til safnaðarheimilisins til að fá kennslu hjá prestinum. Ráðskonan kom til dyra nær grátandi og sagði okkur að presturinn hefði orðið alvarlega veikur fyrr um daginn og þó svo að hann lifði myndi hann aldrei koma aftur í sóknina. (Ég velti því oft fyrir mér hvað hefði gerst hefði presturinn ekki veikst. Væri ég þá prestur í dag?) Stuttu eftir að þetta gerðist kom nýr prestur í sóknina, (ég ætla að kalla hann Adrian). Til að byrja með var allt eins og áður og fljótlega fór lífið að hafa sinn vanagang. Næstu þrír mánuðir liðu án atvika fyrir mig þó svo ég tæki eftir því að mikið af altaridrengjunum færu fyrr heim eftir messu.

Ég komst fljótlega að því hvers vegna þegar faðir Adrian bað mig um að koma og hitta sig í skrúðhúsinu í kirkjunni. Ég rölti af stað án þess að hafa hugmynd um hvers vegna hann vildi hitta mig eftir allt þá var hann presturinn. Þegar ég kom inn í skrúðhúsið bað faðir Adrian mig um að setjast, það var á þessari stundu sem allt fór að breytast. Hann byrjaði á því að spyrja mig hvort ég hefði einhverjar syndir sem ég þyrfti af játa, þegar ég svaraði því neitandi kallaði hann mig lygara og sagðist þurfa að biðja fyrir mér til þess að ég fengi fyrirgefningu. Hann kraup á kné og byrjaði að biðja upphátt, hann sagði að ég væri að freista hans og að ég væri illur. Þar sem hann hélt áfram að biðja byrjaði hann að stynja, ég var meðvitaður um að hönd hans var á læri mínu, hann hélt áfram að strjúka mér upp lærið þar til hönd hans snerti á mér liminn. Á meðan á þessu stóð yfir fann ég mig breytast í áhorfanda gagnvart því sem var að koma fyrir mig. Ég varð var við aðra hluti í kringum mig, eins og t.d. kertin sem loguðu bjartar en venjulega, fjólublá messuklæði hans virtust vera fjólublárri en áður. Ég var þarna á staðnum en á sama tíma var ég þar ekki, þeir sem hafa lent í kynferðislegri misnotkun skilja hvað ég meina. Mörgum árum seinna komst ég að því að þetta er kallað hugrof og er algengasta formið af sjálfsbjargarviðleitni hjá fólki sem hefur verið misnotað. Á þessum tíma fannst mér að enginn væri mér til varnar vegna þessa að inni í mér öskraði ég að hann myndi hætta, ég öskraði líka að Guð myndi hjálpa mér en annað hvort var Guð heyrnarlaus eða ég öskraði ekki nógu hátt vegna þess að hann kom mér aldrei til varnar. Þegar þetta var búið sagði Adrian mér að enginn myndi trúa mér ef ég myndi segja frá hvað hafði gerst. Ég yfirgaf skrúðhúsið dofinn og sagði engum frá því sem gerst hafði né öllum hinum skiptunum sem þetta gerðist.

Ég var um tíma fastur í þessum vítahring misnotkunar, hver myndi trú mér? Adrian var prestur, hann stóð milli Guðs og manna, hann var fulltrúi Krists á jörðu, hann var sá sem fyrirgaf syndir og hann var hinn góði hirðir. Ég var bara ellefu ára drengur, átti mína drauma og ef ég hefði sagt eitthvað hefði ég verið stimplaður lygari. Samband mitt við þennan Guð sem ég hélt að ég trúði á var búið. Misnotkunin stóð í nokkra mánuði þar til ég fann styrk til að snúa baki við kirkjunni og við Guði. Mínu andlega og trúarlega tímabili var lokið. Tíminn hefur kennt mér að þetta er munstur kynferðisglæpamanna, þeir eru oft í stöðum í samfélaginu þar sem þeim er treyst og þeir misnota þá stöðu til að fá vilja sínum framkvæmt. Reynslan hefur kennt mér að það að taka ekki á misnotkun þýðir að hún fylgir manni í gegnum lífið og mótar að mörgu leyti líf manns gagnvart framtíðarsamböndum. Þetta á sérstaklega við þegar kemur að vináttu og sambandi við lífsförunaut. Þessi atburður átti eftir að móta mitt líf eða ætti ég kannski frekar að segja sjúkdómur.

Ef þetta hefði verið eina áfallið í lífi mínu trúi ég því að ég hefði komist yfir það, haldið áfram og lifað nokkuð eðlilegu lífi. En eins og oft er tilfellið þá kemur lífið aftan að manni þegar maður á síst von á því. Þar sem ég óx úr grasi og varð fullorðinn reyndi ég að gleyma þeirri misnotkun sem ég hafði lent í og reyndi að halda áfram með mitt líf. Það var þá sem ég kynntist Annabelle. Ég hitti hana á laugardagskvöldi á bar eftir að ég hafði verið að spila rugby, þegar ég sá hana vissi ég hvað ást við fyrstu sýn þýddi. Það að vera geðveikur er ekkert miðað við það að vera ástfanginn, ást er án efa hin sanna upplifun af geðveiki. Annabelle var listakona, höggmyndalist var hennar aðalfag en hún málaði og rissaði líka. Á þeim stutta tíma sem við vorum saman kenndi hún mér margt, hún kenndi mér hvað ást var, hvernig það var að njóta ásta og það sem var mest áríðandi, að elska lífið. Hún kenndi mér einnig að meta klassíska tónlist, óperur og leikhúsið. Með henni byrjaði ég einnig að upplifa andlega hlið á mínu lífi sem var samt sem áður ekki trúarleg.

Samband okkar þróaðist fljót frá því að vera ástríðufullt samband nýrra elskuhuga til þessa að vera samband sálufélaga. Við eyddum eins miklum tíma saman og mögulegt var, stundum vöktum við fram eftir á kvöldum og töluðum saman og gerðum áætlanir eins og pör gera. Við vorum að gera áætlanir um líf okkar saman og þetta var eins eðlilegt og hægt var að hafa það. En eins og með allt sem er eðlilegt þá beið geðveikin, tilbúin að heltaka okkur og dag einn gerðist það.

Eins og daginn sem ég kynntist Annabelle þá endaði samband okkar á laugardegi. Ég hafði verið að spila rugby og kom heim með mat handa okkur báðum. Þegar ég kom inn kallaði ég á Annabelle og spurði hana hvort hún vildi te eða kaffi, hún svaraði ekki. Ég fór inn í stofuna og sá hana liggjandi á sófanum, ég spurði hana aftur en fékk ekkert svar, ég hristi hana til en hún vaknaði ekki upp. Ég flýti mér út og fór til nágrannans og bað þá um að hringja á sjúkrabíl. Þeir flýttu sér með hana á spítala og tengdu hana við vél í þeirri von að bjarga henni. Þremur dögum seinna var hún látin. Annabelle hafði tekið sitt eigið líf. Ég komst aldrei að því hvers vegna hún gerði þetta en ég veit að ég kenndi sjálfum mér um, ég veit ekki hvers vegna ég gerði það en það liðu mörg ár þangað til að ég hætti því.

Þegar hún lést, þá dó partur af mér með henni. Ég lofaði sjálfum mér að aldrei aftur skyldi ég leyfa mér að tengjast annarri manneskju tilfinningaböndum. Eins og margir aðrir þá neitaði ég að takast á við tilfinningar mínar gagnvart Annabelle og dauða hennar. Ég hélt áfram að lifa innantómri tilvist. Eins og með misnotkunina kaus ég að þykjast að ekkert hafi gerst en inni í mér gerjuðust tilfinningar eins og sorg og hatur gagnvart heiminum, þessar tilfinningar héldu áfram að gerjast og gerjast og biðu þess að heltaka mig allan.

Sá tími kom að tilfinningar mínar báru mig ofurliði þegar ég lenti í slysi þegar ég var að spila rugby. Ég gat aldrei spilað eftir það. Nokkrum vikum seinna þegar ég var útskrifaður af spítalanum (enn á hækjum) þá heyrði ég í fyrsta sinn rödd. Ég var inni á skrifstofu minni og var að vinna í tölvunni þegar rödd fyrir aftan mig sagði mér að ég hefði gert þetta vitlaust. Ég leit aftur fyrir mig en enginn var þar. Ég hætti strax að vinna og fór á barinn og drakk mig fullan. Ég man að ég hugsaði að ég væri stressaður og þyrfti á hléi að halda.

Á sex mánaða tímabili höfðu fleiri raddir gert vart um sig. Þær gerðu lítið annað en að öskra á mig daginn út og inn. Ég gat ekki einbeitt mér að vinnunni og eini friðurinn sem ég fann var þegar ég drakk mig blindfullan. Að lokum gaf vinnuveitandi mér fjórar vikur til að ná mér aftur á strik. Fjórum vikum seinna var ég atvinnulaus, ég var að tapa heimili mínu og fór að kynnast geðheilbrigðskerfinu í fyrsta sinn. Á stuttum tíma varð ég ekki sjón að sjá með ósnyrt skegg, í skítugum fötum og oftast drukkinn.

Að lokum réð ég ekki lengur við þessar aðstæður og hringdi í “samverjana” og eftir miklar umræður þá fór ég og hitti heimilislækninn minn. Hann endaði tíma okkar með þessum orðum “ég ætla að sjá til þess að þú fáir að hitta sérfræðing” fínt hugsaði ég, þetta mun taka einhvern tíma, en óvænt uppákoma beið eftir mér. Hann fór með mig út úr viðtalsherberginu og bað mig að bíða í litlu herbergi sem var skurðstofa. Nokkrum mínútum síðar kom hann aftur með hjúkrunarkonu, hann sagði að hjúkrunarkonan myndi hugsa um mig meðan við værum að bíða eftir sérfræðingnum. Það litla sem ég man eftir þessari bið var að hjúkrunarkonan talaði lítið og virtist vera hrædd við að vera í sama herbergi og ég.

Bið mín endaði 3 klukkutímum seinna þegar heimilislæknirinn og sérfræðingurinn komu aftur. Sérfræðingurinn kynnti sig og sagði mér að hann væri geðlæknir og að hann hefði komið vegna þess að heimilislæknirinn hefði áhyggjur af mér. Það var hér sem ég gekk í gegnum mína fyrstu eins klukkutíma skoðun, eftir viðtalið sagði geðlæknirinn minn mér að ég væri veikur og að það væri best ef ég myndi leggjast inn á spítala í stutta stund. Ég sagði honum að fara til fjandans og flúði skurðstofuna. Þremur dögum seinna var ég lokaður gegn vilja mínum inni á Royal Free spítalanum. Þar voru tekin viðtöl við mig og niðurstaðan var sú að ég væri með geðklofa.

Geðlæknirinn sagði mér að ef ég tæki lyfin mín þá myndu raddirnar og önnur einkenni hverfa og ég myndi ná heilsu aftur. Hann sagði mér að það tæki tvær vikur fyrir lyfin að virka og að á svipstundu yrði ég aftur eins og ég var. Hann hafði rangt fyrir sér. Tveimur vikum síðar var ég verri svo ég hætti að taka lyfin og ákvað að fara af spítalanum. Það var þarna sem ég uppgötvaði hinn raunverulega mátt kerfisins. Ég var þvingaður til að vera á spítalanum í minnst tuttugu og átta daga. Einnig máttu þeir þvinga mig til að taka lyf með valdi. Þetta varð minn lífstíll, stöðug veikindi með stuttum hléum.

Á næstu tíu árum var ég lokaður gegn vilja mínum inni á geðdeild í um það bil sex ár. Á þessum tíma var ég settur fjörtíu sinnum í raflostmeðferð, ég prófaði nær öll geðlyf sem til voru á markaðnum og mér var neitað um sálfræðimeðferð aftur og aftur. Þrátt fyrir alla þessar meðferðir héldu raddirnar áfram að kvelja mig. Lyfin hjálpuðu ekki neitt og á endanum voru lyfjaskammtanir orðnir svo háir að ég var litlu betri en svefngengill sem sá lífið í gegnum gleraugu lyfja.

Kerfið kenndi mér hvernig maður á að vera góður geðklofa sjúklingur. Ég held að við lærum mikið um það hvernig á að vera geðsjúklingur í kerfinu. Tíu ár liðu þangað til að ég fann leið út úr kerfinu en þá hafði kerfið skapað hinn fullkomna geðklofasjúkling. En nú yfir í bata.

Áfangarnir í átt að bata

Allt bataferli á sér upphaf og fyrir mig var upphafið þegar ég kynntist Lindsay Cooke, stuðningsfulltrúa mínum. Það var hún sem hvatti mig til þess að fara í sjálfshjálparhóp fyrir fólk sem heyrði raddir. Þetta var í Manchester árið 1991. Það var hún en ekki ég sem trúði á að þessi sjálfshjálparhópur myndi hjálpa mér. Það var hún sem sá framhjá geðveikinni og sá þar möguleika. Það var trú hennar á mig sem kom mínu bataferli af stað og ég skulda henni mikið fyrir allt það sem hún hefur gert fyrir mig.

Til þess að ferðalag sé farsælt þurfa ákveðnir nauðsynlegir þættir að koma saman. Einn af þessum þáttum er hæfileikinn að geta stýrt skútunni þangað sem maður vill komast. Í stað þess að hafa bara einn stýrimann, þá hafði ég marga. Í þessum hluta ætla ég bara að tala um fimm þeirra. Sú fyrsta var Anne Walton sem heyrði raddir líka. Á fyrsta fundi mínum með fólki sem heyrir raddir þá spurði hún mig hvort ég heyrði raddir og þegar ég svaraði játandi sagði hún mér að raddirnar væru raunverulegar. Þetta hljómar kannski ekki sem mjög merkileg setning en þessi setning hefur verið mér sem leiðarljós og leiðbeint mér hvaða stefnu ég ætti að taka og stutt mig í trú minni á bataferlið.

Önnur persónan sem hjálpaði mér var Mike Grierson. Mike var persónan sem hjálpaði mér í gegnum samband mitt við raddirnar og við samfélagið. Hann hvatti mig til þess að fara út og hitta fólk sem hafði ekkert með geðkerfið að gera. Hann fór einnig með mig í bíó og á klassíska konserta þar sem ég fann aftur áhuga minn á list. Mike var ekki einungis samfélagsstýrimaðurinn minn heldur var hann líka einn af mörgum sem hjálpuðu mér að takast á við raddirnar á þann hátt að ég gæti skoðað reynslu mína af röddunum.

Þriðja og fjórða fólkið var Terry McLaughlin og Julie Downs. Terry og Julie voru mínir stýrimenn í átt að eðlilegu ástandi. Þau endurvöktu áhuga minn á stjórnmálum og tóku mig inn á heimili sitt án skilyrða. Það var með Terry þar sem hugmyndir mínar varðandi geðheilbrigðismálefni þróuðust. Með Julie þróaði ég “þjálfunarpakka” og nú með konu minni Karen er ég enn að þróa “Þjálfunarpakka” sem við notum til að skoða geðheilbrigðiskerfið.

Fimmta persónan var Paul Baker. Hann var enn einn stýrimaðurinn sem hjálpaði mér í bataferlinu. Paul var maðurinn sem kom með “samtök fólks sem heyrir raddir” til Englands. Hann hvatti mig til að taka þátt í starfinu og þegar tíminn var réttur lét hann stjórnina á samtökunum í mínar hendur. Til allra minna stýrimanna Anne, Mike, Terry, Julie og Paul, ég skulda ykkur mitt geðheilbrigði.

Stýrimenn þurfa á korti að halda til að geta stýrt skútunni og ég hef verið svo heppinn að mínir kortamenn voru Patsy Hage, Marius Romme og Sandra Escher. Ég held að þessi þrjú geri sér ekki grein fyrir því hvað þau hafa gert. Patsy vissi lítið um það hversu mikil áhrif það myndi hafa þegar hún las bókina eftir Julian Jaynes og spurningarnar sem vöknuðu eftir þann lestur. Þessar spurningar snertu margt fólk og það er vegna þess að “samtök fólks sem heyrir raddir” eru til í dag. Hvort sem hún vill það eða ekki þá á hún sér stað í sögu fólks sem heyrir raddir.

Sandra Escher er án efa persónan sem gerði venjulegu fólki kleyft að skilja þau kort sem verið var að búa til. Hennar hæfileiki að koma boðskapnum á tungumáli sem allir skilja hefur þýtt það að vinna þeirra staðnaði ekki í akademíunni heldur er hann notaður af fólki sem heyrir raddir alveg frá upphafi. Sandra og Patsy hafa spilað stórt hlutverk í mínu bataferli.

Síðasti frumkvöðullinn er Marius Romme. Marius er að eigin sögn hefðbundinn geðlæknir en hann er án efa einn mesti frumkvöðull sem ég hef verið svo heppinn að kynnast. Þegar hann hlustaði á Patsy Hage og kannaði hvað hún var að segja þá hætti hann að vera hefðbundinn geðlæknir. Þegar hann fullyrt opinberlega í fyrsta sinn að það að heyra raddir væri eðlileg upplifun og að það að heyra raddir væri ekki eitthvað til að óttast þá hætti hann að vera hefðbundinn geðlæknir. Þegar hann hélt áfram með vinnu sína, þrátt fyrir að vera gagnrýndur og gerður að athlægi af sínum jafningjum hætti hann að vera hefðbundinn geðlæknir og að mínu mati varð hann að frábærum geðlækni.

Patsy, Sandra og Marius, ég skulda ykkur bara eitt og það er líf mitt.

Hingað til hef ég minnst á níu manns sem hafa átt þátt í bataferli mínu og þar er einmitt fyrsta skrefið í átt að bata, fólk.

Ef ég ætti að nefna alla þá sem áttu hlut í bataferli mínu þá yrði listinn mjög langur. Einnig myndi listinn sýna það að flestir á honum væru ekki fagaðilar. Ein af mínum grundvallar kenningum er að bati getur ekki átt sér stað í einangrun né getur hann átt sér stað ef eina sambandið er milli fagaðila og sjúklings. Bati er samkvæmt skilgreiningu að vera heill og enginn getur verið heill er hann er einangraður frá samfélaginu þar sem þeir lifa og vinna.

Í mörg ár hef ég fær rök fyrir því að það sé ekkert til sem heitir geðsjúkdómur, þessi skoðun hefur komið mér út í athyglisverðar rökræður við fólk í gegnum árin. Ein af þessum rökræðum átti ég við Marius Romme, á meðan samtali þessu stóð varð það skýrt að Marius var ekki að færa rök fyrir líffræðilegum sjúkdómi, það sem hann var að segja var að sjúkdómurinn gæti verið erfiðleikar persónunnar að starfa í samfélaginu. Þetta get ég samþykkt vegna þess að þá er bati ekki lengur gjöf frá lækni heldur er hann á ábyrgð okkar allra.

Þetta vekur upp þá spurningu hvort samfélagið sé tilbúið að taka einhverja ábyrgð á bata fólks með geðræn vandamál. Ég er á þeirri skoðun að það muni ekki gerast, vegna þess að í okkar háþróuðu menningu höfum við komist að þeirri skoðun að geðsjúkdómar eigi sér líffræðilega orsök. Ég geri ráð fyrir að væntingar mínar til samfélagsins geti virst of miklar en það verður að horfa á það í samhengi við þau þjóðfélög sem taka ábyrgð á þeim sem verða vitlausir.

Til dæmis í frumbyggjamenningu þegar einhver ruglast þá kemur ættbálkurinn saman og ræðir hvað ættbálkurinn hafi gert af sér til þess að viðkomandi hafi ruglast. Getið þið ímyndað ykkur ef þetta gerðist í okkar menningu. Ég held ekki. Þegar einhver í okkar menningu ruglast þá er hann lagður inn á spítala. Það er ekki hið staðbundna samfélag sem kemur saman og veltir því fyrir sér hvað sé rangt við samfélagið. Það eru hinir svo kölluðu sérfræðingar sem koma saman, yfirleitt án vitundar sjúklings og ræða hvaða leið skuli fara, hvað sé að viðkomandi og hvernig eigi að meðhöndla viðkomandi. Þessi atburðarás er því miður alltof algeng og er ekki til þess fallin að sjúklingurinn nái bata. Þetta er ópersónuleg nálgun að vandamálinu. Í þessari atburðarás er bati hlutlægur en ekki huglægur og persónan er ekki lengur raunverulegur þáttur í ferlinu.

Ef annað fólk er grundvöllurinn að bata þá er hornsteininn að bata sjálfið. Ég trúi án efa að mesta hindrunin sem við lendum í á leið okkar til bata sé við sjálf. Bati gerir þá kröfu að við höfum sjálfstraust, höfum gott sjálfsálit og höfum góða sjálfsmeðvitund án þessa er bati ekki bara ómögulegur heldur er hann ekki þess virði.

Við verðum að öðlast sjálfsöryggi gagnvart hæfileikum okkar til að geta breytt lífi okkar og við þurfum að hætta að treysta á annað fólk til að gera allt fyrir okkur. Við þurfum að byrja á því að gera alla þessa hluti fyrir okkur sjálf. Við þurfum að hafa sjálfstraust til að hætta að vera veik svo við getum byrjað að ná bata. Við verðum að vinna að því að byggja upp sjálfsálit okkar með því að verða borgarar í okkar samfélagi. Við erum gildir meðlimir í okkar samfélagi og við verðum að gera okkur grein fyrir því. Við verðum að viðurkenna galla okkar, það getur verið að kerfið hafi búið til okkar sjúkdóma en það eru oft við sjálf sem styrkjum þá sýn. Við þurfum að gera okkur grein fyrir þeirri lærðu hegðun sem við höfum tamið okkur, þessi hegðun ætti að vera partur af okkar gamla lífi. Við verðum að breyta þessari hegðun sem hefur fest okkur í hlutverki sjúklings. Við þurfum að viðurkenna og vera stolt af því að vera við sjálf. Ég get sannlega sagt að ég heiti Ron Coleman og ég er geðveikur og stoltur af því. Þetta er ekki ósvífin staðhæfing, þetta er staðreynd.

Ég er sannfærður um að ef við öðlumst sjálfsöryggi um hver og hvað við erum þá getum við verið örugg um það hver og hvað við getum orðið. Fyrir mér þá eru þessi fjögur sjálf, sjálfstraust, sjálfsálit, sjálfsmeðvitund og sjálfsviðurkenning, annað skrefið í átt að bata.

Þriðja skrefið er nátengt öðru skrefinu og er rótgróið í okkar eigin stöðu. Ég trú því að við sjálf höfum mikið að segja um okkar eigin stöðu. Við getum valið að halda áfram að vera fórnarlömb kerfisins, við getum valið það að vera vælukjóar og við getum valið að vera aumar litlar veikar persónur sem þurfa tuttugu og fjögra tíma umönnun frá sérfræðingum. Á hinn veginn getum við valið aðra nálgun, við getum valið það að hætta að vera fórnarlömb og orðið sigurvegarar, við getum kosið að hætta að vera vælukjóar og byrjað að lifa á ný, við getum kosið að hætta að vera þessi sjúka litla persóna og í staðinn getum við hafið bataferlið. Þetta er fyrir mér þriðja skrefið í átt að bata. Þegar við hugsuðum um okkur sem sjúklinga þá var það auðvelt að láta annað fólk taka fyrir okkur ákvarðanir. Vegurinn til bata gerir hins vegar kröfu til okkar að taka eigin ákvarðanir og taka ábyrgð á þeim, hvort sem þær eru góðar eða slæmar. Þegar við tökum ákvarðanir þá gerum við óhjákvæmilega mistök. Við verðum að læra að sjá muninn á því að gera mistök og á því að hrasa. Vegna þess að það er auðvelt að fara aftur inn í kerfið bara vegna þess að maður tók vitlausa ákvörðun. Fremur en að viðurkenna veikleika okkar föllum við í þá gildru að kenna líffræðinni um í stað eiginleika okkar sem persónur. Ef fólk eru steinarnir sem byggja upp bata og sjálfið er hornsteinninn þá er val bindiefnið sem heldur steinunum saman. Það er einn enn áfangi í áttina að bata og það er eignarrétturinn. Eignarrétturinn er lykill að bata, við verðum að læra að eignast okkar upplifanir hverjar svo sem þær eru. Læknar geta ekki átt upplifanir okkar, sálfræðingar geta ekki átt upplifanir okkar, hjúkrunarkonur, félagsráðgjafar, atvinnumeðferðarfulltrúar, fjölskylda og vinir geta ekki átt upplifanir okkar. Jafnvel elskhugar okkar geta ekki átt okkar upplifanir. Við verðum að eiga þessar upplifanir. Vegna þess að það er einungis með því að eignast þessa upplifun af geðveiki sem við getum eignast bata frá geðveiki.

Þetta ferðalag geðveikinnar er í meginatriðum ferð einstaklingsins, við getum bara deilt hluta af ferðalaginu með öðrum, megnið af ferðinni er okkar og bara okkar. Það er með okkur sjálfum sem við finnum tækin, styrkinn og hæfileikana sem við þurfum til að til að ljúka ferðalaginu vegna þess að það er innra með okkur þar sem ferðalagið á sér stað.

Bati hefur orðið að framandi hugtaki samt sem áður er ekkert sem ég hef talað um hingað til flókin vísindi, fremur er það almenn skynsemi, það er ekkert nýtt, það er eingöngu ítrekun á víðri sýn á lífið og tilveruna. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að stundum gerum við hlutina flóknari en þeir þurfa að vera. Það er næstum því eins og að við þurfum að hafa lífið svo flókið að við eigum ekki möguleika að skilja það. Við virðumst eyða miklu af tíma okkar í það að flækja líf okkar enn meira með hlutlægni vísindanna fremur en að skoða líf okkar með þeim hæfileikum sem við eigum öll þ.e.a.s. með persónulegri huglægni. Það er tími til kominn að ná bata.

Original title : The Ron Coleman story
Author : Ron Coleman
Translated :Kári Halldórsson – November 2006