Skip to main content
Fréttir

Pistill frá Maríu Lúðvíksdóttur Hugarafli í tilefni af 10.október

By október 10, 2016No Comments

10okt-2016-web-72pt (1)Í dag er Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn. Í tilefni þess fór ég niður í Hugarafl og hitti þar marga góða vini sem gerðu daginn betri. Takk þið öll. Síðan lá leiðin að Hallgrímskirkju þar sem gengið var niður í Bíó Paradís. Þar var mjög góð dagskrá, öll atriðin tengdust á einhvern hátt slagorði dagsins: virðing er fyrsta hjálp.

Geðheilbrigði, geðheilsa og geðsjúkdómar. Bati, batamerki og varanlegur árangur. Allt eru þetta orð sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um þennan dag. Ég hef háð baráttu við mína geðsjúkdóma síðan ég var krakki. Geðveikis afmælið mitt er samt áramót/jan 2011. Þá lagðist ég í fyrsta skipti inn á geðdeild og fékk greiningu. Hef verið greind lengst af með kvíða og þunglyndi en nýjasta greiningin er paranoia schizophrenia (ísl aðsóknar geðklofi). Mér finnst sú greining lýsa mér best. Hún er eins og regnhlífarheiti yfir hinar greiningarnar. Staðan í dag er sú að ég er í margþættu meðferðarprógrammi til þess að láta mér líða betur. Ég er í Hugarafli. Þangað fer ég eins oft og ég treysti mér. Þar hitti ég fólk á jafningjagrunni sem stuðlar að auknu sjálfstrausti, samvinnu og jákvæðni. Mér finnst gaman að hitta fólk úr ólíkum áttum og best þykir mér ef ég get rétt einhverja hjálparhönd og miðlað upplýsingum áfram. Ég  fæ líka heimsókn frá Geðheilsustöð Breiðholts einu sinni í viku. Miðstöðin heldur utan um þá dagskrá sem ég fer eftir og grípur inn í ef þurfa þykir. Þau deila líka til mín lyfjum. Ég dvaldi um tíma ég á Kleppi. Þangað fer ég reglulega í eftirlit til míns geðlæknis. Ég er nýbúið að fá úthlutuðum ,,nýjum/gömlum“ lækni. Hann er mjög fínn. Hann hlustar á mig og tekur mark á því sem mér finnst. Síðan fylgir þessu mikið lyfja austur. Já, ég er búin að fara í gegnum miklar æfingar hvað varðar lyfin. Geðklofinn byrjaði í geðrofi í langan tíma. Til þess að tækla geðrofið voru notuð lyf og samtalsmeðferð. Það gekk illa að tækla geðrofið með lyfjum þannig að ég var sett á gamalt geðrofslyf sem heitir Leponex. Fyrst var ég sett á svo stóran skammt af þessu eitri að ég féll í yfirlið. Núna er skammturinn þannig að ég ræð þokkalega við hann. Eins og áður sagði er ég búin að vera í samtalsmeðferð líka og er ég ennþá á þeirri meðferð og gengur hún upp og ofan. Vel ef ég er dugleg að segja frá því sem angrar mig. Illa ef ég fel vandamálið og tala ekki um það.

Eins hef ég verið að sækja mér félagsskap og bata austur á Selfoss í Batasetur Suðurlands. Það er ljúfur félagsskapur og unnin verkefni undir stjórn Jónu H. Guðmundsdóttur iðjuþjálfa. Mæli með því líka. Til að missa ekki af neinu sem er skemmtilegt fékk ég liðveislu. Ég fer með henni út um allar trissur og við gerum bara það sem við nennum og er skemmtilegt 😉
Eins og þið lesið er leiðin löng og ströng. Skemmtileg og leiðinleg. Skin og skúrir. Ég er ekki tabú heldur er ég allskonar! Smá innsýn í líf ungrar konu með aðsóknar geðklofa. Já tilhneigingin er að fela úrræðin og skammast sín alveg niður í tær. Við upprætum ekki fordóma nema með því að opna dyrnar upp á gátt og fræðast og gleðjast saman. Megið þið öll hafa gleði í hjarta og sól í sinni. koss og knús inn í fallegt kvöld :* :*