Skip to main content
FréttirGeðheilbrigðismál

PIETA Ísland – Nýtt úrræði í sjálfsvígsforvörnum

By janúar 21, 2016No Comments

PIETA Ísland kynnir stofnun fyrirhugaðs  úrræðis fyrir einstaklinga í sjálfsvígshugleiðingum og þá sem stunda sjálfsskaða, en að því standa samtökin Hugarafl og Lifa, ásamt hópi einstaklinga.

pietaHouse

Fyrirmyndin er sótt til PIETA House á Írlandi en þar hefur um áratuga skeið náðst einstakur árangur í sjálfsvígsforvörnum með þeim úrræðum sem PIETA House býður einstaklingum upp á.  Árlega njóta 17.000 einstaklingar þjónustu PIETA House á Írlandi og síðustu ár hafa samtökin einnig fest rætur í Bandaríkjunum og Ástralíu.

Eins og fram hefur komið er PIETA Ísland ætlað fólki í sjálfsvígshugleiðingum og fólki með sjálfsskaðahegðun. Einnig verður boðið upp á þjónustu fyrir aðstandendur sem misst hafa ástvini í sjálfsvígi. Þá er hugmyndin að gefa út vandað kennsluefni sem skólum verður boðið uppá. Markmiðið er að opna umræðuna um sjálfsvíg, ná til fólks í sjálfsvígshugleiðingum og vinna með því auk þess að hvetja til aukinnar þekkingar og vitundar um orsakir og afleiðingar sjálfsvíga. Stuðlað verður að þeim bjargráðum sem eru möguleg sem forvörn en einnig lögð áhersla á stuðning og eftirfylgd ef sjálfsvíg hefur orðið.

PIETA Ísland mun í framtíðinni bjóða upp á ókeypis aðgengilega þjónustu. Einstaklingar sem munu þurfa aðstoð eiga kost á að fá þjónustu innan 24 stunda frá því að haft var samband.

Joan Freeman, CEO Pieta House

Joan Freeman, stofnandi PIETA House á Írlandi.

Í tilefni af stofnun PIETA Ísland kemur Joan Freeman, stofnandi PIETA House á Írlandi til landsins og mun flytja erindi á ráðstefnu í HR nk. mánudag 25. janúar kl. 13.30-15. Það er mikill fengur að fá Joan til landsins en hún mun styðja við stofnun samtakanna hérlendis.

Fjölmiðlafólki er sérstaklega boðið á ráðstefnuna en Joan Freeman og stofnendur samtakanna á Íslandi verða til viðtals við fjölmiðlafólk frá kl. 10-12 á mánudagsmorguninn.

Ennfremur er fjölmiðlafólki boðið upp á viðtal við Joan Freeman föstudaginn 22. janúar kl. 13:30-14:30.

Nákvæmar upplýsingar um starfsemi PIETA house á Írlandi má finna á heimasíðu samtakanna: www.pieta.ie.

Frekari upplýsingar veitir: Sigrún Halla Tryggvadóttir, s: 8686797 eða Jóhanna María Eyjólfsdóttir, s: 694 1313.

 

Stjórn og varastjórn PIETA Ísland skipa eftirfarandi aðilar:

Jóhanna María Eyjólfsdóttir, formaður
Auður Axelsdóttir
Benedikt Þór Guðmundsson
Sr. Bjarni Karlsson
Björk Jónsdóttir
Ellen Kristjánsdóttir
Lára Björnsdóttir
Sigrún Halla Tryggvadóttir
Snædís Ögn Flosadóttir