Skip to main content
Fréttir

Öflugt starf fyrir ungt fólk í Borgartúni 22

By febrúar 20, 2018febrúar 22nd, 2018No Comments
Auður Axelsdóttir og Svava Arnardóttir hjá Hugarafli segja að starfsmenn ...

Auður Ax­els­dótt­ir og Svava Arn­ar­dótt­ir hjá Hug­arafli segja að starfs­menn þar séu til staðar og styðji fólk sem til þeirra leit­ar. mbl.is/​Hari

Um 900 manns nýttu sér þjón­ustu Hug­arafls í fyrra og á hverj­um degi koma á milli 50 til 60 manns til þeirra í Borg­ar­túni. Á síðasta ári bætt­ust 143 ein­stak­ling­ar nýir í hóp­inn, 44% þeirra er á aldr­in­um 18-30 ára. Kon­ur eru í meiri­hluta þeirra sem sækja þjón­ustu Hug­arafls.

Hug­arafl var stofnað fyr­ir fimmtán árum af iðjuþjálfa með víðtæka reynslu af geðheil­brigðismál­um og fjór­um not­end­um í bata en not­end­ur eru þeir sem hafa átt eða eiga við geðræna erfiðleika að stríða.

Ákvörðun sem kem­ur frá heilsu­gæsl­unni

Auður Ax­els­dótt­ir er iðjuþjálfi og for­stöðukona geðheilsu-eft­ir­fylgd­ar (GET) og einn af stofn­end­um Hug­arafls. Til stend­ur að leggja niður fag­teymi GET að sögn Auðar.

GET og Hug­arafl hafa frá upp­hafi unnið í nánu sam­starfi. Hjá GET starfa sál­fræðing­ar, iðjuþjálfi, fé­lags­ráðgjafi og jóga­kenn­ari og á að vera búið að loka þeirri þjón­ustu í sept­em­ber.

Þau hafi fengið þau svör hjá heil­brigðisráðherra, Svandísi Svavars­dótt­ur, að heilsu­gæsl­an hafi fengið það verk­efni að vinna sam­kvæmt geðheil­brigðisáætl­un Alþing­is sem meðal ann­ars legg­ur áherslu á fjölg­un teyma.

Að sögn Auðar er hvergi kveðið á um að leggja eigi GET niður og þau skilji eng­an veg­inn hvers vegna eigi að gera það á sama tíma og auka eigi áherslu á geðheil­brigðismál. Ákvörðunin komi frá heilsu­gæsl­unni en stofna á þrjú ný teymi á höfuðborg­ar­svæðinu í staðinn.

„Við fáum eig­in­lega eng­ar skýr­ing­ar á því hvers vegna valið er að leggja niður GET. Hug­arafl hef­ur allt frá upp­hafi verið grasrót­ar­sam­tök sem hafa unnið við hlið heilsu­gæsl­unn­ar sem þýðir í raun og veru að þeir sem hingað koma geta bæði hitt fag­fólk og fólk sem er að vinna í sín­um bata. Er jafn­vel búið að ná bata og vill gefa til baka. Okk­ur hef­ur þótt þetta passa vel sam­an og erum þess vegna afar sorg­mædd yfir þess­ari ákvörðun að ýta þessu teymi út af borðinu.

Heilsu­gæsl­an skýl­ir sér á bak við aðgerðaráætl­un Alþing­is sem er bara ekki rétt því aðgerðaráætl­un Alþing­is bygg­ir á því að fjölga teym­um og þá er mik­il mót­sögn í því að leggja niður það teymi sem er með mestu reynsl­una og hef­ur náð ár­angri.

Hvað varðar ungt fólk þá er þetta í hróp­legri and­sögn við það sem Sam­einuðu þjóðirn­ar og Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in tala fyr­ir – að minnka kerf­in og auka sam­starf. Auka áherslu á starf fé­laga­sam­taka og hættið að vera svona köld og stofnana­leg þegar kem­ur að geðheil­brigðismál­um. Þetta er ná­kvæm­lega það sem við erum að gera hér,“ seg­ir Auður.

Á hverjum degi koma milli 50 og 60 manns til ...

Á hverj­um degi koma milli 50 og 60 manns til Hug­arafls í Borg­ar­túni. Flest­ir þeirra sem komu í fyrsta skipti í fyrra var fólk yngri en þrítugt. mbl.is/​Hari

Í sept­em­ber 2016 var gerður samn­ing­ur við Vinnu­mála­stofn­un um að Hug­arafl veiti starf­send­ur­hæf­ingu sem bygg­ir á reynslu fólks með geðræna erfiðleika sem hafa náð bata og fag­fólks sem hef­ur ára­langa reynslu af geðsviði. Svava Arn­ar­dótt­ir, iðjuþjálfi hjá Hug­arafli, starfar á veg­um þess samn­ings sem hef­ur verið fram­lengd­ur til tveggja ára.

„Unga fólkið er að fá gott ut­an­um­hald hjá okk­ur og það sæk­ir hingað sem þýðir það að það er í sam­fé­lagi sem því líður vel í. Þau sem nýta sér okk­ar þjón­ustu fara aft­ur í skól­ann sinn eða vinn­una þegar þau eru reiðubú­in til þess. Geta haldið í okk­ur í öll­um þess­um skref­um í átt að bata. Við erum í raun að grípa þau sem þurfa á aðstoð að halda og okk­ar mat er að fólk á aldr­in­um 18-24 ára sé ekki nægj­an­lega vel sinnt í í full­orðins­geðheil­brigðis­kerf­inu Í dag þar sem kerfið vill sjúk­dóms­greina og stimpla til­finn­ing­ar og hegðun. Það er mik­il­vægt að ná til ung­menna sem fyrst og veita þeim vett­vang til að ræða líðan án þess að von og framtíð sé tek­in af þeim,“ seg­ir Svava og bæt­ir við að fólk nái bata þrátt fyr­ir að aðstæður virki stund­um von­laus­ar í nú­inu.

Svava Arnardóttir segir að gríðarlega miklar kröfur séu gerðar til ...

Svava Arn­ar­dótt­ir seg­ir að gríðarlega mikl­ar kröf­ur séu gerðar til ungs fólks í dag og mennta­kerfið vilji steypa alla í sama mótið. mbl.is/​Hari

„Þessi hóp­ur á alls ekki all­ur heima inni á geðdeild auk þess sem það er ekki pláss fyr­ir hann þar. Í raun á helst ekki að þurfa að leggja fólk inn á geðdeild á þess­um aldri nema þau kjósi sér­stak­lega að leggj­ast inn vegna sjálfsskaða- eða sjálfs­vígs­hugs­ana. Við finn­um það líka á okk­ar skjól­stæðing­um að það get­ur verið erfitt að stíga skrefið frá barna- og ung­linga­geðdeild­inni (BUGL) yfir á al­menna geðdeild,“ seg­ir Auður.

Hún seg­ir að þau þurfi úrræði þar sem þau geta unnið í sín­um mál­um með aðstoð og á þeim hraða sem þeim hent­ar. „Ég hef áhyggj­ur af því að ungu fólki sé ekki gef­inn sá tími sem það þarf á að halda og þar er ég til dæm­is að tala um ungt fólk sem hef­ur ít­rekað dottið út úr skóla. Kannski er það bara meiri tími sem þau þurfa til að ná átt­um, 1-2 ár í end­ur­hæf­ingu til að ráða við verk­efni sem þeim eru sett í líf­inu. Gef­um fólki tíma og þá nær það sér og fer aft­ur út í sam­fé­lagið,“ seg­ir Auður.

Væri gott að snúa kerf­inu á hvolf

Svava tek­ur und­ir þetta og seg­ir gríðarlega mikl­ar kröf­ur gerðar til ungs fólks í dag. Fram­halds­skól­inn hef­ur verið stytt­ur í þrjú ár og á sama tíma eiga þau að standa sig vel í íþrótt­um, tónlist og já öllu, seg­ir hún. „Mennta­kerfið virðist vilja steypa alla í sama mótið í stað þess að fagna fjöl­breyti­leika og nýta styrk­leika og áhuga­svið hvers og eins,“ seg­ir Svava.

Auður og Svava segja að það væri gott ef heil­brigðis- og fé­lags­kerf­inu væri snúið á hvolf og ungu fólki gefið færi á að vera alltaf við stjórn­völ­inn í eig­in lífi. Þar sem það fengi all­ar upp­lýs­ing­ar um val­kosti og fengi vald til að taka upp­lýst­ar ákv­arðanir um eigið líf. Þar sem skila­boðin eru að þau séu ekki sjúk­ling­ar þrátt fyr­ir að þau séu tíma­bundið að ganga í gegn­um van­líðan sem get­ur tekið frá þeim von. Öðru­vísi skil­ar þessi hóp­ur sér ekki aft­ur út í lífið.

„Fólk er vant því að þiggja þjón­ustu og fara eft­ir fyr­ir­mæl­um og ein­hver ann­ar er með lausn­ina fyr­ir þig. Þetta er ekki að skila fólki aft­ur út í lífið. „Það er svo mik­il­vægt að viðkom­andi fái tíma til að grufla og finna út úr því hvað henti. Ekki það að ein­hver sem er kannski eldri en þú seg­ir þér hvað sé rétt fyr­ir þig,“ seg­ir Svava þegar rætt var um viðhorfs­breyt­ingu frá hlut­verki sjúk­lings yfir í ein­stak­lings­nálg­un byggða á vald­efl­ingu.

Hjá Hug­arafli er fólk á jafn­ingja­grunni og skjól­stæðing­ur­inn er sá sem þekk­ir sig best og er best til þess fall­inn að stjórna ferðinni. Hann finn­ur lausn­ina fyr­ir sig sjálf­ur með aðstoð annarra,“ seg­ir Svava.

„Við erum hér til staðar og styðjum viðkom­andi ef hann vill. Hvort held­ur sem það er sam­tal við fagaðila eða aðra mann­eskju sem hef­ur reynslu til að vinna úr því sem hann er að ganga í gegn­um. Það er eitt­hvað sem mann­eskj­an finn­ur út sjálf. Þetta er hluti af töfr­un­um hjá okk­ur, hvers vegna svo mikið af ungu fólki kem­ur til okk­ur og hvers vegna það íleng­ist. Við veit­um þeim fullt af tæki­fær­um sem ekki eru í boði ann­ars staðar. Það er ekki þannig að þú sért veik­ur og við ætl­um að minnka kröf­urn­ar til þín og gera allt viðráðan­legra fyr­ir þig. Við vilj­um ýta und­ir drauma þína og að þú ert að fara aft­ur út í lífið. Það held ég að skipti miklu máli,“ seg­ir Svava.

Starf Svövu miðar að því að styðja við fólk í end­ur­hæf­ingu og hjálpa því við að kom­ast aft­ur út í lífið. „Hér hafa ein­stak­ling­ar farið aft­ur út í skól­ann eða vinn­una með aðstoð og stuðningi hér hjá okk­ur í Hug­arafli. Ég er þeim inn­an hand­ar áfram eft­ir að viðkom­andi er far­inn af stað aft­ur, til að mynda fólk sem hef­ur verið ör­yrkj­ar lengi en eru farn­ir í fullt há­skóla­nám,“ seg­ir hún.

Auður seg­ir mik­il­vægt að fólki viti að það geti alltaf leitað til Svövu og annarra fyr­ir­mynda sem eru hjá Hug­arafli. Til að mynda fólki sem er búið að ná bata. Að ungt fólk geri sér grein fyr­ir því að bati er ekk­ert óraun­hæft mark­mið.

Hindr­an­ir sem drepa niður von

„Ég held að við séum svo­lítið að senda þau skila­boð í kerf­inu eins og það er í dag, að þetta sé sjúk­dóm­ur sem sé kom­inn til að vera. Kerfið mæt­ir mörg­um með hindr­un­um, óþarfa flösku­háls­um og biðlist­um. Þetta drep­ur niður von, drif­kraft og frum­kvæði. Svo erum við hissa að fólk skili sér ekki aft­ur út í lífið,“ seg­ir Svava. „Von­in er það sem skil­ar manni áfram í sjálfs­vinnu og það er hún sem ger­ir manni kleift að ná bata,“ bæt­ir hún við.

Fólk sem kem­ur til Hug­arafls get­ur komið þangað án nokk­urr­ar til­vís­un­ar og þjón­ust­an er án end­ur­gjalds. Marg­ir not­end­ur eru á end­ur­hæf­ing­ar­líf­eyri á sama tíma og nýt­ir þann tíma sem það fær á slík­um líf­eyri, mest 36 mánuðir, til að byggja sig upp og fara út í lífið án þess að þurfa að fá ör­orku­bæt­ur. Oft skipt­ir mestu að vera í sam­bandi við aðra og hitta fólk sem er að fást við sömu hluti. Að upp­lifa að vera ekki einn á báti, seg­ir Auður.

„Við erum búin að búa til kerfi sem miðar að ...

„Við erum búin að búa til kerfi sem miðar að því að setja alla í ein­hver fyr­ir­fram­gef­in box – box sem við búum til í stað þess að fagna fjöl­breyti­leik­an­um.“ mbl.is/​Hari

Í geðfræðslu Hug­arafls er fólk sem hef­ur náð bata hjá Hug­arafli og fer inn í bekki í grunn- og fram­halds­skóla til að segja sögu sína, opna umræðu um geðheilsu og eyða for­dóm­um.

Í hverj­um bekk megi gera ráð fyr­ir að tveim­ur til þrem­ur líði ekki nógu vel og þeir kveikja oft á per­unni þegar þeir heyra sög­ur þeirra sem eru með geðfræðsluna. Hvað valdi van­líðan þeirra og að mögu­legt sé að grípa strax inn á þess­um jafn­ingja­grunni, seg­ir Auður.

Á sama tíma og búið er að opna umræðuna um geðræna erfiðleika, svo sem kvíða og þung­lyndi, þá er líka verið að stimpla það inn hjá ungu fólki að það sé komið með sjúk­dóm sem fylgi því alla ævi. „Þetta geta verið viðbrögð við ein­hverju sem þú hef­ur gengið í geng­um og ekk­ert endi­lega eitt­hvað sem þú átt eft­ir að glíma við alla ævi. Kannski er þetta bara tíma­bil í lífi þínu. Ég held að kerfið vilji setja fólk í box en við eig­um ekki að krefjast þess að all­ir séu með ein­hvern stimp­il held­ur eigi frek­ar rétt á aðstoð,“ seg­ir Svava og bæt­ir við að veita eigi aðstoð án þess að þeir sem fái aðstoðina þurfi endi­lega að fá grein­ingu til þess að fá hjálp.

„Við erum búin að búa til kerfi sem miðar að því að setja alla í ein­hver fyr­ir­fram­gef­in box – box sem við búum til í stað þess að fagna fjöl­breyti­leik­an­um,“ seg­ir hún.

Auður seg­ir að áður hafi verið talið að grein­ing­ar myndu minnka for­dóma en það sé ekki þannig og þrátt fyr­ir að fá grein­ingu er ekk­ert víst að þú fáir þjón­ust­una.

„Pen­ing­arn­ir til að veita aðstoð eru til og það er verið að setja fullt af pen­ing­um inn í vel­ferðar­kerfið en kannski ekki í rétt­an far­veg. Til að mynda ætti að fjár­magna úrræði sem grípa þig strax í stað þess að bíða þangað til fólk er orðið of veikt. Við sjá­um að ungt fólk sæk­ir í miklu meira mæli hingað og við sjá­um ekki hvernig við eig­um vegna fjár­skorts að veita öll­um þá hjálp sem þeir þurfa. Þarna er verið að fórna meiri hags­mun­um fyr­ir minni. Sam­fé­lagsþjón­usta sem vinn­ur for­varn­ar­starf sem er svo mik­il­vægt. Þjón­ust­an er ódýr en því miður virðast stjórn­mála­menn ekki gera sér grein fyr­ir því. Starf­semi Hug­arafls er að skila góðum ár­angri og hvers vegna er verið að leggja slíka þjón­ustu niður?“ spyr Auður en eins og áður sagði er stefnt að því að leggja GET-hluta Hug­arafls niður í sept­em­ber.

Umfjöllun um Hugarafl er hluti af greinarflokki um geðheilbrigðismál ungs fólks á mbl.is