Skip to main content
Greinar

Minning 1

By desember 17, 2013No Comments

Hallgrímur Björgvinsson, einn af stofnendum Hugarafls er fallinn frá, 34 ára að aldri.Fyrir hönd aðstandenda er þeim sem vilja minnast hans er bent á Hugarafl kt.460204-2240, reikningsnúmer 0303-13-000429.

Fráfall Hallgríms er mikill missir fyrir aðstandendur hans og vini, Hugaraflsfélaga og alla aðra sem létu sér málaflokk einstaklinga með geðraskanir varða.

Hallgrímur var hugsjónamaður og brautryðjandi. Hann stofnaði ásamt vinum sínum Hugarafl 5.júní 2003. Hugarafl lagði af stað með þá hugsjón að efla áhrif einstaklinga með geðraskanir á geðheilbrigðisþjónustuna, nær sem fjær. Einnig hafði félagið frá upphafi það að markmiði að efla þekkingu landsmanna á geðröskunum og bataferli, vildi breyta áherslum í geðheilbrigðiskerfinu og efla virðingu í nálgun og allri meðferð geðsjúkra. Hallgrímur gafst aldrei uppá að fræða aðra um geðheilsuna, mikilvægi þess að trúa á vonina, eigin bjargráð og tækifæri. Með sinni einstöku frásagnargleði dýpkaði hann skilning margra notenda, aðstandenda og fagfólks á völundarhúsi geðraskana og mikilvægi þess að manneskjan gæti haldið reisn og sjálfstæði þrátt fyrir erfiða og á stundum vonlitla baráttu. Hann kenndi okkur að það væri alltaf von, að það væri hægt að ná bata og að það myndi birta til. Hallgrímur lagði áherslu á að allir væru jafnir og að öllum ætti að gefast tækifæri til að öðlast lífshamingju með öllum mögulegum ráðum.

Hallgrímur tók þátt í mörgum verkefnum sem stuðluðu að breyttum viðhorfum almennings og fagfólks á geðröskunum. Má þar helst nefna Geðfræðslu Hugarafls sem stuðlar að aukinni þekkingu grunn- og menntaskólanema á mikilvægi geðheilsu, eflir sjálfsbjargarviðleitni ungmenna og minnkar fordóma. Hann fékk ungmenni og aðra til að skilja að tilfinningar væru eins og hvert annað viðfangsefni sem bæri að virða og hlusta á á hverjum tíma. Hann fræddi lækna- og iðjuþjálfanema um reynslu sína, þjálfaði nema í iðjuþjálfun á vettvangi og var ávallt tilbúinn að gefa af sér öðrum til gagns og gamans. Hann var um tíma liðsmaður hjá Félagsþjónustunni og Samherji á vegum Hugarafls fyrir nokkra einstaklinga. Hann sýndi þeim einstaka nálgun sem byggði fyrst og fremst á kærleik og umburðarlyndi. Hallgrímur starfaði hjá Hlutverkasetri við úttekt á þjónustu við geðsjúka í búsetukjörnum. Hann lagði sig fram um að mæta hverjum og einum einstaklingi á eigin forsendum. Hallgrímur kom oft fram opinberlega og breytti sýn og viðhorfum almennings til geðsjúkdóma. Hér er aðeins fátt eitt upp talið.

Undanfarin 3 ár hefur verið unnið að heimildarmynd um lífshlaup Hallgríms. Þar var fylgst með honum í starfi og leik, áherslum hans og lífssýn, sambandi hans við fjölskyldu sína og vini. Hallgrímur gefur þar ótrúlega einlæga og mikilvæga innsýn inní líf sitt þar sem skiptust á skin og skúrir. Hann reyndi ávallt að læra af öllum aðstæðum sem upp komu og gat á ótrúlegan hátt skoðað allar hliðar á dagsins önnum og tilgangi lífsins. Myndin verður sýnd almenningi á næstunni og mun verða okkur öllum dýrmæt minning um góðan dreng og mikilvægan boðskap hans til lífsins og tilverunnar. Hans verður sárt saknað.

Við sendum foreldrum og bræðrum Hallgríms, ásamt öðrum aðstandendum og vinum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Hugarafls.

Auður Axelsdóttir