Skip to main content
Fréttir

Lífstílshópur Hugarafls

By janúar 29, 2016No Comments

Margir kannast við það að setja sér áramótaheit.  Það á að taka á því í ræktinni, hætta í skyndibitanum og borða í staðinn hollt.  En svo kemur vika tvö í lífstílsátakinu og áramótaheitin fyrir 2016 færast yfir á 2017.  Ástæðan er einföld.  Það er ekki auðvelt að breyta um lífstíl.  Og í nútíma auglýsingasamfélagi er líka alls ekki einfalt að átta sig á því hvað er í rauninni hollt og heilbrigt.  Kúrar og átök koma og fara og allir þykjast hafa fullkomna lausn. Það er auðvelt að týnast í þessu öllu saman og gefast svo upp þegar árangurinn er ekki nákvæmlega eins og til var ætlast.

live-1003646_960_720

Mynd: Pixabay.com. Public Domain

Meðlimir í Hugarafli kannast ágætlega við þessa „áramótaheita-röskun“ og hafa því stofnað lífstílshóp sem er opinn konum og körlum í Hugarafli.  Driffjöðurinn að stofnun hópsins er Fjóla Kristín Ólafardóttir sem hefur verið mjög virk í starfi félagsins á undanförnum mánuðum.  Fjóla er mjög hreinskilin og opin um sína fortíð og reynslu sem hún hefur meðal annars deilt í geðfræðslunni í grunnskólum á Reykjavíkursvæðinu.  Eftir áramótin ákvað hún að ganga skrefinu lengra.  Hún hefur í gegnum tíðina tekið eftir því að það er mikil þörf fyrir stuðningshóp fyrir fólk  með andleg veikindi og á í basli við að hefja nýjan lífstíl, er að glíma við ofþyngd, á erfitt með að næra sig betur eða veit ekki hvernig á að næra sig betur, er byrjað í ræktinni eða annarri hreyfingu, eða komið aðeins áfram í nýjum lífstíl og þarf pepp og stuðning frá fólki sem getur sagt „ég skil“ og virkilega skilið!

Fjóla hefur brennandi áhuga á þessum málum og langar að læra einkaþjálfun og vinna meira með þessi hluti í framtíðinni.  Sjálf hefur hún mikla lífsmenntun fram að færa, var næstum 140kg en er búin að missa rúm 60kg, með óvirkan skjaldkirtil, í basli með hausinn hvern einasta dag og er enn að læra að gera betur með mat og hreyfingu.  Að sögn segist hún sjálf þurfa svona pepphóp og hefur heyrt í fleirum sem segjast virkilega þurfa á þessu að halda.

Hópurinn fór vel af stað og á síðasta fundi var meðal annars rætt um að viðurkenna hlutina eins og þeir eru og vera heiðarlegur þegar kemur að því að ræða málin.  Breyttur lífstíll snýst nefnilega um miklu meira en bara kíló og kaloríur.  Hugmyndin er að vera með vikulega fundi þar sem meðlimir setja sér markmið, deila reynslu sinni og styðja hvern annan í að taka þessi skref.  En fyrst og fremst snýst þetta um að eiga einhverja að sem að skilja það hvernig það er að vera of þungur eða léttur og eru að glíma við hausinn á sér í leiðinni.

Næst á að hittast mánudaginn 1. febrúar klukkan 11:00 en eins og áður segir eru allir Hugaraflsmeðlimir velkomnir sem hafa áhuga á að vinna að og fræðast um bættan lífstíl.