Skip to main content
Greinar

Hvernig ertu af geðhvarfasýkinni? e. Hildi Eir Bolladóttur

By september 17, 2013No Comments
Hildur Eir Bolladóttir. Mynd: Guðrún Hrönn

Hildur Eir Bolladóttir. Mynd: Guðrún Hrönn

Eftir að pabbi var orðinn veikur af heilabilun fórum við fjölskyldan eitt sinn með honum á kaffihús í Reykjavík enda var sælkerinn seint frá honum tekinn þó minni og tjáning og hreyfigeta væru ekki eins og best verður á kosið.Pabba fannst alltaf svo gott að borða góðar tertur og drekka lútsterkt kaffi og ekki þótti honum síðra að njóta slíkra lystisemda með nánustu fjölskyldu, fólkinu sem elskaði hann bara fyrir það eitt að vera til. Þá sat hann þögull og hlustaði á skvaldrið í okkur og kímdi þegar hlátrasköllinn og vitleysisgangurinn var kominn yfir „eðlileg“ mörk, hann þekkti sitt fólk af andrúmsloftinu þó nöfnin væru farin að skolast til. Óöryggi er eitt af einkennum þessa sjúkdóms sérstaklega á fyrstu stigum þegar sjúklingurinn áttar sig enn á ástandi sínu, þá skiptir mjög miklu máli hvernig honum er mætt. Verst er að láta hann geta í eyðurnar og spyrja hvort hann þekki ekki örugglega þann sem heilsar, betra er að kynna sig strax og ganga ekki út frá því sem gefnu að sjúklingurinn þekki náungann. Það er eiginlega fátt verra en að núa sjúklingnum því um nasir að hann sé farin að gleyma og tapa áttum. Oftast gerir fólk þetta ómeðvitað og ætlar sér auðvitað ekkert illt. Sumir velja síðan að ávarpa hinn veika bara alls ekki neitt og beina öllum spurningum til aðstandenda, tala um hinn veika í þriðju persónu en af tvennu illu er það nú sennilega verra. En aftur að kaffihúsaferðinni þegar við gengum inn á kaffihúsið þennan dag mættum við kunningja okkar og pabba sem hefur lengi glímt við geðhvarfasýki, hann gekk á móti okkur tók utan um pabba og sagði „sæll Bolli minn, gott að sjá þig, hvernig ertu af heilabiluninni?“ Það er ekki oft sem slær þögn á okkur systkinin en það gerðist þó á þessari stundu, við horfðum á mennina tvo til skiptis og biðum eftir viðbrögðum föður okkar sem hafði nú frekar tilhneigingu til að verða óöruggur þegar fólki utan fjölskyldunnar ávarpaði hann í veikindum hans. En þarna gerðist eitthvað nýtt, um leið og maðurinn hafði varpað fram spurningunni var eins og pabbi slakaði á og allt í einu voru þessir tveir menn farnir að ræða heilabilun og geðhvarfasýki eins og íslenska veðráttu eða verðbólgu eða eitthvað sem getur verið mjög hvimleitt en maður neyðist til að sætta sig við. Svo tók kunningin að segja pabba frá ógleymanlega klaufalegum athugasemdum og ráðleggingum og viðbrögðum fólks sem hann hefði mætt og meðtekið í gegnum árin, rétt eins og veikindi hans væru komin frá plánetunni Mars og enginn gæti talað við þessa grænu geimveru. Ég gleymi aldrei þessari stund vegna þess að þarna skildi ég betur það sem Jesús gerði þegar hann mætti veiku fólki, hann ávarpaði sjúkdóma eins og þeir væru sjálfstæður veruleiki eða óþolandi boðflennur í góðu partýi og þetta gerði líka maðurinn sem við mættum þennan dag. Þegar við ávörpum sjúkdóma erum við um leið að undirstrika að hinn veiki beri ekki ábyrgð á því að vera veikur, þegar við hvíslum í kringum sjúkdóma eða hreinlega þegjum, þá ýtum við undir skömm þess veika og ómeðvitað fyllum við hann sektarkennd yfir ástandi sínu, það er það versta sem veik manneskja getur upplifað. Það er í grunninn það sem kemur í veg fyrir að fólk með andlega sjúkdóma leiti sér hjálpar og læri að lifa með sjúkdómi sínum sem er svo sannarlega hægt rétt eins með önnur veikindi. Nú stendur yfir átakið „Á allra vörum“ og í ár beinir það sjónum sínum að geðheilbrigðismálum, í ár er safnað fyrir nýrri geðgjörgæsludeild á Landsspítalanum, þessi pistill er skrifaður til heiðurs þessu frábæra framtaki. Takk fyrir það.

Dag einn munum við svo kannski mæta hvert öðru á götu og spyrja, „ hvernig ertu af gigtinni gamla“? „bara svona ágæt“ „ en segðu mér hvernig ert þú af geðhvarfasýkinni“?

Hildur Eir Bolladóttir