Skip to main content
Fréttir

Hvað er meðvirkni?

By febrúar 15, 2016No Comments

JPV223153Meðlimir í Hugarafli eru með leshóp um meðvirkni á mánudögum klukkan 10:30 – 12:00.  í hvert skipti er tekinn fyrir stuttur kafli úr bók hjúkrunarfræðingsins Piu Mellody um meðvirkni.  Mellody hefur starfað sem meðferðaraðili í yfir 20 ár og heldur því fram að meinið dafni í menningu okkar og að enn séum við svo stutt á veg komin að flestir meðferðaraðilar hafi hvorki getu né kunnáttu til þess að tala um eða fást við meðvirknieinkennin.  Hún kýs að nota enska hugtakið „disease“ til að lýsa meðvirkninni. Meðvirkni sé samt ekki ekki veikindi í líkingu við flensu eða niðurgang, heldur mun frekar eins og sykursýki. Lækningin er ekki fljótvirk heldur þarf hinn meðvirki stöðugt að viðhalda bata sínum eins og hinn sykursjúki.

Auk leshópsins er líka rætt mikið um meðvirkni og áhrif hennar á líf okkar í tveimur grúppum sem eru á föstudögum frá klukkan 13:00 til 15:00.  Grúppurnar eru kynjaskiptar þar sem Hildur Vera Sæmundsdóttir, jógakennari og dáleiðsluþerapisti og Bjarni Þórarinsson, ráðgjari sjá um að leiða umræðuna.

En hvað er meðvirkni?  Í eftirfarandi texta sem er á heimasíðu Lausnarinnar, fjölskyldumiðstöðvar er að finna þessa lýsingu:

Meðvirkni er sjúkleiki sem tærir upp sál okkar. Hann hefur áhrif á allt okkar líf, fjölskyldur okkar, börn, vini, skyldmenni; fyrirtæki okkar og frama; heilsu og andlegan þroska.  Hann er hamlandi og ómeðhöndlaður hefur hann eyðileggjandi áhrif á okkur sjálf og aðra enn frekar. Mörg okkar enda í þeirri aðstöðu að þurfa að leita til annarra eftir hjálp.

Meðvirkni:  Háttarlag þar sem manneskja stjórnar eða tekur ábyrgð á gjörðum annarra og hjálpar viðkomandi að forðast það að takast á við vandamálið á beinan hátt, gert til að viðhalda stöðugleika í samskiptum fjölskyldunnar.  Meðvirkni byrjar sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.  Skilgreining á meðvirkni:  Samansafn viðhorfa, viðbragða og tilfinninga, sem gera lífið sáraukafullt. Meðvirkni einkennir þá sem eru í tilfinningarsambandi við áfengissjúkling, fjárhættuspilara, ofátsfíkil, glæpamenn, kynlífsfíkil, uppreisnargjarnan táning, taugaveiklað foreldri, annan meðvirkil eða einhver blanda af ofanskráðu.  Meðvirkur einstaklingur hefur lært ákveðið hegðunarmynstur og aðlagað sig að þeim aðstæðum sem hann býr við.  Með því t.d. að reyna að stjórna eða taka ekki ábyrgð á ástandinu og þar með kemur sér ekki út úr sjúklegum aðstæðum heldur aðlagar hann sig að þeim.   Meðvirknin er í raun leið til að skilgreina sig í gegnum aðra.

Ef til vill kannast þú við þessar hugsanir…

“Ef hann/hún myndi bara gera eitthvað í sínum málim.”
“Ef hann/hún breyttist myndi allt vera í lagi.”
“Ég ræð ekki við þennan sársauka, þetta fólk og þessar aðstæður.”
“Það er allt mér að kenna.”
“Ég er alltaf að lenda í sömu slæmu samböndunum.”
“Ég finn fyrir tómleika og finnst ég vera týnd/ur.”
“Ég veit ekki hvernig mér líður”
“Hver er ég?”

“Hvað er eiginlega að mér?”

Einkenni meðvirkni. (Tekið af heimasíðu Coda samtakanna www.coda.is)

Afneitun:

 • Ég á erfitt með að gera mér grein fyrir því hvernig mér líður.
 • Ég geri lítið úr, breyti eða afneita því hvernig mér líður.
 • Mér finnst ég algjörlega óeigingjarn og einarðlega helgaður velferð annarra.

Lítil sjálfsvirðing:

 • Ég á erfitt með að taka ákvarðanir.
 • Ég dæmi allt sem ég hugsa, segi og geri harðlega og finnst það aldrei nógu gott.
 • Ég fer hjá mér þegar ég fæ viðurkenningu, hrós eða gjafir.
 • Ég bið aðra ekki um að mæta þörfum mínum eða þrám.
 • Ég tek álit annarra á hugsunum mínum, tilfinningum og hegðun fram yfir mitt eigið.
 • Mér finnst ég ekki vera manneskja sem hægt er að elska og virða.

Undanlátssemi:

 • Ég breyti gildum mínum og heilindum til þess að forðast höfnun eða reiði annara.
 • Ég er næmur fyrir því hvernig öðrum líður og mér líður eins og þeim.
 • Ég er fram úr hófi trúr fólki og kem mér því ekki nógu fljótt úr skaðlegum aðstæðum.
 • Ég met skoðanir og tilfinningar annarra meir en mínar eigin og er hræddur við að láta álit mitt í ljós ef ég er ósammála einhverju.
 • Ég set áhugamál mín og tómstundir til hliðar til þess að gera það sem aðrir vilja.
 • Ég sætti mig við kynlíf þegar ég vil ást.

Stjórnsemi:

 • Mér finnst annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft.
 • Ég reyni að sannfæra aðra um það hvað þeim “á” að finnast og hvernig þeim líður í „raun og veru“.
 • Ég fyllist gremju þegar aðrir leyfa mér ekki að hjálpa sér.
 • Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurður.
 • Ég helli gjöfum og greiðum yfir þá sem mér þykir vænt um.
 • Ég nota kynlíf til þess að öðlast viðurkenningu.
 • Fólk verður að þurfa á mér að halda til þess að ég geti átt í sambandi við það.

Það sem fær okkur til að leita aðstoðar eru miklir erfiðleikar eða áföll eins og hjónaskilnaður, sambandsslit, fangelsisvist, sjúkdómar eða sjálfsmorðstilraun. Sum okkar eru þreytt, örvæntingarfull eða brunnin upp. Við þráum breytingu og það strax. Við viljum losna við eymdina. Okkur langar til að vera ánægð með sjálf okkur og lífsfyllingu. Við viljum heilbrigð og farsæl sambönd.
Ef þú kannast við einhverja þessara hugsana, þá ert þú ekki ein/n.  Mörg okkar höfum upplifað mikla depurð, kvíða, örvæntingu og þunglyndi og við höfum breytt um stefnu, leitað hvert til annars og til æðri máttar – til að öðlast andlegt heilbrigði.