Skip to main content
Fréttir

Húsdýragarðurinn á Hraðastöðum heimsóttur á hvítasunnu

By maí 17, 2016No Comments

29-IMG_5737Hugaraflsfólk stytti langa hvítasunnuhelgi með því að bregða sér í sveitaferð að Hraðastöðum í Mosfellsveit.  Alls mættu um 30 manns í ferðina sem farin var á laugardaginn.  Á Hraðastöðum er fjölbreytt dýralíf svo vægt sé til orða tekið.  Á móti okkur tóku kindur með nýborin lömb, kisa með splunkunýja kettlinga, hestar, geitur, kanínur, hænur og dúfur svo eitthvað sé nefnt.  Refir eru vanalega ekki taldir til húsdýra, en láfótan hún Móeiður kærir sig kollótta um alla merkimiða og tók vel á móti Hugaraflsfólki.  Það skemmdi heldur ekki fyrir gestrisninni þegar gestirnir mættu með fullan svartan ruslapoka af gómsætu brauði líkt og við gerðum, svo ekki sé minnst á vínberin sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá Móeiði.

Mannfólkið fékk líka í gogginn enda góð aðstaða á Hraðastöðum til þess að setjast niður og borða nesti.  Margir tóku með sér pylsur sem við grilluðum og aðrir fengu sér hamborgara í sveitasælunni.  Það var að heyra á ferðalöngum að þeir væru ánægðir með ferðina og því má reikna með, að sveitaferð að Hraðastöðum verði gerð að árlegum viðburði í Hugarafli 🙂