Skip to main content
Fréttir

Hugaraflsfundur í Grasagarðinum í dag.

By júlí 31, 2019No Comments

Hugaraflsfundur var haldinn í Grasagarðinum í dag. Okkur þykir það við hæfi að minnst einu sinni á sumri sé Grasagarðurinn heimsóttur. Þar liggja jú ræturnar, Hugarafl var stofnað í Grasagarðinum, nánar tiltekið á Kaffi Flóru. Í byrjun bauð fundarstjóri fundarmönnum að rifja upp sinn fyrsta Hugaraflsfund. Þegar kom að einum stofnenda Hugarfls, Auði Axelsdóttur, nýtti hún tækifærið til að segja frá stofnun samtakanna og markmiðum. Hún rifjaði upp að það var eftirvænting á þessum tíma eftir nýjum áherslum í geðheilbrigðismálum. Hugarafl varð fljótt sýnilegt og það var eins og almenningur/fagfólk/pólitíkusar biðu eftir nýjum straumum inn í geðheilbrigðismálin. Sem Hugarafl sannarlega reyndist koma með og hlaut fljótt brautargengi. Stofnendur Hugarafls höfðu unnið saman áður og vissu að þau gátu unnið saman og ýtt nýrri hugmyndafræði úr vör, valdeflingunni og batamódelinu. Auður bar þetta saman við landslagið í dag sem raunar virðist frekar lokað fyrir Hugarafli en fundarmenn voru sammála um að „oft var þörf en nú er nauðsyn“ að standa vörð um valmöguleika og virðingu, notendaþekkingu og jafningjagrunn, batahugmyndafræði og valdeflingu, sem sagt standa vörð um gildi Hugarafls og stöðu okkar í Íslensku samfélagi. Yndisleg stund og nærandi. Auðvitað voru fundarstörf höfð í heiðri á fundinum í dag og formlegheitin viðhöfð, til að byrja með.  Í lok hefðbundinnar dagskrár var boðið uppá kaffi og sætindi, raunar allan tímann! Á dagskrá fundar var að taka til umræðu og ákvarðanatöku, umsögn Hugarafls vegna viðmiða til fjölmiðlamanna vegna umræðu um geðheilbrigðismál, sem nú eru í undirbúningi hjá Heilbrigðisráðuneytinu. Umsögnin var lesin upp og samþykkt með örfáum athugasemdum. Fundarmenn voru sammála um að það væri beinlínis varhugavert að hamla opinni umræðu um geðheilbrigðismál og að ritskoðun geti ekki verið af hinu góða. Umsögnin verður send í fyrramálið og birt opinberlega eftir helgi.

Síðan var til umfjöllunar dagskrá rýniviku sem verður 19-23.ágúst.

Að síðustu var rætt um upptöku sem á að fara fram 8.ágúst, allt klappað og klárt.